Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2006 Innviðaráðuneytið

Nefnd skipuð til að kanna einkaframkvæmd í samgöngum

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur skipað nefnd til að leggja fram tillögur um við hvaða aðstæður einkaframkvæmd í samgöngum getur talist vænlegur kostur. Nefndinni er falið að skila tillögum eigi síðar en 1. september þannig að hafa megi álit hennar til hliðsjónar við afgreiðslu samgönguáætlunar 2007 til 2018.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, er formaður nefndarinnar en aðrir nefndarmenn eru Halldór Árnason skrifstofustjóri, sem tilnefndur er af forsætisráðuneytinu, og Stefán Jón Friðriksson viðskiptafræðingur, sem tilnefndur er af fjármálaráðuneytinu. Ritari nefndarinnar verður Eiríkur Bjarnason, verkfræðingur í samgönguráðuneytinu.

Í skipunarbréfi nefndarmanna kemur fram að borist hafi tilboð að undanförnu frá ýmsum aðilum um einkaframkvæmd samgöngumannvirkja. Til dæmis gerð jarðganga um Vaðlaheiði og Óshlíð, tilboð um breikkun Suðurlandsvegar frá Reykjavík og austur fyrir Fjall, tilboð um að hringvegur nr. 1 liggi um Svínvetningabraut, gerð vegar um Arnkötludal og um gerð Sundabrautar í Reykjavík. Nefndinni er falið að taka meðal annars eftirfarandi atriði til athugunar:

  1. Marka stefnu um hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að einkaframkvæmd eigi við um samgöngumannvirki og hvenær ekki.
  1. Marka stefnu um við hvaða aðstæður, hvort og á hvern hátt verði gengið til samninga við aðila sem bjóðast til að fjármagna fyrir ríkið einkaframkvæmd í samgöngum. Í því sambandi komi til álita hvort skylt sé með vísan til laga og alþjóðasamninga að fram fari almennt eða lokað útboð þar sem fleiri aðilum en þeim sem hugmynd eiga að einkaframkvæmdinni er boðið að sinna verkinu.
  1. Hvort samstarf við einkaaðila um verkefni sem ekki hafa komist inní 12 ára samgönguáætlun raski innbyrðis forgangsröð annarra brýnna framkvæmda og hafi þannig áhrif til langrar framtíðar um röðun verkefna.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta