Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 131/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. júlí 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 131/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. júlí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 20. júlí 2012 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 23. júlí 2012 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 25. júlí 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. mars 2012. Ferilskrá kæranda var send 19. maí 2012 til B og var hún í kjölfarið boðuð í atvinnuviðtal. Samkvæmt fyrirsvarsmönnum B ætlaði kærandi að mæta í atvinnuviðtalið en kom ekki.

Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegum skýringum á höfnun kæranda með bréfi, dags. 2. júlí 2012. Skýringarbréf kæranda barst með tölvubréfi, dags. 12. júlí 2012, þar sem fram kom að hún hefði ekki farið í atvinnuviðtalið þar sem vinnutíminn hentaði henni ekki, þetta væri ekki vinna fyrir hana og hún hefði heyrt að vinnuveitandi greiddi ekki laun á réttum tíma.

Í kæru kæranda kemur fram að hún hafi hafnað atvinnuviðtalinu þar sem vinnutíminn hentaði henni ekki því hún eigi barn á leikskólaaldri og maki kæranda vinni á næturnar. Vísar kærandi til ónefndrar reglugerðar sem á að heimila Vinnumálastofnun að horfa til umönnunarskyldu vegna ungra barna.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. ágúst 2012, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geta komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi meðal annars fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Þar sé einnig fjallað um að eðlilegt þyki að þeir sem tryggðir eru samkvæmt frumvarpinu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi sem þeir helst kjósi sér. Hafi sá tími verið liðinn er kærandi hafnaði umræddu atvinnutilboði.

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að það sé ljóst að kærandi hafi hafnað atvinnutilboði hjá B. Kærandi hafi tekið fram að það væri vegna þess að vinnutíminn hentaði henni ekki þar sem hún ætti barn á leikskólaaldri og maki kæranda vinni á næturnar. Vísaði kærandi til ónefndrar reglugerðar sem á að heimila Vinnumálastofnun að horfa til umönnunarskyldu ungra barna þegar skýringar atvinnuleitanda á höfnun starfs eru metnar. Vinnumálastofnun tiltekur að stofnuninni sé gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á starfi, meðal annars með tilliti til aldurs hans, félagslegra aðstæðna og umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Kærandi hafi hins vegar ekki mætt í atvinnuviðtal. Hún hafi því ekki fullreynt hvort starfið kynni að henta aðstæðum sínum, hvort möguleiki væri á að hliðra vinnutíma eða hvort aðrar stöður væru lausar innan fyrirtækisins. Hefði atvinnuviðtal leitt í ljós að kæranda var ekki stætt að taka starfið sökum þeirra ástæðna sem hún gaf hefði stofnunin metið höfnunina með hliðsjón af skyldum og heimilisaðstæðum kæranda. Því geti Vinnumálastofnum ekki fallist á að kærandi vísi til umönnunarskyldu vegna barna sinna því ekki reyndi á þau sjónarmið þar sem hún mætti ekki í umrætt atvinnuviðtal.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. ágúst 2012, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 6. september sama ár. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.


 

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem er fjallað um höfnun á starfi eða atvinnuviðtali. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali. Í 4. mgr. kemur fram að Vinnumálastofnun skuli meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur meðal annars fram í athugasemdum við 57. gr. laganna að eðlilegt þyki að þeir sem eru tryggðir samkvæmt lögunum fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi er þeir helst kjósa að sinna. Mikilvægt þótti að sömu áhrif fylgdu því að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hefðu sömu áhrif og ákvörðun um að taka ekki starfi sem býðst. Atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og því megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við það að hafna starfi. Einnig eru þar tilgreindar ástæður sem geta komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Vinnumálastofnun sé heimilt samkvæmt lögunum að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Sé það niðurstaða stofnunarinnar að svo hafi verið kemur ekki til þess að hinn tryggði sæti viðurlögum vegna þess að hann hafnaði starfinu eða hafnaði því að fara í atvinnuviðtal. Ítrekað er að sú skýring að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma telst ekki réttlæta höfnun á starfi samkvæmt ákvæðinu.

Ljóst er að kærandi hafnaði atvinnuviðtali hjá Bmeð þeim skýringum að vinnutíminn hentaði henni ekki þar sem vinnan hefjist áður en leikskóli barns hennar opnar á morgnana en þá sé maki hennar ekki komin heim úr næturvinnu sinni. Kærandi heldur því fram að þessar skýringar hennar falli undir umönnunarskyldu ungra barna sem Vinnumálastofnun beri að líta til við ákvörðun sína um viðurlög.

Í tilviki kæranda var starfið hjá B á dagvinnutíma samkvæmt gerðum kjarasamningum vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi. Samkvæmt 57. gr. laga atvinnuleysistryggingar er Vinnumálastofnun aðeins heimilt að meta umönnunarskyldu ungra barna sem gilda skýringu á höfnun starfs eða starfsviðtals ef vinnutími starfsins er utan dagvinnutíma eins og skýrt er tekið fram í greinagerð þeirri er fylgdi frumvarpinu, þar sem segir orðrétt: „Ber að ítreka að það að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma telst ekki réttlæta höfnun á starfi samkvæmt ákvæði þessu.“

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ekki fallist á að skýringar kæranda réttlæti höfnun hennar á umræddu atvinnutilboði með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

 

 


 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. júlí 2012 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta