Hoppa yfir valmynd
29. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mat á samstarfsverkefni um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)

Fjallað er um hvernig tekist hefur að ná markmiðum NPA-þjónustu við fatlað fólk í tilraunaverkefnum um þjónustuna, auk þess sem þetta þjónustufyrirkomulag er borið saman við önnur þjónustuúrræði fyrir fatlað fólk, í niðurstöðum rannsóknar sem gerð var fyrir velferðarráðuneytið.

Í lok árs 2010 var fært í lög ákvæði um að ráðist skyldi í samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og samtaka fatlaðs fólks um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Skyldu sveitarfélög í samráði við verkefnisstjórn sem skipuð væri af ráðherra, leitast við að bjóða fötluðu fólki notendastýrða persónulega þjónustu til reynslu í tiltekinn tíma. Síðastliðin ár hafa nokkur þjónustusvæði landsins tekið þátt í samstarfsverkefninu og veitt notendastýrða persónulega þjónustu fyrir afmarkaða hópa.

Í lögum var kveðið á um að fara skyldi fram faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu að því loknu. Á þeim grunni fór velferðrráðuneytið þess á leit við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, í samstarfi við Hagfræðistofnun, Rannsóknasetur í fötlunarfræðum og Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd, að framkvæma rannsóknina.

Rannsókninni var ætlað að varpa ljósi á hvernig tekist hefur að ná markmiðum þjónustunnar og bera NPA saman við önnur þjónustuúrræði sem í boði eru fyrir fatlað fólk. Lögð var áhersla á að bera saman aðstæður og viðhorf NPA-notenda og þeirra sem nýta önnur úrræði og leggja mat á hvort NPA stuðli að sjálfstæðu lífi og almennri þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Rannsókninni var einnig ætlað að meta réttindi og skyldur aðstoðarfólks sem starfar samkvæmt NPA-samningum og kanna upplifun og reynslu þeirra af starfinu. Að lokum sá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um kostnaðar- og ábatagreiningu vegna þjónustunnar.

Samantekt á niðurstöðum rannsóknarinnar fylgir hér með, ásamt kostnaðar- og ábatagreiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þann 2. nóvember næstkomandi efnir verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð til málþings þar sem niðurstöður rannsóknarinnar í heild verða kynntar og ræddar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta