Föstudagspóstur 26. maí 2023
Heil og sæl,
Nú er þessi veðrasama vika senn á enda. Veðrið í höfuðborg Íslands hefur að sjálfsögðu ekki sett neinar hömlur á líf og störf í utanríkisþjónustunni og þá viðburði sem fram hafa farið um víða veröld í vikunni.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var á faraldsfæti. Á mánudag var hún stödd í Sviss í opinberri vinnuheimsókn. Þar átti hún fund með Ignaccio Cassis, utanríkisráðherra. Á tvíhliða fundi þeirra ræddu þau samstarf Íslands og Sviss, meðal annars á sviði mannréttinda, efnahagsmála og grænna lausna. Ráðherrarnir ræddu einnig stöðu heimsmála og mikilvægi áframhaldandi stuðnings við Úkraínu en Sviss gegnir nú í maí formennsku í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Á miðvikudag var ráðherra stödd í Brussel þar sem fram fór fundur EES-ráðsins, sem skipað er utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna í EES, Íslandi, Lichtenstein og Noregi. Var þar meðal annars rætt um viðskiptakerfi um losunarheimilidir í flugi og lét ráðherra í ljós ánægju yfir að fyrir lægju útlínur að lausn um hvernig það yrði útfært gagnvart Íslandi. Málefni Úkraínu og niðurstöður nýafstaðins leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík í síðustu viku voru einnig rædd á fundinum auk þess sem sérstök umræða fór fram um samkeppnishæfni innri markaðirns í ljósi áskorana á alþjóðavettvangi.
Á fimmtudag og föstudag var Þórdís Kolbrún stödd í Vilníus þar sem hún sótti ráðstefnuna Vilnius Russia Forum, átti fund með utanríkisráðherra Litháen og þáði boð Sviatlönu Tsikhanouskaya, leiðtoga stjórnaraðstöðu Belarús um að heimsækja hana á skrifstofu hennar í Vilníus, höfuðstöðvar lýðræðislegrar stjórnarandstöðu Belarús.
Met my friend @Tsihanouskaya at the headquarters of Democratic Belarus in Vilnius yesterday. We will continue to show solidarity and strengthen the relationship with forces that fight for free speech and democracy. pic.twitter.com/ILH0Q5Ja2v
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir🇮🇸 (@thordiskolbrun) May 26, 2023
Íslensk stjórnvöld studdu við varnarbaráttu Úkraínu með kaupum á tíu olíuflutningabílum sem voru afhentir í síðustu viku. Heildarkostnaður við kaupin á bílunum, umsýslu þeirra og afhendingu nemur 400.000 evrum, jafnvirði um sextíu milljóna króna. „Frá upphafi innrásarinnar höfum við lagt áherslu á að styðja stjórnvöld í Úkraínu í samræmi við óskir og þarfir þeirra og getu okkar. Við útvegum ekki úkraínska hernum vopn eða önnur hergögn en við getum hins vegar lagt okkar af mörkum með því að leggja til olíuflutningabíla sem tilfinnanlegur skortur er á og verið fljót til þegar slík þörf skapast,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra af tilefninu.
Norðurhópurinn, samráðsvettvangur tólf líkt þenkjandi ríkja um öryggis- og varnartengd málefni, hittist í Legionowo í nágrenni Varsjár á mánudag. Rætt var um ógnir og áskoranir í Norð-austur Evrópu í kjölfar árásarstríðs Rússlands gegn Úkraínu. Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu sótti fundinn fyrir Íslands hönd í fjarveru utanríkisráðherra.
Förum nú yfir til Bandaríkjanna. Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, sótti ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Nordic Innovation Summit sem haldin var í Seattle nú á dögunum. Á ráðstefnunni var haldinn sérstakur hliðarviðburður tileinkaður nýsköpun í sjávarútvegi á Íslandi.
Þá heimsótti sendiherra höfuðstöðvar Kerecis, ásamt Greg Murphy, þingmanni í fulltrúadeild Bandaríkjaþings sem er meðlimur í Íslandsvinahópi (e. Iceland caucus) á Bandaríkjaþingi.
Great to organize a visit of @RepGregMurphy co-chair of the Iceland caucus to Icelandic company @kerecis #Arlington. Kerecis is pioneering the use of 🐟 skin & fatty acids in wound care & the globally expanding cellular therapy. Thanks for the warm welcome as always @Fertram pic.twitter.com/rKzmEIuDbg
— Iceland in US 🇮🇸 (@IcelandInUS) May 22, 2023
Í New York var endurskoðunarráðstefna úthafsveiðisamningsins loks haldin eftir að hafa verið frestað um tvö ár sökum heimsfaraldursins. Ísland tók þar virkan þátt.
Seven years on, we come together again at the Resumed Review Conference of the UN🇺🇳 #fishstocksagreement🐟
— Iceland at UN 🇮🇸 (@IcelandUN) May 22, 2023
The #UNFSA is a highly important agreement that helps States implement #UNCLOS provisions on sustainable fisheries 🎣 in the #highseas. 9 new States Parties since 2016 👏 pic.twitter.com/1ogdotg6cF
Í tilefni af endurskoðunarráðstefnunni var blásið til hliðarviðburðar þar sem góður gestur frá Genf, Einar Gunnarsson sendiherra, ræddi meðal annars um ríkisstyrki í sjávarútvegi.
Excellent discussions on the fisheries subsidies agreement of the @wto, w/ Chair of the 2nd wave of negotiations - Iceland’s Ambassador in Geneva @einar_gunn🇮🇸 Highly important agreement for the sustainability of #fishstocks. pic.twitter.com/tkf2iAgQsA
— Iceland at UN 🇮🇸 (@IcelandUN) May 25, 2023
Höldum okkur í álfunni og förum næst til Ottawa. Þar stendur mikið til hjá sendiráðinu sem er þessa dagana önnum kafið við að undirbúa opinbera heimsókn forseta Íslands og forsetafrúar sem hefst formlega næstkomandi mánudag. Heimsóknin er sú fyrsta frá árinu 2000 og er sérstaklega þýðingarmikil, enda fögnuðu Ísland og Kanada 75 ára stjórnmálasambandi á síðasta ári. Þess má geta að Eliza Reid forsetafrú fæddist í Ottawa. Við greinum nánar frá heimsókninni að henni afstaðinni.
My wife @ElizaJReid and I look forward to enjoying Iceland's first State Visit to Canada in 23 years. Grateful to H.E. Governor General Mary Simon for the generous invitation and the opportunity to strengthen 🇮🇸🇨🇦 bonds. https://t.co/gwAqhLO8sW
— President of Iceland (@PresidentISL) May 25, 2023
Þótt veðrið hafi ekki leikið við okkur hér heima þessa dagana átti það sama ekki við um starfsfólk sendiráðs Íslands í Peking sem brá sér af bæ á sólríkum starfsdegi í vikunni.
Great 🇮🇸 Embassy in 🇨🇳 Away Day at Longqingxia @MFAIceland pic.twitter.com/bLUfGF9nJM
— Thorir Ibsen (@ThorirIbsen) May 25, 2023
Þá sóttu fulltrúar frá Shanxi sendiráð Íslands í Peking heim til að ræða þátttöku íslenskra fyrirtækja í Taiyuan Energy Low Carbon Development Forum í september næstkomandi.
Thank LIANG Shujuan of the Shanxi Foreign Affairs Office and her team for their visit to the Embassy of 🇮🇸 and for the productive meeting in preparation for the Taiyuan Energy Low Carbon Forum @MFAIceland @HeRulong pic.twitter.com/DoBKMmrTfm
— Thorir Ibsen (@ThorirIbsen) May 26, 2023
Í sendiráðinu á Indlandi var undirrituð viljayfirlýsing milli aðila frá Íslandi og Oil India um samvinnu í leit að og þróun á nýtingu jarðhita á Indlandi. Oil India mun starfa með ÍSOR í þessu verkefni en samstarfið byggir á grunni Iceland India Task Force sem sett var á fót eftir fund forsætisráðherra landanna tveggja í maí á síðasta ári.
Í Brussel tók Sesselja Sigurðardóttir, staðgengill sendiherra, þátt í Brussels Pride göngunni ásamt hópi sendiherra þar í borg sem gengu undir borðanum „Diplomats for equality“.
Og fjölbreytileikanum var ekki bara fagnað í Brussel heldur líka Tókýó þar sem nokkur sendiráð, að því íslenska meðtöldu, tóku sig saman að frumkvæði Bandaríkjanna og sendu út tíst um réttindi LGBTQI+ fólks. Hugmyndin var sú að setja pressu á japönsk stjórnvöld til að setja lög um rétt samkynneigðra til að ganga í hjónaband en Japanir eru sem stendur eina G7 ríkið sem hefur ekki gert það. Framtakið vakti töluverða athygli í japönskum fjölmiðlum enda mikill meirihluti almennings sem styður að slík lög verði sett.
私が複数の親友から同じアドバイスを受けたら、それに対して真摯に耳を傾けます。都内15の在日外国公館は、ある共通のメッセージへの支持を表明しました。それは、われわれは全ての人の普遍的人権を擁護し、LGBTQI+コミュニティーを支援し、差別には反対するというものです。 https://t.co/LpXb5dLFKY
— ラーム・エマニュエル駐日米国大使 (@USAmbJapan) May 12, 2023
Sendiráðið í Tókýó stóð jafnframt fyrir málstofu um sjálfbæra nýtingu matvæla og tækifæri til að umbreyta matvælakerfum, ásamst norrænum kollegum. Málsstofan er liður í röð viðburða undir heitinu „Nordic Talks“, þar sem fulltrúar Norðurlandanna eiga samtal um mikilvæg málefni og miðla þekkingu.
Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Frakklandi, afhenti Alberti II. Fursta af Mónakó trúnaðarbréf sitt miðvikudaginn 17. maí. Sendiherra nýtti ferðina sömuleiðis í að funda með Guillaume Rose, formanni verslunarráðs Mónakó (Monaco Economic Board), Michael Payne kjörræðismanni Íslands í Mónakó og Marie-Catherine Caruso-Ravera, skrifstofustjóra alþjóðamála í utanríkisráðuneytinu.
Ýmislegt hefur drifið á daga sendiráðsins í Varsjá þessa vikuna. Á ráðstefnu nemenda sem leggja stund á skandinavísk fræði í háskólanum í Gdansk komu saman nemendur sem nú læra íslensku og sungu lagið „Sá ég Spóa“.
Þá sækir glæpasagnahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir Pólland heim um þessar mundir í tilefni af alþjóðlegri bókamessu í Varsjá þar sem hún kynnir skáldsögu sína „Huldar og Freyja“, sem komið hefur út á pólsku.
Sendiráð Íslands í Úganda afhenti Namayingo héraði sextán WASH (e. Water And Sanitation Hygiene) stöðvar nú í lok apríl. Þá ferðaðist starfsfólk sendiráðsins til Buikwe héraðs, þar sem bygging skóla og fjögurra vatnsveitna stendur yfir, en allar vatnsveiturnar verða knúnar með sólarrafhlöðum.
Og að lokum til Norðurlandanna. Sendiráð Íslands í Stokkhólmi tók þátt í kaupstefnu norrænna gallería sem haldin var um miðjan maí með vel heppnuðum viðburði í sendiherrabústaðnum. Kaupstefnan er mikill viðburður í listalífi Stokkhólms og með viðburðinum breytti starfsfólk sendiráðsins í einskonar sýningarsal með góðum árangri fyrir galleríin sem tóku þátt í kaupstefnunni.
Í vikunni tók sendiráðið í Stokkhólmi svo á móti starfsfólki sveitarfélags Hornafjarðar í embættisbústað sendiherra. Þar fengu þau kynningu á starfsemi sendiráðsins. Hópurinn er í námsferð í Stokkhólmi til að fræðast um hvernig stjórnsýslu er háttað í sænskum sveitarfélögum.
Í Helsinki heimsótti Harald Aspelund breska herskipið HMS Albion. Skipið er það fyrsta af þessari stærð til að heimsækja Helsinki frá því að Finnar gengu í NATO.
Högni Kristjánsson sendiherra Íslands í Osló og eiginkona hans Ásgerður Magnúsdóttir heimsóttu Bergen í vikunni en listahátíðin Festspillene i Bergen var opnuð á miðvikudag af sjálfum konungshjónunum. Í tengslum við ferðina til Bergen áttu sendiherrahjónin marga góða fundi ásamt Kim Lingjærde, ræðismanni Íslands á staðnum.
Þökkum fyrir vikuna og óskum öllum gleðilegrar hvítasunnuhelgar.
Minnum að endingu á Heimsljós upplýsingaveitu okkar um þróunar- og mannúðarmál.
Sjáumst hress næsta þriðjudag!
Upplýsingadeild.