Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Árbót – óhjákvæmileg og réttmæt aðkoma ráðuneytisins

Aðkoma félags- og tryggingamálaráðuneytisins að gerð samkomulags við lokun Árbótar var óhjákvæmileg og réttmæt. Sameiginlegur vilji var til þess milli Barnaverndarstofu, ráðuneytisins og rekstraraðila að semja um samningslok með greiðslum umfram það sem kveðið var á um í uppsagnarákvæði þjónustusamnings.

Barnaverndarstofa endurnýjaði samning við rekstraraðila Árbótar 1. september 2008 og var hann gerður til fjögurra ára. Í nóvember 2009 hóf Barnaverndarstofa viðræður við forsvarsmenn Árbótar um lokun heimilisins, meðal annars á grundvelli þess að dregið hefði úr eftirspurn eftir meðferð á stofnunum. Barnaverndarstofa vildi einnig bregðast við óskum um að koma á fót meðferðarheimili í meiri nálægð við höfuðborgarsvæðið og vísaði enn fremur til þess að breytinga væri þörf á rekstri Árbótar.

Barnaverndarstofa sagði upp samningi við Árbót í lok síðasta árs, að höfðu samráði við félags- og tryggingamálaráðuneytið. Samhliða var lýst yfir vilja til þess af hálfu Barnaverndarstofu, ráðuneytisins og rekstraraðila Árbótar að ná samkomulagi um samningslok.

Forsendubrestur umdeilanlegur

Það er afstaða félags- og tryggingamálaráðuneytisins að uppsögn þjónustusamnings við Árbót á grundvelli forsendubrests hafi verið umdeilanleg. Meðal annars í ljósi þess að fyrir lá ákvörðun um að byggja upp nýtt þjónustuform með aukinni áherslu á þjónustu við börn á heimilum sínum og eins ákvörðun Barnaverndarstofu um að koma á fót meðferðarheimili nær höfuðborgarsvæðinu. Því hafi verið nauðsynlegt að semja um lokun heimilisins og viðurkenna bætur vegna framkvæmda sem rekstraraðilar höfðu ráðist í til að byggja upp þjónustu til lengri tíma. Á þessu byggði ráðuneytið við gerð samkomulagsins og vildi með því firra sig mögulegri skaðabótaskyldu ef málið kæmi til kasta dómstóla.

Aðkoma ráðuneytisins var að beiðni Barnaverndarstofu

Barnaverndarstofa hóf samningsumleitanir við forsvarsmenn Árbótar og bauð 10 milljónir króna til viðbótar þeim greiðslum sem kveðið var á um í uppsagnarákvæði þjónustusamnings. Ekki náðist samkomulag um þetta og þann 25. mars vísaði Barnaverndarstofa ágreiningi um samningslok til úrlausnar hjá ráðuneytinu. Ráðuneytið komst að samkomulagi við rekstraraðila Árbótar sem fól í sér 30 milljóna króna greiðslu til þeirra, auk greiðslna á uppsagnarfresti. Samkomulagið var staðfest á fundi fjármálaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra 4. júní 2010. Í því fólst að Barnaverndarstofa skyldi greiða 12 milljónir króna af eigin fjárheimildum en jafnframt var sótt um 18 milljóna króna viðbótarframlag til Barnaverndarstofu í frumvarpi til fjáraukalaga til að standa straum af eftirstöðvum greiðslunnar.

Liðlega tvö ár voru eftir af samningstímanum þegar uppsagnarfresti lauk. Meðferðarheimilið Árbót var starfrækt allan uppsagnarfrestinn og þótti sanngjarnt að taka tillit til þess við gerð samkomulagsins. Með samkomulaginu var að hluta til komið til móts við óskir um bætur vegna eftirstöðva skulda sem stofnað hafði verið til vegna uppbyggingar aðstöðu á Árbót og kostnaðar við aðlögun húsakosts að nýjum notum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta