Ráðherra vígir ofanflóðavarnir á Eskifirði
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, vígði í dag ofanflóðavarnir við farvegi Bleiksár, Hlíðarendaár og Ljósár á Eskifirði.
Framkvæmdir við gerð varnanna hófust 2014 og og hefur verið unnið á þeim samfellt síðan. Lögð var áhersla á útlit varnanna, uppgræðslu og gerð göngustíga í undirbúningi framkvæmdanna þannig að þær myndu falla sem best að umhverfinu og og til að bæta aðstöðu fólks til útivistar. Unnið er að fleiri framkvæmdum á Eskifirði við farveg Lambeyrarár og hönnun varna við farveg Grjótár á Eskifirði.
Framkvæmdir þessar eru hluti af því viðamikla verkefni stjórnvalda að auka öryggi fólks á heimilum sínum á hættusvæðum vegna ofanflóða. Er miðað við að ljúka að fullu við gerð varna á þeim svæðum sem búa við ofanflóðahættu árið 2030.
Guðmundur Ingi fagnaði framkvæmdinni í ávarpi sínu. „Á næstu árum þarf að halda áfram því mikilvæga verkefni að huga að vörnum gegn ofanflóðum eins og hamfarirnar á Flateyri og Seyðisfirði minntu okkur rækilega á. Huga þarf m.a. að því að hugsanlegt er að aftakaúrkoma verði tíðari á næstu áratugum og sífreri í fjallshlíðum minnki. Þetta er talið vera vegna áhrifa loftslagsbreytinga af mannavöldum sem valda nú margvíslegum breytingum á náttúrufari hér á landi sem annars staðar.“