Mál nr. 322/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 322/2023
Fimmtudaginn 24. ágúst 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 28. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. maí 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2022 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 362.835 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. júní 2023. Með bréfi, dags. 4. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. júlí 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júlí 2023. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi og eiginmaður hennar fái leigutekjur af einni íbúð. Við útreikning á skatti sé helmingur leigutekna taldar sem fjármagnstekjur. Í uppgjöri Tryggingastofnunar ríkisins hafi helmingur kæranda hins vegar verið talinn að fullu sem fjármagnstekjur.
Leigutekjur séu ekki að fullu fjármagnstekjur í raun, enda kosti rekstur húsnæðisins, svo sem fasteignagjöld, viðhald, fráveitugjöld og fleira, sem sé ástæða þess að Skatturinn reikni helming leigutekna sem fjármagnstekjur.
Á vefsíðu Skattsins segi að þegar um ræði útleigu húsnæðis til íbúðar leigutaka til lengri eða skemmri tíma og fasteignirnar séu ekki fleiri en tvær, séu 50% teknanna skattlagðar sem fjármagnstekjur.
Kærandi telji óeðlilegt að Tryggingastofnun líti öðruvísi á leigutekjur en Skatturinn, auk þess sem þetta sé í andstöðu við jafnræði á milli öryrkja og ófatlaðra einstaklinga. Kærandi óski eftir því að jafnræðis verði gætt og að meðferð leigutekna hjá Tryggingastofnun verði endurskoðuð.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022.
Um útreikning örorkulífeyris hafi verið fjallað í III. kafla þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta.
Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars örorkulífeyris, sbr. 26. og 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. greinarinnar hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.
Í a-lið 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið fjallað um fjármagnstekjur en þar hafi komið fram að ef um ræði hjón skiptist tekjur samkvæmt 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Ekki skipti máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. Hliðstætt ákvæði sé að finna í 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.
Samkvæmt 5. mgr. 18. gr., 1. mgr. 21. gr. og 4. mgr. 22. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi örorkulífeyrir og tengdar greiðslur lækkað um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn félli niður, sbr. 26., 28. og 29. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.
Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða einstaklingi sem fær örorkulífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skuli miða við að heildartekjur hans séu undir tiltekinni fjárhæð á mánuði.
Í 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta framhjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.
Um skattskyldar tekjur sé fjallað í II. kafla laga um tekjuskatt. Í 1. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sé kveðið á um það að leigutekjur og arður af hvers konar lausafé, þar með talin skip og loftför teljist til skattskyldra tekna.
Í VI. kafla laga um tekjuskatt, um tekjuskattsútreikning, afslætti og barnabætur segi í 3. mgr. 66. gr. að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skuli vera 22% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljist í þessu sambandi tekjur samkvæmt 1. til 8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Þá segi að þó skuli ekki reikna tekjuskatt af 50% hlutfalli af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis sem nýtt sé til búsetu leigjanda og falli undir húsaleigulög, enda hafi leigusamningur verið skráður í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. 5. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, eða að maður hafi talið leigutekjur sérstaklega fram í skattframtali.
Í ljós hafi komið við endurreikning bóta að bætur sem hafi verið ofgreiddar fari um samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Málavextir séu þeir að kærandi hafi þegið örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun allt árið 2022.
Með bréfi, dags. 28. janúar [2022], hafi kæranda verið send tillaga að tekjuáætlun fyrir árið 2022. Þar hafi verið áætlað að kærandi fengi 76.676 kr. í launatekjur og 37.117 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2022. Kærandi hafi fengið greiddar tekjutengdar greiðslur sínar á grundvelli þeirrar tekjuáætlunar allt árið 2022. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur kæranda á árinu 2022 hafi legið fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum hafi komið í ljós að kærandi hafi í raun ekki haft neinar launatekjur á árinu. Sameiginlegar fjármagnstekjur kæranda og eiginmanns hennar hafi hins vegar verið 1.737.235 kr. á árinu. Aðeins helmingur þeirrar fjárhæðar, eða 868.617 kr. hafi haft áhrif við útreikning á tekjutengdum greiðslum kæranda. Þrátt fyrir það hafi fjármagnstekjurnar verið vanáætlaðar á tekjuáætlun kæranda og því hafi hún fengið ofgreiddar tekjutengdar bætur á árinu 2022.
Í málinu snúist ágreiningurinn nánar tiltekið um tekjuviðmið Tryggingastofnunar við endurreikning á tekjutengdum bótum kæranda. Kærandi geri athugasemdir við það að stofnunin hafi notað heildarleigutekjur hennar til skerðingar á lífeyri en hafi ekki tekið tillit til kostnaðar eins og gert sé hjá Skattinum.
Í 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði hafi því verið tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun skyldi miða útreikning og endurreiking bóta og jafnframt hafi verið tilgreindar þær undantekningar sem stofnuninni hafi borið að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Þar hafi sú regla, sem komi fram í áðurnefndum 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, ekki verið tilgreind. Tryggingastofnun telji að þrátt fyrir að umrædd regla gildi við meðhöndlun skattyfirvalda á tilteknum fjármagnstekjum kæranda gildi hún ekki þegar komi að endurreikningi stofnunarinnar á tekjutengdum bótum hennar. Þessi framkvæmd Tryggingastofnunar hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd, meðal annars í málum nr. 282/2017, 283/2017, 290/2017 og 423/2021.
Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta.
Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 23. maí 2023 um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022 verði staðfest fyrir nefndinni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022 og innheimtu ofgreiddra bóta.
Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun árið 2022. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.
Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli þágildandi 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.
Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt þágildandi 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.
Í tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun, dags. 28. janúar 2022, var gert ráð fyrir atvinnutekjum sem samanstóðu af launatekjum að fjárhæð 76.676 kr. og 3.072 kr. iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar. Einnig var gert ráð fyrir 37.117 kr. í fjármagnstekjur sem samanstóðu af 32.305 kr. í vexti og verðbætur og 4.812 kr. í arð. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun. Bótaréttindi ársins voru því reiknuð og greidd út miðað við þær forsendur. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2022 var kærandi ekki með atvinnutekjur en 1.737.235 kr. í fjármagnstekjur sameiginlegar með maka, nánar tiltekið 83.312 kr. í vexti og verðbætur, 3.923 kr. í arð og 1.650.000 kr. í leigutekjur.
Í tilfelli kæranda voru það fjármagnstekjur hennar sem leiddu til ofgreiðslu á árinu 2022. Fjármagnstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og einnig C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að fjármagnstekjur upp að frítekjumarki skulu ekki teljast til tekna við útreikning á greiðslum samkvæmt þeim kafla laganna.
Með hliðsjón af framangreindu ákvæði er ljóst að fjármagnstekjur kæranda, að teknu tilliti til frítekjumarks, skerða bótaréttindi hennar. Frítekjumark fjármagnstekna var 98.640 kr. árið 2022 og fékk kærandi ofgreiddar fjármagnstekjur það ár.
Í máli þessu snýst ágreiningur nánar tiltekið um tekjuviðmið Tryggingastofnunar ríkisins við endurreikning á tekjutengdum bótum kæranda. Kærandi gerir athugasemdir við það að stofnunin hafi notað heildarleigutekjur hennar til skerðingar á lífeyri en hafi ekki tekið tillit til kostnaðar eins og gert sé hjá Skattinum. Ætla má að kærandi sé að vísa til þeirrar reglu sem kemur fram í 4. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í málsgreininni segir að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skuli vera 22% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljist í þessu sambandi tekjur samkvæmt 1.-8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Þá segir í 4. málslið að þó skuli ekki reikna tekjuskatt samkvæmt 1. málsl. af heildarvaxtatekjum að fjárhæð 150.000 kr. á ári hjá manni og 50% af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis til búsetu leigjanda.
Í þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt IV. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði er því tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun ríkisins skuli miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt eru tilgreindar þær undantekningar sem stofnuninni ber að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Þar er sú regla, sem kemur fram í áðurnefndri 4. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, ekki tilgreind. Úrskurðarnefnd telur því að þrátt fyrir að umrædd regla gildi við meðhöndlun skattyfirvalda á tilteknum fjármagnstekjum kæranda, gildi hún ekki þegar kemur að endurreikningi Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum hennar.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2022.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2022, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir