Árni Þór Sigurðsson afhendir trúnaðarbréf í Moldóvu
Árni Þór Sigurðsson sendiherra afhenti þann 26. janúar sl. frú Maiu Sandu forseta Moldóvu trúnaðarbréf sitt sem sendiherra í Moldóvu með aðsetri í Moskvu. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Kísínev (Chișinău).
Í samtali forsetans og sendiherrans minntist frú Sandu á ánægjulegan fund hennar og forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessonar, í París í nóvember sl., en einnig ræddu forsetinn og sendiherrann um möguleika á samstarfi ríkjanna á sviði endurnýjanlegrar orku og viðskipta sem og um pólitískt samstarf, bæði tvíhliða og eins á vettvangi alþjóðastofnana. Þá gat forseti þess að hún hefði áhuga á að taka virkan þátt í starfi kvenleiðtoga (Women‘s Political Leaders) sem hefur aðsetur í Reykjavík.
Í tengslum við afhendingu trúnaðarbréfs átti sendiherra fundi með varautanríkisráðherra, efnahagsmálaráðherra, skrifstofustjóra pólitískra mála í utanríkisráðuneytinu, yfirstjórn Orkustofnunar og framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs, auk þess að heimsækja hugveitu á sviði stjórnmála og alþjóðasamskipta.