Ísland af "gráum" lista FATF
Á aðalfundi FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, í dag var sú ákvörðun tekin að nafn Íslands yrði fjarlægt af lista samtakanna yfir ríki með ófullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eða hinum svokallaða „gráa lista“ FATF.
Ákvörðunin var tekin í kjölfar vettvangsathugunar sem fram fór hér á landi í lok september, þar sem staðfest var af hálfu sérfræðinga á vegum FATF að lokið hefði verið með fullnægjandi hætti við þær aðgerðir sem Íslandi var gert að grípa til í því skyni að komast af umræddum lista. Við sama tilefni var jafnframt staðreynt af hálfu umræddra sérfæðinga að til staðar væri ríkur pólitískur vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að halda áfram vinnu við að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
„Undanfarin tvö ár hefur verið lyft grettistaki í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ég er þakklát fyrir það mikla og óeigingjarna starf sem hefur verið innt af hendi af hálfu fjölmargra aðila og einstakra stjórnvalda hér á landi til þess að þessi niðurstaða mætti líta dagsins ljós. Eru þeim öllum færðar þakkir og hamingjuóskir í tilefni áfangans,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í tilefni jákvæðrar niðurstöðu FATF.