Hoppa yfir valmynd
20. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 175/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 175/2018

Fimmtudaginn 20. september 2018

A

gegn

Reykjavíkurborg

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. maí 2018, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 10. janúar 2018, á umsókn hennar um styrk að fjárhæð 231.910 kr. á grundvelli 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 14. nóvember 2017, sótti kærandi um styrk hjá Reykjavíkurborg á grundvelli 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg að fjárhæð 231.910 kr. til greiðslu húsaleiguskuldar við C auk annarra reikninga. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 17. nóvember 2017, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 10. janúar 2018 og staðfesti synjunina. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 13. febrúar 2018.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. maí 2018. Með bréfi, dags. 30. maí 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 13. júní 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júní 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 10. júlí 2018, og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júlí 2018. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 26. júlí 2018, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. ágúst 2018. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 16. ágúst 2018 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. ágúst 2018.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Reykjavíkurborgar verði felld úr gildi og sveitarfélagið taki nýja ákvörðun í málinu byggða á framlögðum gögnum. Kærandi telur að Reykjavíkurborg hafi ekki rannsakað málið nægilega áður en ákvörðun hafi verið tekin þar sem hún hafi ekki verið beðin um að leggja fram tiltekin gögn. Þá telur kærandi að Reykjavíkurborg hafi ekki leiðbeint henni um hvernig hún gæti uppfyllt skilyrði reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Því sé ljóst að málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi ekki verið sem skyldi, enda hafi hin kærða ákvörðun verið byggð á gögnum sem aldrei hafi verið óskað eftir.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, en öll skilyrði ákvæðisins þurfi að vera uppfyllt svo að heimilt sé að veita aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 24. gr. reglnanna þar sem hún hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu undanfarna sex mánuði eða lengur. Þá séu skilyrði b–d liða ákvæðisins ekki uppfyllt þar sem ekki liggi fyrir gögn þess efnis. Á grundvelli framangreinds hafi umsókn um styrk til greiðslu húsaleiguskuldar við Félagsbústaði hf. og vanskila annarra reikninga verið synjað.

Reykjavíkurborg tekur fram að kærandi hafi ítrekað sótt um styrk samkvæmt 24. gr. reglnanna á árinu 2017. Öllum þeim umsóknum hafi verið svarað með formlegum hætti og því verði að telja að kæranda hefði átt að vera ljóst hvaða skilyrði væri nauðsynlegt að uppfylla, enda séu þau öll tilgreind í synjunarbréfunum. Þá hafi kærandi verið í miklum samskiptum við félagsráðgjafa sinn sem hafi ítrekað leiðbeint henni um skilyrði reglnanna með tilheyrandi hætti. Því telji Reykjavíkurborg að skilyrði 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið uppfyllt.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi það verið mat velferðarráðs að skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg væru ekki uppfyllt og því hafi velferðarráð staðfest synjun þjónustumiðstöðvar.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk að fjárhæð 231.910 kr. á grundvelli 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Samkvæmt því er heimilt að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:

  1. umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur,
  2. staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana,
  3. fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar eða Umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á,
  4. fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni breyta skuldastöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið,
  5. fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við.

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki notið fjárhagsaðstoðar sér til framfærslu frá Reykjavíkurborg síðastliðna sex mánuði eða lengur þegar umsókn um styrk vegna sérstakra erfiðleika barst Reykjavíkurborg. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.

Kærandi hefur gert athugasemdir við málsmeðferð Reykjavíkurborgar og telur að mál hennar hafi ekki verið rannsakað nægilega og að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið sinnt. Í máli þessu er ljóst að kærandi uppfyllti ekki framangreint skilyrði a-liðar 24. gr. og gögn þess efnis voru til staðar hjá sveitarfélaginu þegar hún lagði fram umsókn sína um styrk. Frekari rannsókn eða leiðbeiningar frá Reykjavíkurborg hefðu ekki breytt neinu þar um. Úrskurðarnefndin telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við málsmeðferð sveitarfélagsins.  

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 10. janúar 2018, um synjun á umsókn A, um styrk að fjárhæð 231.910 kr. á grundvelli 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta