Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 78/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 3. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 78/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21120055

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 28. desember 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. desember 2021, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 1., 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Hinn 25. janúar 2022 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir kæranda þar sem hann krefst þess að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 24. janúar 2021. Með umsókn framvísaði kærandi m.a. útrunnu vegabréfi útgefnu af yfirvöldum í Venesúela og dvalarleyfisskírteini útgefnu af argentínskum yfirvöldum með gildistíma frá 14. ágúst 2013 til 14. ágúst 2028. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. dagana 11. febrúar, 13. apríl og 25. október 2021, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað hinn 20. apríl 2021 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Kærði kærandi ákvörðunina hinn 11. maí 2021 til kærunefndar útlendingamála. Hinn 7. október 2021 var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Með ákvörðun, dags. 9. desember 2021, synjaði Útlendingastofnun öðru sinni að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda hinn 14. desember 2021 og kærði kærandi ákvörðunina hinn 28. desember 2021 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 13. janúar 2022. Þá bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir í máli kæranda hinn 25. janúar 2022.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi sé með ótímabundið dvalarleyfi í Argentínu. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Argentínu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Argentínu.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. við trúverðugleikamat stofnunarinnar og beitingu a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá fjallar kærandi um skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en þar sé að finna ákvæði sem geti komið í veg fyrir synjun á efnismeðferð umsóknar samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna og vísar að auki til reglugerðar um útlendinga nr. 276/2018, með síðari breytingum. Kærandi hafi greint frá því að hafa orðið fyrir fordómum og útlendingaandúð í Argentínu vegna uppruna síns og hafi lagt fram gögn því til stuðnings. Kærandi fjallar um aðstæður í Argentínu og nýlegar lagabreytingar þar í landi sem hafi verið gagnrýndar af ýmsum mannréttindasamtökum. Með lagabreytingunum hafi innflytjendur, flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd upplifað takmarkanir á aðgengi að félagslegri aðstoð, vinnumarkaði og fullnægjandi húsnæði. Þá hafi Covid-19 faraldurinn haft slæm áhrif á framangreinda hópa. Að mati kæranda verði flóttamenn og aðrir innflytjendur frá Venesúela fyrir mismunun í Argentínu og staða þeirra megi teljast verulega síðri en staða almennings þar í landi. Þá vekur kærandi athygli á því að hann sé þolandi kynferðisofbeldis en samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljist hann því í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Með hliðsjón af framangreindu telur kærandi að í máli hans séu sérstakar ástæður sem leiði til þess að taka beri umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi.

Kærandi byggir að auki á því að endursending hans til Argentínu myndi vera í andstöðu við 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Viðurkennt sé að einstaklingar sem hafi mótmælt yfirvöldum í Venesúela, líkt og kærandi hafi gert, hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir þeirra vegna stjórnmálaskoðana og í ljósi þess að yfirvöld í Argentínu eigi í nánu sambandi við yfirvöld í Venesúela, s.s. með því að veita þeim stuðning og umbera mannréttindabrot þeirra, telji kærandi að ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur aftur til heimaríkis frá Argentínu.

Hinn 25. janúar 2022 barst kærunefnd viðbótarathugasemd í máli kæranda þar sem fram kemur að þar sem meira en 12 mánuðir séu liðnir frá því að hann lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi og tafir á afgreiðslu umsóknarinnar séu ekki á ábyrgð kæranda sé ljóst að hann uppfylli skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Því beri að ógilda hina kærðu ákvörðun og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður samkvæmt 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá telur kærunefnd að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Líkt og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 24. janúar 2021 og voru hinn 24. janúar 2022 liðnir 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda barst fyrst íslenskum stjórnvöldum án þess að hann hefði fengið endanlega niðurstöðu frá stjórnvöldum í máli sínu, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hinn 26. janúar 2022 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar Útlendingastofnunar barst kærunefnd hinn 26. janúar 2022. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki tafið mál sitt að nokkru leyti.

Af framangreindum upplýsingum frá Útlendingastofnun má því ráða að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi ekki verið af völdum kæranda. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í máli hans og er að mati kærunefndar ekkert sem bendir til þess að hann verði talinn bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknar sinnar, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hinn 24. janúar 2021, er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi niðurstöðu kærunefndar er ekki tilefni til að taka aðrar málsástæður kæranda til umfjöllunar í máli þessu.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                             Sandra Hlíf Ocares


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta