Hoppa yfir valmynd
27. júní 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 326/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 326/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040073

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. apríl 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. mars 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa henni frá landinu.

Þess er krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, með síðari breytingum. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 25. september 2018 ásamt mágkonu sinni og börnum hennar. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum þann sama dag kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Frakklandi. Þann 4. október 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá frönskum yfirvöldum, dags. 17. október 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 22. mars 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 26. mars 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 8. apríl 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 30. apríl 2019 ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir og frekari gögn dagana 23. maí, 3. júní og 5. júní 2019.

Með tölvupósti, dags. 21. júní 2019, tilkynnti Útlendingastofnun talsmanni kæranda að mál mágkonu hennar og barna yrðu tekin til efnismeðferðar hjá stofnuninni ásamt máli bróður kæranda, sem sótt hafi um alþjóðlega vernd hér á landi í febrúar sl., eftir að endurupptökubeiðni hafi borist stofnuninni. Þessar upplýsingar bárust kærunefnd þann 26. júní 2019.Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Þá var þess óskað að kærunefnd nýtti heimild í 2. málsl. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga og fengi bróður kæranda einnig til viðtals hjá kærunefnd. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda eða bróður hennar kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að frönsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Frakklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Frakklands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda eru ástæður flótta hennar frá heimaríki raktar. [...]. Kærandi hafi mótmælt því að verða send aftur til Frakklands í viðtali hjá Útlendingastofnun. [...]. Hún hafi jafnframt þurft að sofa á götunni í Frakklandi auk þess sem hún hafi legið fyrir nánast allan tímann þar í landi vegna líkamlegrar vanlíðunar.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun í greinargerð sinni. Í fyrsta lagi mótmælir kærandi þeirri staðhæfingu Útlendingastofnunar að engin gögn um andlegt ástand kæranda hafi verið lögð fram við meðferð málsins hjá stofnuninni. Þvert á móti sé að finna töluverðar upplýsingar um andlega heilsu hennar í heilsufarsgögnum í máli mágkonu kæranda en þær hafi mætt saman í viðtöl á Göngudeild sóttvarna. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við að hún skuli ekki hafa verið metin í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Vísi kærandi í því sambandi m.a. til viðtala sinna hjá Útlendingastofnun sem kærandi telji að bendi til þess að hún sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Með vísan til rannsóknarskyldu Útlendingastofnunar telur kærandi að rétt hefði verið að framkvæmd sálfræðimat á kæranda, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Er þess farið á leit að bætt verði úr þeim annmarka hjá kærunefnd. Í þriðja lagi mótmælir kærandi staðhæfingu Útlendingastofnunar að hún muni geta leitað sér heilbrigðisþjónustu í Frakklandi. Í fjórða lagi gerir kærandi athugasemd við að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið birt þrátt fyrir að ekkert svar hafi borist við beiðni íslenskra stjórnvalda til Frakklands um að umsókn fjölskyldunnar allrar, þ.e. kæranda, bróður kæranda, mágkonu hennar og barna hennar, yrði tekin yfir af frönskum yfirvöldum á grundvelli 11. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Telji kærandi að full ástæða hafi verið til þess að fresta ákvarðanatöku í málinu þar til fyrir lægi hvort mál bróður kæranda hlyti efnislega meðferð hér á landi en kærandi telji að þá skuli einnig taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi. Því telji kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga við meðferð málsins.

Þá telji kærandi enn fremur að Útlendingastofnun hafi borið að leiðbeina henni um að leggja fram gögn sem staðfesti tengsl hennar við áðurnefndan bróður sinn hafi það skipt stofnunina máli í tengslum við umsókn hennar. Kærandi hafi lagt fram mynd af vegabréfi sínu þar sem nafn hennar og móður komi fram. Þá hafi kærandi jafnframt lagt fram mynd af vegabréfi bróður síns, þar sem nafn hans og móður komi einnig fram. Það sé því engum vafa undirorpið að þau séu systkini. Því hafi Útlendingastofnun brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi telur að þótt hún falli strangt til tekið ekki undir þrönga skýringu Dyflinnarreglugerðarinnar um hugtakið aðstandendur, sbr. g-lið 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, verði vart litið framhjá ákvæðum hennar um sameiningu fjölskyldunnar, sbr. 3. mgr. 7. gr. og 17. gr. formála Dyflinnarreglugerðarinnar. Framburður kæranda um tengsl hennar við mágkonu sína, barna hennar og bróður sinn, hafi legið fyrir hjá Útlendingastofnun. Vísi kærandi jafnframt til þess að fjölskyldan öll sé staðsett hér á landi og geri kærandi þá athugasemd við að í stað þess að taka formlega afstöðu til þess hvort umsókn bróður kæranda skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi hafi verið send beiðni til franskra stjórnvalda á grundvelli 11. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem óskað hafi verið eftir því að frönsk stjórnvöld tækju yfir ábyrgð á umsókn bróður kæranda. Vísi kærandi einnig til 1. mgr. 32. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, um að stjórnvöld skuli líta til og leggja áherslu á skilvirkni umsóknarferlisins. Telji kærandi að Útlendingastofnun hafi litið framhjá þessu ákvæði með ákvörðun sinni, sem og hagsmunum fjölskyldunnar í heild.

Kærandi gerir í greinargerð sinni stuttlega grein fyrir aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi, m.a. með vísan til alþjóðlegra skýrslna. Þar komi m.a. fram að mikið álag sé á franska hæliskerfinu og fáir fái þar alþjóðlega vernd. Aðgangur að hæliskerfinu sé erfiðleikum bundinn og ýmsir vankantar séu á málsmeðferð þar í landi, t.d. að greina þurfi frá ástæðum fyrir umsókn um alþjóðlega vernd í Frakklandi á frönsku. Heimildir bendi þá til þess að þótt heilbrigðisþjónusta standi umsækjendum um alþjóðlega vernd til boða að orði kveðnu, þá sé raunin önnur. Læknar séu t.d. tregir til þess að meðhöndla einstaklinga sem falli undir félagslegar tryggingar, auk þess sem takmarkað aðgengi sé að geðheilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp fólks. Þá vísi kærandi til þess að færst hafi í vöxt að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu hnepptir í varðhald í Frakklandi og hafi aðstæður í sumum varðhaldsmiðstöðvum sætt gagnrýni.

Aðalkrafa kæranda er reist á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en þar komi m.a. fram að hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd slík sérstök tengsl við landið að nærtækt sé að hann fái hér vernd skuli taka málið til efnismeðferðar. Kærandi vísi í því sambandi m.a. til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og túlkunar kærunefndar á hugtakinu í úrskurði nr. 397/2017 frá 6. júlí 2017. Kærandi telji ljóst að sérstök tengsl í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu á milli kæranda og áðurnefnds bróður hennar. Þá vísi kærandi til þess að hún hafi [...]. Þannig hnígi sterk rök til þess að meðhöndla umsókn kæranda með sama hætti og mágkonu hennar og barna hennar en þær hafi komið saman hingað til lands og virðist óaðskiljanlegar. Kærandi vísi þá jafnframt til 3. mgr. 7. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar í þessu sambandi, þar sem lögð sé áhersla á sameiningu fjölskyldunnar, sbr. einnig 17. gr. formála Dyflinnarreglugerðarinnar og 10. og 17. gr. reglugerðarinnar en síðastnefnda ákvæðið hafi verið kallað mannúðarákvæðið eða fullveldisreglan. Kærandi vísi jafnframt til ummæla í nýjustu skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem stofnunin hafi biðlað til Evrópuríkja að beita reglugerðinni til fulls. Vegna náinna tengsla kæranda og bróður hennar telji kærandi að full ástæða hafi staðið til þess að beita undanþáguheimild 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og taka mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi. Þá vísi kærandi til þess að hugtakið sérstök tengsl í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verði ekki túlkað til samræmis við hugtakið aðstandendur í Dyflinnarreglugerðinni og veiti 2. mgr. 36. gr. laganna rýmra svigrúm til mats hverju sinni á sérstökum tengslum.

Aðalkrafa kæranda er enn fremur reist á því að sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga standi til þess að taka mál hennar til efnislegrar meðferðar. Að mati kæranda sé hún í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en hún hafi orðið fyrir miklu ofbeldi og glími við mikla andlega vanlíðan. Vísi kærandi í því sambandi til athugasemda í frumvarpi til laga nr. 81/2017 um breytingu á lögum um útlendinga þess efnis að það sé vilji löggjafans að taka umsókn til efnislegrar meðferðar ef umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Í viðbótarathugasemdum, sem bárust kærunefnd þann 5. júní 2019, kemur fram að Útlendingastofnun hafi tilkynnt kæranda að frönsk stjórnvöld hafi synjað um viðtöku bróður kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd. Væru því forsendur í málum mágkonu kæranda og barna hennar brostnar þar sem þeim væri ókleift að fara saman til Frakklands. Því yrðu umsóknir mágkonu kæranda og barna hennar teknar til efnismeðferðar hér á landi, enda myndi kærunefnd útlendingamála úrskurða svo um. Hvað varði mál kæranda væri það mat Útlendingastofnunar að forsendur í ákvörðun hennar stæðu óbreyttar. Kærandi ítreki framangreinda kröfu sína, en hún bendir á að hún hafi bundist þeim sterkum böndum og hafi verið börnunum sem móðir um árabil. Sterk rök hnígi því til þess að taka skuli mál hennar til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda þjóni það ekki hagsmunum barnanna að aðskilja þau frá kæranda.

Þá bárust kærunefnd frekari upplýsingar frá talsmanni kæranda þann 26. júní 2019, þar sem Útlendingastofnun hafi staðfest að mál mágkonu kæranda og barna hennar verði tekin til efnismeðferðar hjá stofnuninni ásamt máli bróður kæranda eftir að endurupptökubeiðni hafi borist stofnuninni.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun hafi borið að taka umsókn hennar til efnislegrar meðferðar og vísar í því sambandi m.a. til 3. mgr. 7. gr., 10. gr. og 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar. Í 3. mgr. 7. gr. kemur m.a. fram að í ljósi viðmiðananna sem um geti í 8., 10. og 16. gr. skulu aðildarríki taka tillit til hvers kyns sannana, sem liggja fyrir, um að aðstandendur, skyldmenni eða aðrir sem tengjast umsækjanda fjölskylduböndum séu staddir á yfirráðasvæði aðildarríkis. Að mati kærunefndar felur tilvísun ákvæðisins til 8., 10. og 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar í sér að ákvæðið komi aðeins til skoðunar í þeim tilvikum þegar umrædd ákvæði eru talin eiga við um umsókn umrædds einstaklings um alþjóðlega vernd. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi m.a. óskað eftir því að mál hennar verði sameinað máli bróður hennar á grundvelli 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar kemur fram að eigi umsækjandi aðstandanda í aðildarríki, sem enn bíður þess að fyrsta ákvörðun verði tekin um umsókn hans um alþjóðlega vernd, skuli það aðildarríki bera ábyrgð á meðferð umsóknarinnar um alþjóðlega vernd, að því tilskyldu að viðkomandi einstaklingar óski eftir því skriflega. Hugtakið aðstandandi er skilgreint í g-lið 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en þar er m.a. átt við maka og sambúðarmaka og ólögráða börn þeirra. Samkvæmt orðalagi g-liðar 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar telur kærunefnd ljóst að kærandi teljist ekki aðstandandi, svo sem kærandi tekur raunar fram í greinargerð sinni.

Eins og áður hefur komið fram þá hafa frönsk stjórnvöld fallist á viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd. Er ábyrgð Frakklands á umsókn kæranda byggð á b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi sé með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja frönsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í greinargerð kæranda byggir hún kröfu sína m.a. á því að hún hafi sérstök tengsl við landið. Sem áður segir kom kærandi hingað til lands í september 2018 og sótti um alþjóðlega vernd ásamt mágkonu sinni og börnum hennar, en kærandi kveðst m.a. hafa gengið börnunum í móðurstað um árabil og tengst þeim sterkum böndum. Í febrúar hafi maður sótt um alþjóðlega vernd hér á landi en kærandi kveður hann vera bróður sinn og eiginmann mágkonu kæranda. Hefur kærandi m.a. lagt fram ljósmyndir af vegabréfi sínu og bróður síns sem hún telji að sýni fram á tengsl þeirra. Kærandi vísar til lögskýringargagna sem hún telji að séu til marks um vilja löggjafans til að víkka út hugtakið sérstök tengsl í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar þá einnig til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 397/2017 frá 6. júlí 2017 en þar hafi kærunefnd m.a. talið að hugtakið gæti ekki takmarkast við þrönga skýringu hugtaksins aðstandendur í g-lið 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. skuli túlkað í framkvæmd. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þannig að leggja verði til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríki, svo sem vegna fyrri dvalar. Þá gera athugasemdirnar í frumvarpi og ákvæði 32. gr. b reglugerðar um útlendinga ráð fyrir því að fyrri dvöl umsækjanda hér á landi geti leitt til þess að um sérstök tengsl séu að ræða. Jafnframt sé ljóst að þau tengsl sem ákvæðið vísar til geta verið fjarlægari en þau nánu fjölskyldutengsl sem Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um. Meðal þess sem líta verði til við matið á því hvort umsækjandi hafi sérstök tengsl við landið sé hversu rík tengslin séu hér á landi.Samkvæmt framansögðu getur komið til skoðunar hvort kærandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þegar hann á ættingja hér á landi.

Kærunefnd telur að leggja skuli til grundvallar að ef umsækjandi um alþjóðlega vernd á sannanlega ættingja hér á landi, sem hefur heimild til dvalar hér, sem hann hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér á landi en ekki í viðtökuríki, geti umsókn hans verið tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli þess að umsækjandi hafi sérstök tengsl við landið.Samkvæmt gögnum málsins er mál bróður kæranda enn til meðferðar hjá Útlendingastofnun og hefur stofnunin, í tölvupóstum til talsmanns kæranda, dags 29. maí og 21. júní 2019, lýst því að mál hans muni hljóta efnislega meðferð þar. Þrátt fyrir að bróðir kæranda og fjölskylda hans séu stödd hér á landi og hafi sótt um alþjóðlega vernd er það mat kærunefndar að tengsl kæranda við landið séu ekki slík að hægt sé að fallast á að skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt. Kærunefnd áréttar í því sambandi að bróðir kæranda og fjölskylda hans eru einungis stödd hér á landi í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd, umsóknir þeirra eru enn til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og endanleg ákvörðun hefur því ekki verið tekin í málum þeirra.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram tiltekin viðmið um þær aðstæður sem teljast til sérstakra ástæðna skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ljóst er að þessi viðmið eru rakin í dæmaskyni og eru ekki tæmandi.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...]. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera undir álagi, hún sé [...]. Í framlögðum heilsufarsgögnum komi m.a. fram að kærandi glími [...]. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt mágkonu sinni og börnum hennar. Í gögnum um heilsufar mágkonu kæranda, sem lögð hafa verið fram sem gögn í máli kæranda, verður m.a. ráðið að kærandi hafi ásamt mágkonu sinni og börnum hennar hitt sálfræðing á Göngudeild sóttvarna í nokkur skipti og telur sálfræðingur að kærandi sé [...]. [...].

Samkvæmt framburði kæranda, sem fær einnig stoð í framburði mágkonu hennar og barna í tengslum við þeirra mál og ekki var dreginn í efa af hálfu Útlendingastofnunar, var kærandi í nánum samskiptum við börn mágkonu sinnar [...]. Af framburðinum má ráða að kærandi hafi í raun gengið þeim í móðurstað [...]. Á þessum tíma hafi þau búið við mjög erfiðar aðstæður [...]. Kærandi hafi á þessum tíma verið þeirra helsta, ef ekki eina stoð. Af þessum atvikum verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi myndað náin tengsl við börnin á mikilvægu þroskaskeiði þeirra. Af þessum sökum verður einnig að líta til hagsmuna barna mágkonu kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og þeirra tengsla sem kærandi hefur myndað við þau, sbr. einnig 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í greinargerð sinni vísar kærandi til 2. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og telur að full ástæða hafi verið til þess að beita þeirri heimild sem þar komi fram og taka mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi. Í 2. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar kemur fram að aðildarríki, þar sem lögð er fram umsókn um alþjóðlega vernd, megi hvenær sem er, áður en fyrsta ákvörðun hafi verið tekin, fara fram á að annað aðildarríki taki yfir umsjá með umsækjanda í því skyni að sameina fólk sem tengt er fjölskylduböndum, af mannúðarástæðum, einkum að teknu tilliti til fjölskyldu- og menningartengdra þátta, jafnvel þótt hitt aðildarríkið beri ekki ábyrgð samkvæmt þeim viðmiðunum sem mælt er fyrir um í 8.-11. gr. og í 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærunefnd telur að samkvæmt orðanna hljóðan eigi 2. mgr. 17. gr. aðeins við um ef íslensk stjórnvöld óska eftir því að annað aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins tæki ábyrgð á umsókn kæranda. Það mál sem hér er til umfjöllunar snýst um hvort íslensk stjórnvöld eigi að taka ábyrgð á umsókn kæranda og því geti ákvæði 2. mgr. 17. gr. ekki ráðið niðurstöðu í þessu máli. Kærunefnd telur þó að í þessu sambandi sé rétt að hafa hliðsjón af 17. tölul. forsendna Dyflinnarreglugerðarinnar en þar koma m.a. fram þau sjónarmið sem 2. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar byggir að nokkru leyti á. Af þessu má sjá að þrátt fyrir að g-liður 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skilgreini hugtakið „aðstandendur“ nokkuð þröngt, gerir reglugerðin ráð fyrir því að í sérstökum tilvikum, þegar sérstakar mannúðarástæður kalla á, taki aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins ábyrgð á umsóknum fjarskyldari aðstandenda þeirra sem eiga umsóknir sem eru til efnismeðferðar í því aðildarríki. Þá telur kærunefnd að líta verði til 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sem mælir fyrir um að aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins skuli hafa hagsmuni barna að leiðarljósi í tengslum við allar málsmeðferðir sem kveðið er á um í Dyflinnarreglugerðinni, sbr einnig 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. gr. sömu laga. Kærunefnd telur, eins og málum er hér sérstaklega háttað og vegna þeirra ættar- og umönnunartengsla sem eru á milli kæranda og barna mágkonu hennar og bræðra, að sjónarmið um hagsmuni barnanna hafi þýðingu í þessu máli þrátt fyrir að börnin séu ekki beinir aðilar að málinu.

Það er því mat kærunefndar að þegar litið er til þeirra sérstöku hagsmuna sem börn mágkonu kæranda og bræðra hafa af niðurstöðu þessa máls, þess tilgangs Dyflinnarreglugerðarinnar sem ráða má af 13. - 17. tölul. forsendna hennar sem og þeirri forgangsröð sem viðmið hennar eru rakin í og á grundvelli heildarmats á þeim aðstæðum öllum sem uppi eru í þessu máli að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sem mæla með því að umsókn kæranda sé tekin til efnismeðferðar.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.  

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                Hilmar Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta