Hoppa yfir valmynd
22. desember 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukin framlög til NPA og vegna sólarhringsmeðferðar fólks í öndunarvél

Ákveðið hefur verið að auka framlag til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar um 70 m.kr., umfram það sem áður var gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Er það í samræmi við eindreginn vilja félags- og jafnréttismálaráðherra og velferðarnefndar Alþingis. Breytingatillaga þessa efnis var lögð fram við aðra umræðu um fjárlögin sem nú stendur yfir.

Framlög til NPA-þjónustu verða þar með 140 m.kr. hærri á næsta ári en í fjárlögum þessa árs, eða samtals 360 m.kr. Af þeirri aukningu sem nú hefur verið ákveðin eru 30 m.kr. ætlaðar til þjónustu við þá sem þurfa á sólarhringsmeðferð í öndunarvél að halda.

„Þetta eru mjög jákvæðar fréttir enda er með þessu fjármagni óhætt að tala um straumhvörf, því unnt verður að fjölga verulega samningum um notendastýrða persónulega aðstoð“ segir Ásmundur Einar. „Þessi ákvörðun endurspeglar áherslur mínar um mikilvægi þess að hraða öllum aðgerðum sem tengjast málefnum fatlaðs fólks og vilji ríkisstjórnarinnar er jafnframt skýr hvað þetta varðar.“

Frumvörp ráðherra að nýjum heildarlögum um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eru komin til velferðarnefndar. Gert er ráð að lögfesting NPA-þjónustu á grundvelli þeirra geti tekið gildi um mitt næsta ár. Fram að þeim tíma verður NPA-þjónustan tryggð með framlengingu bráðabirgðaákvæða þar að lútandi frá 1. janúar næstkomandi.

„Bráðabirgðaákvæðið hefur nú verið afgreitt úr velferðarnefnd í fullri sátt og ég er mjög ánægður með það góða samstarf sem er við nefndina vegna frumvarpanna tveggja sem varða þessi mál. Þá vil ég þakka fjárlaganefnd sérstaklega fyrir hennar þátt“ segir félags- og jafnréttismálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta