Hoppa yfir valmynd
2. janúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 269 Umönnunarbætur

Grein

Miðvikudaginn 21. nóvember 2007

 269/2007

 

 A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með kæru dags. 11. október 2007 kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Trygginga­stofnunar ríkisins um greiðslu umönnunarbóta vegna umönnunar móður sinnar B.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn dags. 28. september 2007 sótti kærandi um umönnunarbætur vegna umönnunar móður sinnar.  Í læknisvottorði dags. 28. september 2007 vegna umsóknar segir:

 ,,Það vottast hér með að B á við heilsubrest að stríða og þarf umönnun allan sólarhringinn.  Hún er mjög sjónskert og vegna þess öryggislaus og mjög kvíðin.  Getur þess vegna ekki verið ein.  Það er um að ræða ellihrörnun í augnbotnum og auk þess háþrýsting.  Hún er ekkja síðan í janúar 2007.  Dóttir hefur sinnt henni og ýmist hefur B dvalið hjá dóttur í C eða dóttir hjálpað henni á hennar heimili.  Hún þarf aðstoð með böðun og fleira og þannig háð umönnun annara.”

 

Umsókninni var synjað með bréfi Tryggingastofnunar dags. 8. október 2007. Í bréfinu segir að umsækjandi og móðir hafi ekki sama lögheimili og því teljist skilyrði fyrir greiðslum ekki uppfyllt.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

,,Þrátt fyrir það að við eigum ekki sama lögheimili breytir það ekki þeirri staðreynd að ég hef annast um foreldra mína undanfarin ár.  Vissulega hefur það reynt meira á mig þar sem ég er búsett í C og einnig verið kostnaðarsamara. En mér finnst einkennilegt ef það ætti að vera ástæða neitunar um umönnunarbætur.

 Faðir minn lést 23. janúar síðastlíðinn. Um svipað leyti skerðist sjón móður minnar til mikilla muna vegna augnbotnahrörnunar og blæðingar í augnbotnum. Þetta hvorutveggja hafði þau áhrif að hún varð öryggislaus og kvíðin og hefur ekki getað sofið ein á nóttunni í húsinu síðan. Hún er á lyfjum vegna háþrýstings, þá finnur hún einnig fyrir jafnvægisleysi og þarf stuðning þess vegna. Það má því segja að ég hafi verið búsett meira eða minna á hennar heimili síðan um jól. Fyrst vegna veikinda föður míns og síðan til að aðstoða hana eftir að hann dó eins og fyrr segir. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur hún þurft á meiri aðstoð að halda. Ég sé um að veita henni þá aðstoð sem hún þarf og biður um: baða hana , hugsa um matinn, og allt það sem þarf að gera dagsdaglega . Síðastliðin 1-2 ár hefur kona á vegum bæjarins þrifið fyrir hana húsið á 2ja vikna fresti. Aðra þjónustu þyggur hún ekki frá bænum. Til að hún geti haldið áfram að búa á sínu heimili þarf hún á minni umönnun að halda. Það er því þannig að ýmist erum við á D eða hér hjá mér í C.

Síðan í júlí hef ég verið án atvinnutekna og sé ekki fram á að geta sótt vinnu eins og á stendur. Umönnunarbætur eru því mjög mikilvægar í þessu sambandi eins og gefur að skilja.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 12. október 2007.  Barst greinargerð dags. 23. október 2007.  Þar segir:

„Samkvæmt 5. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, er heimilt að greiða umönnunarbætur að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þar kemur fram að heimilt sé, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur.

Samkvæmt 2. gr. reglna um maka og umönnunarbætur nr. 407/2002 er heimilt að greiða framangreindar bætur ef um sameiginlegt lögheimili lífeyrisþega og þess sem annast hann er að ræða. Jafnframt skal sýnt fram á tekjuleysi eða tekjutap umsækjanda eða lífeyrisþega. Umsókn um framangreindar bætur skal fylgja læknisvottorð sem staðfestir umönnunarþörf lífeyrisþegans ásamt staðfestingu á tekjutapi eða tekjuleysi, sbr. 3. gr. sömu reglna.

Kæranda var synjað um umönnunarbætur með bréfi stofnunarinnar, dags. 08.10. 2007, með vísan til þess að aðilar málsins eiga ekki sama lögheimili og uppfylla því ekki skilyrði framangreindra laga og reglna um maka og umönnunarbætur. Ekki er heimild í lögum að víkja frá lögheimilisskilyrðinu.

Með vísan til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.”

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 25. oktober 2007 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Kærandi gerði símleiðis þann 31. október sl. nánari grein fyrir  aðstæðum.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Kærandi sótti um umönnunarbætur til Tryggingasatofnunar vegna umönnunar móður sinnar, sem býr við heilsubrest og þarfnast umönnunar allan sólarhringinn, en umsókninni var synjað þar sem skilyrði greiðslna væru ekki uppfyllt.

 

Í rökstuðningi með kæru segir að þrátt fyrir að kærandi og móðir hennar hafi ekki sama lögheimili þá sé það staðreynd að hún hafi annast móður sína undanfarin ár.  Frá því að móðirin varð ekkja í janúar sl. hafi hún ekki getað sofið ein á nóttunni og því hafi kærandi verið meira og minna búsett á hennar heimili og haldið heimili fyrir þær.  Ýmist séu þær á heimili móðurinnar á D eða á heimili kæranda í C.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar eru raktar gildandi reglur um umönnunarbætur. Kærandi og móðir hennar haldi sitt hvort heimilið og því séu skilyrði ekki uppfyllt til að greiða dótturinni umönnunarbætur.

 

Ákvæði um umönnunarbætur/makabætur er í 5. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segir:

 

,, Heimilt er, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða maka elli- eða örorkulífeyrisþega makabætur sem eru allt að 80% af grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga. Jafnframt er heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorku­lífeyrisþega umönnunarbætur. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.”

  

Reglur ráðherra um maka- og umönnunarbætur eru nr. 407/2002.

 

Í 2. ml. lagaákvæðisins er veitt heimild til greiðslu bóta til annars en maka ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi og ef viðkomandi “ heldur heimili með lífeyrisþega” . Í 5. gr. laga 99/2007 in fine er ráðherra falið að setja nánari reglur um þessa tegund bóta. Í 2. gr. reglna nr. 407/2002 er gert að skilyrði að bótaþeginn og lífeyrisþeginn eigi sama lögheimili. Reglur þessar eru settar á grundvelli sambærilegra ákvæða í eldri lögum um umönnunarbætur og hafa að mati úrskurðarnefndar fullt gildi. Að mati nefndarinnar er það bæði málefnalegt og rökrétt með tilliti til orðalags laganna að setja það að skilyrði greiðslu bóta að um sameiginlegt lögheimili sé að tefla.

 

Í tilviki kæranda og móður hennar hagar svo til að þær hafa sitt hvort lögheimilið þ.e. kærandi hefur lögheimili að d í D en lögheimili móðurinnar er að c á C.  Óumdeilt er samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að móðir kæranda er í þörf fyrir mikla umönnun sem dóttir hennar veitir henni. Hins vegar er ekki heimilt að greiða dótturinni umönnunarbætur þar sem þær mæðgur hafa ekki sama lögheimili. Því er synjun Tryggingastofnunar um greiðslu umönnunarbóta staðfest.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu umönnunarbóta til A er staðfest.

 

 

F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 _____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta