Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 161/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 161/2017

Miðvikudaginn 10. janúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 7. apríl, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. febrúar 2017 um endurhæfingarlífeyri.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. janúar 2017, sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 2. febrúar 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem hún hefði ekki lokið áunnum rétti vegna veikinda frá sjúkrasjóði eða atvinnurekanda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. apríl 2017. Með bréfi, dags. 5. maí 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 16. júní 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. júní 2017. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfu í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. febrúar 2017, um endurhæfingarlífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru segir að í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. febrúar 2017, sé vísað til 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og fullyrt að skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris sé það að umsækjandi hafi lokið áunnum rétti vegna veikinda frá atvinnurekanda og sjúkrasjóði stéttarfélags. Einnig komi fram í bréfinu að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi ekki lokið áunnum rétti frá sjúkrasjóði eða frá atvinnurekanda og uppfylli þar af leiðandi ekki skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris.

Orðrétt komi fram í 7. gr. laganna:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Varðandi það að kærandi hafi ekki lokið áunnum rétti vegna veikinda frá atvinnurekanda og sjúkrasjóði stéttarfélags sé rétt að stikla á stóru varðandi aðstæður hennar ásamt því að benda á að hvergi komi fram í lagagreininni að umsækjandi þurfi að vera búinn að fullnýta sinn rétt hjá atvinnurekanda eða sjúkrasjóði, heldur einungis að umsækjandi eigi ekki rétt hjá viðeigandi aðilum.

Upphaf veikinda kæranda megi rekja aftur til ársins X þegar hún hafi verið í vinnu hjá sveitarfélaginu B á C. Hún hafi verið í 100% starfi en hafi verið ráðlagt af lækni að minnka starfshlutfallið í 50%. Það hafi hún gert í samstarfi við sína yfirmenn í X. Vegna hlutaveikindanna hafi hún fullnýtt sér sinn rétt hjá atvinnurekandanum og í kjölfarið hafi hún fengið greidda dagpeninga frá sínu stéttarfélagi (D). Til að flækja málin aðeins þá hafi hún hafið töku fæðingarorlofs X og þá hafi greiðslurnar frá stéttarfélaginu fallið niður. Fæðingarorlofi hafi lokið X og kærandi hafi þá aftur farið í 50% starf á C samkvæmt læknisráði. Hún hafi sótt um launalaust leyfi í ár frá C þar sem hún hafi viljað athuga hvort heilsan yrði betri í öðru starfsumhverfi sem byði upp á minna áreiti. Það leyfi hafi verið samþykkt tímabilið X til X. Þann X hafi hún hafið störf hjá E ehf. og hafi hún verið þar síðan.

Í dag sé staðan sú að vegna þessara aðstæðna eigi hún ekki rétt til veikindalauna hjá núverandi atvinnurekanda þar sem ekki sé um ný veikindi að ræða eða nýlega minnkað starfshlutfall vegna veikinda. Hún eigi ekki rétt hjá stéttarfélagi þar sem hún sé ekki að falla út af launaskrá hjá atvinnurekanda vegna fullnýttra veikindadaga. Hún hafi ekki getað sótt um endurhæfingarlífeyri þegar greiðslum frá stéttarfélaginu hafi lokið þar sem hún hafi hafið töku fæðingarorlofs. Eftir að því hafi lokið hafi hún reynt eftir fremsta megni að sinna sinni vinnu en þó einungis í 50% starfi eins og henni hafi verið ráðlagt af lækni. Í samstarfi við VIRK hafi loksins verið ákveðið að sækja um endurhæfingarlífeyri til Tryggingarstofnunar í janúar 2017. Það hafi verið gert til að koma til móts við þá staðreynd að kærandi sé með töluvert skertar tekjur þar sem hún hafi einungis 50% starfsgetu en hún leggi áherslu á að hún sé í virkri endurhæfingu með það að markmiði að auka starfsgetu sína.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kæranda hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri þar sem kærandi hafi ekki lokið áunnum rétti frá sjúkrasjóði eða atvinnurekanda. Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Lagagreinin hljóði svo:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr., og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“

Við mat á umsókn kæranda hafi legið fyrir umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri, dags. 12. janúar 2017, endurhæfingaráætlun frá VIRK, dags. 22. desember 2016, læknisvottorð frá F lækni, dags. 4. janúar 2017, staðfesting frá vinnuveitanda um starfshlutfall, dags. 12. janúar 2017, staðfesting frá stéttarfélaginu D vegna sjúkrasjóðsgreiðslna, dags. 16. janúar 2017, og tölvupóstur frá stéttarfélaginu D, dags. 3. febrúar 2017.

Fram komi í læknisvottorði frá F að kærandi sé með langa sögu um verki og þreytu, hún hafi fengið vefjagigtargreiningu árið X og hafi ekki getað unnið fulla vinnu síðan þá. Hún vinni 50% starf eins og hún geti en nú sé farið að vera erfiðara fyrir hana að sinna vinnu meðfram heimili.

Í endurhæfingaráætlun frá VIRK komi fram að langtímamarkmið varðandi atvinnuþátttöku sé sama starf hjá sama atvinnurekanda, markmið varðandi atvinnuþátttöku sé að styðja við áframhaldandi 50% starf og stefna á fullt starf í framtíðinni á eigin vegum og með stuðningi ráðgjafa VIRK. Þá sé gert ráð fyrir sjö hugrænum atferlismeðferðar sálfræðiviðtölum, tíu sjúkraþjálfunartímum, líkamsrækt með stuðningi og ráðleggingum sjúkraþjálfara og sundi. Gildistími áætlunarinnar sé frá X 2017 til X 2017.

Fram komi í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Einnig komi fram að skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi, né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Í frumvarpinu með lögum nr. 120/2009, sem hafi breytt núverandi 7. gr. laga um félagslega aðstoð, komi eftirfarandi fram: „Þá er lagt til að fellt verði brott skilyrði um að greiðslur sjúkra- eða slysadagpeninga séu nauðsynlegur undanfari endurhæfingarlífeyris. Í stað þess er lagt til að bætt verði við ákvæðið skilyrði um að umsækjandi hafi tæmt rétt sinn til greiðslu launa frá atvinnurekanda, atvinnuleysisbóta eða greiðslna frá sjúkrasjóði stéttarfélags. Greiðslur endurhæfingarlífeyris hefjast þá í fyrsta lagi eftir að kjarasamningsbundinna réttinda nýtur ekki lengur við.“

Samkvæmt upplýsingum frá núverandi atvinnurekanda hafi kærandi verið í 50% starfi hjá þeim frá X og samkvæmt upplýsingum í læknisvottorði og endurhæfingaráætlun hafi kærandi verið í 50% starfi frá X. Stéttarfélagið D staðfesti að kærandi ætti ekki rétt á greiðslum úr sjúkrasjóði félagsins en segi einnig í tölvupósti, dags. 3. febrúar [2017] að ef kærandi yrði með öllu óvinnufær þá ætti hún rétt á dagpeningagreiðslum frá félaginu eftir að veikindalaunum frá atvinnurekanda lyki.

Endurhæfingarlífeyrir sé ekki veittur ef umsækjandi sé einungis í vinnu en mögulega þegar vinna sé hluti af annarri endurhæfingu. Sé þá litið til þess að um sé að ræða starfsprófun á meðan endurhæfing sé í gangi. Þá sé yfirleitt um hlutavinnu að ræða og einstaklingar séu að prófa sig áfram í vinnu meðan á endurhæfingu standi og sé við það að ljúka. Kærandi sé í 50% starfi og hafi verið lengi, bæði hjá núverandi og þáverandi atvinnurekanda. Því sé ekki um það að ræða að kærandi sé í starfsprófun og ekki sé hægt að sjá að starfið sé hluti af endurhæfingu í tilfelli kæranda. Þar sem kærandi sé enn í 50% starfi þá hafi hún ekki lokið þeim rétti sem hún eigi til launa í veikindum vegna þess starfs og hafi þar af leiðandi ekki heldur klárað rétt sinn til greiðslna frá sjúkrasjóði. Því uppfylli kærandi ekki það skilyrði að eiga hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóði, það er að segja hafi hvorki tæmt rétt sinn til greiðslu launa frá atvinnurekanda né greiðslna frá sjúkrasjóði stéttarfélags sem sé skýrt skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 og frumvarpinu með þeirri grein. Því hafi kæranda verið synjað um greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Tryggingastofnun ríkisins telji ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsókn kæranda í samræmi við lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Tryggingastofnunin telji því ekki ástæðu til að breyta ákvörðun sinni.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurhæfingarlífeyri, dags. 2. febrúar 2017.

Ágreiningur málsins snýst um hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris á þeim forsendum að hún hafi ekki lokið áunnum rétti frá sjúkrasjóði eða atvinnurekanda.

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er að finna í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, þar sem segir í 1. mgr.:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framangreindu lagaákvæði bundin ákveðnum skilyrðum. Þeirra á meðal er skilyrði um að umsækjandi eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Af gögnum málsins má sjá að kærandi hefur starfað hjá E ehf. frá X í 50% starfi. Einnig má sjá af gögnum málsins að kærandi hefur verið í 50% starfi frá X. Í bréfi D stéttarfélags, dags. 16. janúar 2017, segir að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum úr sjúkrasjóði stéttarfélagsins en í tölvupósti frá stéttarfélaginu, dags. 3. febrúar 2017, segir aftur á móti að kærandi ætti rétt á dagpeningagreiðslum eftir að veikindalaunum frá atvinnurekanda lyki ef hún yrði með öllu óvinnufær.

Í kæru er því haldið fram að ákvæði 7. gr. laga nr. um félagslega aðstoð áskilji ekki að umsækjandi þurfi að vera búinn að fullnýta rétt sinn hjá atvinnurekanda eða sjúkrasjóði heldur einungis að umsækjandi eigi ekki rétt hjá viðeigandi aðilum. Að mati úrskurðarnefndar verður að túlka ákvæðið á þá leið að umsækjandi hafi tæmt rétt sinn til launa í veikindaleyfi og greiðslna frá sjúkrasjóðum, enda fær sú túlkun stoð í athugasemdum við 11. gr. laga nr. 1290/2009, sem breytti núverandi 7. gr. laga um félagslega aðstoð, en þar segir að lagt sé til að bætt verði við ákvæðið skilyrði um að umsækjandi hafi tæmt rétt sinn til greiðslu launa frá atvinnurekanda, atvinnuleysisbóta eða greiðslna frá sjúkrasjóði stéttarfélags. Aftur á móti telur úrskurðarnefndin að hvorki verði leitt af ákvæðinu né af athugasemdum í frumvarpi breytingalaganna að slík tæming eigi við skerðingu á starfshæfni að fullu. Í fyrrgreindum athugasemdum við 11. gr. laga nr. 190/2009 segir meðal annars svo:

„Mikilvægt er að allir sem einhverja starfsgetu hafa eigi kost á endurhæfingarúrræðum sem leiða til aukinna möguleika á atvinnuþátttöku. Efla þarf endurhæfingu þeirra sem búa við skerta starfshæfni og gera þeim þannig mögulegt að komast á ný út á vinnumarkað eða taka á annan hátt virkan þátt í samfélaginu.“

Að mati úrskurðarnefndar er rétt að túlka skilyrði 1. mgr. 7. gr. um að umsækjandi eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóði á þá leið að tæming á þeim rétti taki einungis til þeirrar skertu starfshæfni sem umsækjandi búi við, enda myndi andstæð túlkun leiða til þess að umsækjandi sem er óvinnufær að hluta og starfar í hlutastarfi geti ekki uppfyllt skilyrði endurhæfingarlífeyrisins. Andstæð túlkun myndi því ganga gegn því markmiði, sem fram kemur í fyrrgreindum athugasemdum, að allir sem einhverja starfsgetu hafi eigi kost á endurhæfingarúrræðum.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi tæmt rétt sinn til launa í veikindaleyfi miðað við þá skertu starfshæfni sem hún býr við í dag. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri verði ekki synjað á þeirri forsendu að kærandi hafi ekki lokið áunnum rétti vegna veikinda frá sjúkrasjóði eða atvinnurekanda.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð er heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris bundin meðal annars því skilyrði að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila. Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi hafi lengi verið í 50% starfi, bæði hjá núverandi og þáverandi atvinnurekanda, og ekki sé hægt að sjá að starfið sé hluti af endurhæfingu í tilfelli kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því rétt að taka til skoðunar hvort endurhæfingaráætlun kæranda uppfylli skilyrði 1. mgr. 7. gr. laganna.

Til grundvallar hinni kærðu ákvörðun lá fyrir endurhæfingaráætlun frá VIRK, dags. 22. desember 2016, læknisvottorð F, dags. 4. janúar 2017, og umsókn um endurhæfingarlífeyri, dags. 12. janúar 2017. Samkvæmt áætluninni var endurhæfing fyrirhuguð á tímabilinu 1. janúar 2017 til 30. júní 2017. Fyrirhugað var að endurhæfing samanstæði af stökum úrræðum fagaðila og áframhaldandi 50% starfi.

Samkvæmt endurhæfingaráætlun, dags. 22. desember 2016, var markmið varðandi atvinnuþátttöku að geta unnið fullt starf. Úrræði til að ná framangreindu markmiði voru samkvæmt áætluninni: „Á eigin vegum og með stuðningi ráðgjafa Virk“. Markmið varðandi andlega þætti og/eða félagslega þætti var að draga úr áhyggjum, kvíða og streitu. Úrræði til að ná framangreindu markmiði var: „HAM sálfræðiviðtöl, X tímar og greinargerð hjá G“. Markmið varðandi líkamlega þætti var að auka þol, þrek og styrk og draga úr verkjum. Úrræði til að ná framangreindu markmiði var: „X tímar og greinargerð hjá H sjúkraþjálfara. Líkamsrækt með stuðningi eða ráðleggingum sjúkraþjálfara. 3ja mánaða kort. Sund 2x í viku á eigin vegum“.

Í læknisvottorði F, dags. 4. janúar 2017, kemur meðal annars fram:

„A er X ára gömul kona. Hún er með langa sögu um líkamlega verki og þreytur. Hún fékk vefjagigtargreiningu árið X og hefur ekki getað unnið fulla vinnu síðan. Hún vinnur nú 50% sem henni finnst rétt svo ganga. Hún vinnur sem [...]. Hún segir að hún sé yfirleitt alveg búin á því í lok dags og finnst hún alls ekki hafa orku í að sinna börnum og heimili. Hún er slæm af verkjum í nær öllum líkamanum. Hún er gift, X barna móðir. Maðurinn hennar er [...]. Hún byrjarði á [...] fyrr á árinu sem henni finnst hafa hjálpað sér töluvert en hún upplifir aldrei verkjalausan dag. Hún hefur einnig farið að finna fyrir vaxandi depurðar einkennum og var nýlega sett á [...] vegna þessa. Ekki komin almennileg reynsla á þá meðferð en henni finnst hún þó aðeins vera farin að finna mun á sér.

A hefur verið í sjúkraþjálfun annað slagið og reynt að stunda sund.

A segist vera að gefast upp á vinnumarkaði og hefur ekki heilsu í að vinna og sinna heimili.“

Samkvæmt læknisvottorðinu fékk kærandi eftirfarandi greiningu: [...]. Varðandi tillögu að meðferð er vísað í endurhæfingaráætlun VIRK.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að endurhæfingarlífeyrir sé ekki veittur ef umsækjandi er einungis í vinnu en mögulega þegar vinna er hluti af annarri endurhæfingu. Sé þá litið til þess að um sé að ræða starfsprófun á meðan endurhæfing sé í gangi. Kærandi sé í 50% starfi og hafi verið lengi, bæði hjá núverandi og þáverandi atvinnurekanda, og því sé ekki um það að ræða að kærandi sé í starfsprófun og ekki sé hægt að sjá að starfið sé hluti af endurhæfingu í tilfelli kæranda. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála getur endurhæfing falið í sér vinnu, hvort sem hún telst vera starfsprófun eða hlutastarf, ef það er stutt læknisfræðilegu mati að vinnan ásamt öðrum úrræðum endurhæfingaráætlunar leiði til bættrar starfshæfni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að meta verði hverja umsókn og aðstæður umsækjenda heildstætt. Að mati úrskurðarnefndar verður ráðið af endurhæfingaráætlun kæranda að hlutastarf hennar sé hluti af endurhæfingunni. Aftur á móti kemur fram í læknisvottorði F að kæranda finnist starfið rétt svo ganga. Hún sé alveg búin á því í lok dags og finnist hún ekki hafa orku í að sinna börnum og heimili. Einnig sé hún slæm af verkjum í nær öllum líkamanum. Úrskurðarnefndin telur því að læknisvottorðið gefi til kynna að starfið reyni of mikið á kæranda. Þá eru aðrir þættir endurhæfingaráætlunarinnar ekki umfangsmiklir að mati nefndarinnar. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að endurhæfingaráætlun kæranda, sem gerði ráð fyrir áframhaldandi 50% starfi, sé hvorki nægilega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að verið sé að vinna með aukna starfshæfni að markmiði.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið uppfyllt í tilviki kæranda. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um endurhæfingarlífeyri er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta