Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 355/2017 - Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 355/2017 endurupptaka

Fimmtudaginn 11. janúar 2018

AgegnVinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með tölvupósti 11. desember 2017 óskaði A, eftir endurupptöku máls nr. 355/2017 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 30. nóvember 2017.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi var krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017. Kærandi bar ákvörðun Vinnumálastofnunar undir úrskurðarnefnd velferðarmála sem staðfesti innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta með úrskurði 30. nóvember 2017. Með tölvupósti 11. desember 2017 fór kærandi fram á endurupptöku málsins.

III. Niðurstaða

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í skýringum kæranda vegna endurupptökubeiðninnar er vísað til þess að í gögnum málsins komi ekki fram hvenær eða hvort Vinnumálastofnun hafi afskráð hann af atvinnuleysisbótum eða móttekið beiðni þess efnis. Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun sé að innheimta þriggja ára gamla skuld en það séu ekki góð vinnubrögð. Að mati kæranda hefði Vinnumálastofnun átt að upplýsa hann fyrr eða þegar hann tilkynnti um afskráningu.

Í ljósi athugasemda kæranda telur úrskurðarnefndin rétt að ítreka það sem fram kemur í framangreindum úrskurði um að ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Ástæða ofgreiðslunnar hefur því ekki áhrif á endurgreiðsluskylduna, jafnvel þó að hún sé tilkomin vegna mistaka stjórnvalda. Úrskurðarnefndin bendir einnig á að fyrningarfrestur á kröfum um ofgreiddar atvinnuleysisbætur er fjögur ár, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þá var kæranda tilkynnt um ofgreiðsluna á „Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun og með greiðsluseðlum stofnunarinnar 30. maí 2014, 2. júní 2014 og 31. júlí 2014.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins með tilliti til athugasemda kæranda. Að mati nefndarinnar hefur ekkert komið fram um að úrskurður í máli nr. 355/2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að niðurstaða hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að hann var kveðinn upp. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir hefur úrskurðarnefnd velferðarmála eftir atvikum heimild til að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur kæranda ekki hafa leitt í ljós slíkar vísbendingar.

Með vísan til þess sem að framan er ritað telur nefndin ekki forsendur fyrir endurupptöku á máli kæranda og er beiðninni því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku úrskurðar í máli nr. 355/2017 er hafnað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta