Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 431/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 431/2017

Fimmtudaginn 11. janúar 2018

AgegnKópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. nóvember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar frá 25. september 2017 um uppsögn á húsaleigusamningi hans við sveitarfélagið.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur verið með leigusamning við Kópavogsbæ um árabil vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Með bréfi velferðarsviðs Kópavogsbæjar, dags. 21. ágúst 2017, var leigusamningi kæranda sagt upp á þeirri forsendu að hann væri yfir tekjumörkum reglna um útleigu félagslegra leiguíbúða bæjarins. Kærandi áfrýjaði þeirri ákvörðun til velferðarráðs Kópavogsbæjar með bréfi, dags. 15. september 2017, og fór auk þess á leit við sveitarfélagið að hann fengi að kaupa umrædda íbúð og að Kópavogsbær lánaði honum fyrir 15% kaupverðsins. Velferðarráð Kópavogsbæjar tók málið fyrir á fundi þann 25. september 2017 og staðfesti uppsögn á húsaleigusamningi en tók ekki afstöðu til kröfu kæranda um að kaupa íbúðina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 22. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 6. desember 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. desember 2017. Athugasemdir bárust frá kæranda 26. desember 2017. Með tölvupósti 4. janúar 2018 óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af húsaleigusamningi kæranda sem barst 8. janúar sama ár. Með tölvupósti sama dag óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort sveitarfélagið hefði tekið afstöðu til beiðni kæranda um kaup á fasteigninni. Í svari sveitarfélagsins kemur fram að engin slík ákvörðun liggi fyrir.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að tekjur hans séu rétt yfir tekjuviðmiði til þess að fá að leigja áfram íbúð hjá Kópavogsbæ. Kærandi gerir athugasemd við að hann fái ekki tækifæri til að kaupa íbúðina vegna þess eins að hann sé ekki foreldri. Kærandi telur sig uppfylla öll önnur skilyrði til að koma til greina sem kaupandi við uppsögn húsaleigusamnings. Kærandi bendir á að honum sé ljóst að ekki þýði að deila um tekjumörk eða mögulega þrepaskipta leigu sem virðist ekki vera enn í boði. Hins vegar sé það mat kæranda að það stríði gegn jafnræðisreglu að einstaklingur fái ekki tækifæri til að kaupa leiguíbúð frá sveitarfélaginu á sömu forsendum og kjörum sem leigjendum með börn sé boðið. Kærandi óskar því eftir úrskurði um hvort hann eigi rétt á að kaupa þá íbúð sem hann hafi leigt hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar síðastliðið sjö og hálft ár.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að bæjarstjórn sveitarfélagsins hafi samþykkt reglur um sölu félagslegra leiguíbúða til leigjenda þann 13. desember 2016. Reglurnar nái einungis til leigjenda sem hafi haft þar búsetu ásamt börnum sínum, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglnanna. Markmið reglnanna sé að tryggja barnafjölskyldum stöðugleika í búsetu, þrátt fyrir breyttar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður leigjanda, sbr. 2. mgr. 1. gr.

Kópavogsbær vísar til þess að í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé mælt fyrir um úrræði einstaklinga sem eigi við húsnæðisvanda að etja. Í XII. kafla laganna sé fjallað um húsnæðismál en þar sé lögð skylda á sveitarfélögin að annast þau tilvik þegar íbúar geti ekki leyst úr húsnæðisvanda sínum sjálfir. Í 45. gr. laganna segi að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærsluskyldu eða annarra félagslegra aðstæðna. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 40/1991 segi að greinin sé hugsuð sem hvatning til sveitarfélaga um að hafa framboð af félagslegu húsnæði. Kópavogsbær bendir á að í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar sé mælt fyrir um að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Þau geti því útfært nánar þær skyldur sem lög leggi á þau.

Kópavogsbær tekur fram að mismunun í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar sé afmörkuð með vísan til þess að um sé að ræða ólíka meðferð sambærilegra mála, eða sömu meðferð mjög ólíkra mála, sem ekki verði réttlætt með hlutlægum og málefnalegum ástæðum. Af dómum Hæstaréttar megi sjá að við mat á því hvort um hlutlægar og málefnalegar ástæður sé að ræða sé litið til þess hvort sú meðferð sem kvartað sé undan stefni að lögmætu markmiði og hvort meðalhófs sé gætt. Í tilfelli kæranda þá sé hann einstaklingur sem hafi notið félagslegra leiguíbúða en þar sem hann uppfylli ekki viðmið sem sett séu fyrir þeirri þjónustu hafi leigusamningi verið sagt upp. Kópavogsbær hafi ákveðið að bjóða einstaklingum sem búi með börnum upp á að kaupa slíka íbúð ef þau hafi notið slíkrar íbúðar en uppfylli ekki lengur skilyrði til búsetu. Það sama eigi ekki við um aðra sem ekki búi með börnum sínum. Líkt og fram komi í reglum sveitarfélagsins sé markmið þeirra að tryggja barnafjölskyldum stöðugleika í búsetu. Kærandi uppfylli ekki lengur skilyrði sem uppfylla þurfi til að fá félagslega leiguíbúð leigða en sveitarfélaginu beri einungis að tryggja þeim húsnæði sem ekki geti leyst úr húsnæðisvanda sínum sjálfir. Barnafjölskyldum standi til boða að kaupa leiguhúsnæði, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en telja verði að það styðjist við hlutlægar og málefnalegar ástæður. Því sé ekki um mismunun að ræða.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Kópavogsbæjar um uppsögn á húsaleigusamningi kæranda við sveitarfélagið á þeirri forsendu að hann væri yfir tekjumörkum reglna um útleigu félagslegra leiguíbúða bæjarins. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir kæranleg ákvörðun frá Kópavogsbæ vegna beiðni kæranda um kaup á fasteigninni sem hann hefur leigt af sveitarfélaginu. Með bréfi, dags. 10. desember 2017, óskaði kærandi formlega eftir svari við þeirri beiðni sem upphaflega kom fram í erindi hans frá 15. september 2017. Að framangreindu virtu mun úrskurðarnefndin ekki fjalla um þann þátt málsins en bendir á að þegar Kópavogsbær hefur tekið afstöðu til beiðni kæranda getur hann skotið þeirri ákvörðun til nefndarinnar, sbr. 63. og 64. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Úrskurðarnefndin brýnir fyrir Kópavogsbæ að svara erindi kæranda en samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins á hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald almennt rétt á að fá skriflegt svar, enda uppfylli erindið skilyrði um að ráðið verði af efni þess að vænst sé svars og erindið sé á verksviði stjórnvaldsins. Þá ber sveitarfélaginu að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Samkvæmt 45. gr. laganna skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Þá kemur fram í 46. gr. laganna að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í 1. gr. reglna um útleigu á félagslegum leiguíbúðum bæjarsjóðs Kópavogs kemur fram að félagslegar leiguíbúðir séu ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum sem þurfa sérstaka aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og/eða annarra félagslegra erfiðleika og skulu fjárhags- og félagslegar aðstæður þeirra metnar út frá þeim viðmiðum sem kveðið sé á um í reglunum. Í 4. gr. reglnanna kemur fram að leiga félagslegra leiguíbúða í eigu bæjarsjóðs sé að öllu jöfnu bundin þeim skilyrðum að við breytingar á félagslegum aðstæðum leigutaka skuli réttur hans til leigunnar endurskoðaður. Einkum sé um að ræða breytingar á hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð og fjárhagsstöðu. Þá kemur fram að líta beri á leigu í félagslegu leiguhúsnæði bæjarsjóðs sem tímabundna úrlausn. Í 15. gr. reglnanna kemur fram að skyldur leigutaka séu skilgreindar í reglunum og sérákvæðum leigusamnings.

Í gögnum málsins liggur fyrir húsaleigusamningur kæranda og Húsnæðisnefndar Kópavogs, undirritaður 4. janúar 2011. Í grein 13.4 samningsins er kveðið á um sérákvæði húsnæðisdeildar Félagsþjónustu Kópavogsbæjar en þar kemur meðal annars fram að leiguréttur og úthlutun leiguhúsnæðis sé bundinn tilteknum eigna- og tekjuviðmiðum sem litið sé til þegar umsókn berst, við tímamörk úthlutunar og einu sinni á ári þann tíma sem leigusamningur varir. Þá kemur fram að félagsmálaráð bæjarins taki ákvörðun um endurskoðun eigna- og tekjumarka að teknu tilliti til ákvörðunar félagsmálaráðuneytis um hækkun tekju- og eignamarka í samræmi við árlega hækkun á neysluvísitölu og að á leigutímanum muni húsnæðisdeild Félagsþjónustu Kópavogs á tólf mánaða fresti gera athugun á því hvort leigutaki fullnægi skilyrðum um eigna- og tekjuviðmið.

Í reglugerð nr. 1042/2013, um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum, kemur fram að framkvæmdaraðila sem fengið hafi lán til kaupa eða byggingar á leiguíbúðum samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál sé eingöngu heimilit að leigja þær íbúðir til einstaklinga sem uppfylli skilyrði um tekju- og eignamörk samkvæmt 23. og 24. gr., sbr. þó 25. og 26. gr. Auk þess ber framkvæmdaraðila að hafa eftirlit með því að leigjendur uppfylli skilyrði um tekju- og eignamörk og setja sér sérstakar reglur um ráðstöfun leiguíbúða. Tekjumörk eru tilgreind í 23. gr. reglugerðarinnar og er þeim breytt um hver áramót. Tekjumörkin fyrir árið 2016 voru 4.749.000 kr. fyrir einstaklinga en viðbót fyrir hvert barn yngri en 20 ára var 1.187.000 kr. Samkvæmt skattframtali kæranda fyrir árið 2016 var hann ekki með barn á framfæri. Tekjur hans á árinu 2016 voru 5.010.235 kr. eða 261.235 kr. yfir framangreindum tekjumörkum og var leigusamningi hans því sagt upp.

Í fyrirliggjandi húsaleigusamningi er skýrt kveðið á um að leiguréttur sé bundinn tilteknum tekjuviðmiðum sem séu endurskoðuð árlega. Þar sem tekjur kæranda voru yfir tekjumörkum reglna Kópavogsbæjar um félagslegt leiguhúsnæði er það mat úrskurðarnefndarinnar að Kópavogsbæ hafi verið heimilt að segja húsaleigusamningi kæranda upp. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, frá 25. september 2017, um uppsögn á húsaleigusamningi A, við sveitarfélagið er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta