Hoppa yfir valmynd
14. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 119/2011

Miðvikudaginn 14. desember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 119/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 23. ágúst 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs frá 17. ágúst 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði þá ákvörðun Íbúðalánasjóðs að taka ekki við umsókn hennar um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði, áhvílandi á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi óskaði þess að fá að leggja fram umsókn um niðurfærslu íbúðarlána hjá sjóðnum, eftir að umsóknarfrestur rann út, en umsóknarfrestur skv. 1. gr. laga nr. 29/2011 til breytinga á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, rann út þann 30. júní 2011.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 13. september 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. september 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

III. Sjónarmið kæranda

Í rökstuðningi með kæru sinni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála dags. 23. ágúst 2011, segir kærandi að henni hafi orðið á þau mistök að túlka útreikninga við 110% leiðina rangt, en samkvæmt útreikningum kæranda hafi hún ekki talið sig eiga rétt á niðurfærslu áhvílandi lána hjá Íbúðalánasjóði. Fyrir tilviljun hafi ættingi hennar séð umrædda útreikninga, en ekki fyrr en mánuði eftir að umsóknarfrestur rann út og áttað sig á því að þeir útreikningar kæranda væru á misskilningi byggðir.

Í rökstuðningi með kæru er að finna útreikninga kæranda sem hún byggir kröfu sína um niðurfærslu lána á, en samkvæmt þeim útreikningi telur kærandi sig eiga rétt á niðurfærslu áhvílandi lána hjá Íbúðalánasjóði sem nemur 2.132.627 kr. sem kærandi bendir á að sé umtalsverð fjárhæð fyrir einstakling í hennar stöðu sem töluvert skuldsettan einstakling í láglauna starfi, því fer kærandi fram á að Íbúðalánasjóður veiti umsókn hennar um 110% leiðina viðtöku.

Kærandi segir það alþekkt innan stjórnsýslunnar að umsóknum og gögnum sé veitt viðtaka eftir að tilskilinn frestur hefur runnið út, án athugasemda. Kærandi telur Íbúðalánasjóð sýna óbilgirni sem sé sjóðnum ekki til framdráttar. Þá vísar kærandi í tilkynningar sem birst hafa í fjölmiðlum þess efnis að Íbúðalánasjóður verði einhverja mánuði að vinna úr öllum umsóknum og því sé það óskiljanlegt að ekki sé hægt að veita umsóknum viðtöku einhverjum vikum eftir að auglýstur umsóknarfrestur hafi runnið út. Kærandi bendir á að mistök geti átt sér stað, um hugsanleg veikindi geti verið að ræða eða rangtúlkun lánþega og því er það mat kæranda að sýna eigi sveigjanleika í móttöku umsóknar þar sem mikið sé í húfi fyrir skuldsettan lánþega.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að sjóðurinn hafi ekki heimild til að taka við umsóknum um 110% leiðina eftir 30. júní 2011 og því hafi borið að hafna umsókn kæranda.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í máli þessu liggur fyrir að Íbúðalánasjóður neitaði að taka við umsókn kæranda um endurútreikning lána hjá sjóðnum samkvæmt 110% leiðinni eftir að lögbundinn frestur til þess rann út skv. 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Kærandi hefur fært fram þau rök að hún hafi misskilið framkvæmd 110% leiðarinnar og hafi ekki áttað sig á því að hún gæti mögulega átt rétt á niðurfærslu áhvílandi lána sinna hjá Íbúðalánasjóði fyrr en eftir að umsóknarfrestur rann út.

Í 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, kemur fram að Íbúðalánasjóði er heimilt að taka við umsóknum á grundvelli ákvæðisins til og með 30. júní 2011. Í lið 4.2 í 4. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um aðlögun fasteignalána í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur einnig fram að frestur til þess að sækja um niðurfellingu skulda samkvæmt 110% leiðinni hafi verið til 1. júlí 2011.

Er því ljóst samkvæmt skýru orðalagi 1. gr. laga nr. 29/2011 að Íbúðalánasjóði er því ekki heimilt að taka við umsóknum eftir að tilskilinn frestur rann út, þann 1. júlí 2011.

Íbúðalánasjóði ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum lagaákvæðum, en þar er ekki að finna undanþágur sem heimilað gætu viðtöku umsókna um 110% leiðina eftir 1. júlí 2011. Í fyrrgreindum lögum er þar að auki ekki að finna ákvæði um að Íbúðalánasjóði sé skylt að tilkynna lántakendum um möguleika þeirra til úrræðisins, heldur kemur einungis fram í ákvæðinu að umsóknir skuli berast sjóðnum. Þrátt fyrir það var úrræðið kynnt í fjölmiðlum auk þess sem bréf voru send til lántakenda Íbúðalánasjóðs.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í 1. gr. laga nr. 29/2011 og 4. gr. 4.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um viðtöku á umsókn um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta