Hoppa yfir valmynd
14. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 122/2011

Miðvikudaginn 14. desember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 122/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 30. ágúst 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 19. maí 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 19. maí 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B 17.250.000 kr. Verðmat íbúðarinnar nam 17.900.000 kr. samkvæmt mati löggilts fasteignasala hjá Fasteignasölu C sem fram fór þann 18. apríl 2011. Áhvílandi á íbúðinni voru 28.101.483 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi er eigandi bifreiðarinnar X metin á 619.650 kr.

Íbúðalánasjóður tók nýja ákvörðun í máli kæranda sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 5. september 2011. Var niðurfærsla á lánum kæranda hjá sjóðnum leiðrétt vegna bifreiðareignar og niðurfærsla lána hækkuð um 619.660 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 1. september 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 14. september 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. september 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála bárust frekari athugasemdir frá kæranda þann 26. september 2011.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir niðurstöðu útreikninga Íbúðalánasjóðs vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. ágúst 2011, segir kærandi að hún kæri verðmat á eign hennar að B sem fram fór á vegum Íbúðalánasjóðs. Kærandi gerir kröfu um að fyrra verðmat fasteignar hennar sem framkvæmt var af Byr sparisjóði verið látið gilda við niðurfærslu íbúðarláns.

Kærandi segir forsögu málsins vera þá að hún hafi sótt um niðurfærslu íbúðarlána samkvæmt 110% leiðinni, en hún hafi fengið þau svör hjá Íbúðalánasjóði og Byr sparisjóði að hún ætti að leita til síns viðskiptabanka, Byr sparisjóði, og sækja þar um niðurfellingu lána. Kærandi segist hafa lagt fram umsókn og í kjölfarið hafi löggiltur fasteignasali metið verðmæti íbúðar hennar sem 16.200.000 kr. Byr hafi síðan samþykkt umsókn hennar um niðurfærslu íbúðarláns kæranda hjá Byr.

Þá segir kærandi að umsóknin hafi síðar verið send áfram til Íbúðalánasjóðs en í kjölfarið hafi sjóðurinn haft samband við sig og tjáð henni þá fyrirætlun að láta framkvæma annað verðmat fasteignasala. Kærandi segist hafa undrast þetta þar sem fyrir lá verðmat fasteignasala varðandi sömu umsókn og hún gerir athugasemdir við að Byr noti eitt verðmat fasteignasala og Íbúðalánasjóður annað. Telur kærandi að það veki upp spurningar um hvort Byr eða Íbúðalánasjóður sé að vinna út frá röngum forsendum.

Þá segir kærandi að starfsmaður Íbúðalánasjóðs hafi tjáð henni að sjóðnum sé þetta heimilt og í kjölfarið hafi fasteignasali á vegum sjóðsins framkvæmt verðmat á eign hennar og var eign kæranda metin á 17.900.000 kr. Kærandi vísar til þess að munur á verðmæti íbúðar hennar samkvæmt verðmötunum tveimur sé 1.700.000 kr. sem hún telur að geti ekki staðist.

Þá segir kærandi að hún hafi haft samband við Íbúðalánasjóð og óskað eftir upplýsingum um seinna matið og henni hafi þá verið tjáð að sjóðurinn taki tillit til fyrra mats við afgreiðslu sína á umsókn hennar. Kærandi hafði síðar samband við Íbúðalánasjóð að nýju og henni var þá tjáð að sjóðurinn myndi styðjast við hærra verðmatið á íbúðinni. Kærandi segist hafa látið í ljós óánægju sína með það fyrirkomulag og hafi óskað eftir því að fá sjálf að leggja fram verðmat fasteignasala á íbúð sinni, en starfsmaður Íbúðalánasjóðs hafi tjáð henni að ekki yrði tekið tillit til slíks mats og að kæranda væri heldur ekki heimilt að sitja fund þar sem mál hennar var tekið fyrir.

Þá segir kærandi að hún hafi hringt í Íbúðalánasjóð í júlí og henni hafi þá verið sagt að sökum anna væri umsókn hennar ekki afgreidd. Kærandi komst svo síðar að því að umsókn hennar var afgreidd í maímánuði, en henni hafi verið tjáð af lögfræðingi hjá Íbúðalánasjóði að verið væri að afgreiða margar umsóknir og að svona mistök ættu sér stað.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður segir að sjóðurinn hafi talið rétt að óska eftir verðmati löggilts fasteignasala í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 29/2011. Afgreiðsla sjóðsins styðjist við það mat eins og vera ber en enginn ágalli sé sýnilegur á því verðmati. Þá vísar Íbúðalánasjóður til þess að sjóðurinn hafi með ákvörðun þann 5. september 2011 endurmetið afgreiðslu vegna bílverðs og samþykkt leiðréttingu þess efnis, alls 619.660 kr.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Í máli þessu er ágreiningur um verðmat íbúðar kæranda í tengslum við umsókn hennar um niðurfærslu lána Íbúðalánasjóðs sem hvíla á íbúð kæranda. Kærandi telur verðmat fasteignar hennar ekki gefa rétt mat af raunvirði hennar. Í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 kemur fram að við verðmat fasteigna samkvæmt ákvæðinu skuli miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem er hærra. Telji Íbúðalánasjóður skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignar skuli hann á eigin kostnað afla verðmats löggilts fasteignasala. Í lið 1.3 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að við mat á verðmæti fasteigna skuli miðað við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem sé hærra. Ef kröfuhafi telji skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignarinnar kalli hann eftir verðmati löggilts fasteignasala á sinn kostnað.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að Íbúðalánasjóði beri að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur.

Af hálfu kæranda hefur verið á því byggt að Íbúðalánasjóði hafi ekki verið heimilt að leita eftir öðru verðmati fasteignasala og að sjóðnum hafi borið að fara eftir verðmati löggilts fasteignasala sem Byr sparisjóður kallaði eftir við afgreiðslu umsóknar kæranda hjá Byr.

Kærði hefur fært fram þau rök að Íbúðalánasjóði hafi verið skylt að óska eftir nýju verðmati fasteignasala skv. 1. gr. laga nr. 29/2011, er umsókn kæranda um niðurfærslu lána samkvæmt 110% leiðinni var tekin til afgreiðslu hjá sjóðnum.

Fallist er á að Íbúðalánasjóði hafi verið heimilt að kalla eftir öðru verðmati, er sjóðurinn tók umsókn kæranda til meðferðar þar sem um var að ræða annan kröfuhafa en við fyrri afgreiðslu umsóknar kæranda hjá Byr sparisjóði, í skilningi lið 1.3 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á íbúðinni að B er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta