Drög að breyttum reglugerðum um ökuskírteini og ökukennara
Ný drög að breytingu á reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini og drög að breytingu á reglugerð nr. 327/1999 um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla eru nú til umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Óskað er umsagnar um reglugerðirnar eigi síðar en 8. nóvember.
Ein meginbreytingin sem endurskoðun á þessum reglugerðum varðar er að nú er í fyrsta sinn gert ráð fyrir því í fyrrgreindum reglugerðum að ökunám hér á landi á ökutæki í flokki A og B geti farið fram í fjarnámi.
Með drögum að breytingu á reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini er jafnframt stefnt að því að innleiða ákvæði tilskipunar 2008/65/EB, sem er breyting á ökuskírteinastilskipun Evrópusambandsins. Er þar heimilað að fram til 30. september 2013 verði heimilt að framkvæma ökupróf á stórum ökutækjum skráðum til ökukennslu skv. ákvæðum sem nú eru í gildi um gerð og búnað þeirra. Eftir 30. september 2013 verður hins vegar einungis heimilt að ökupróf fyrir stór ökutæki fari fram á ökutæki sem búin eru kúplingsfetli, að öðrum kosti takmarkist ökuréttindi viðkomandi próftaka við ökutæki sem búið sjálfskiptingu.
Ráðuneytið óskar eftir umsögnum um framangreind reglugerðardrög eigi síðar en 8. nóvember næstkomandi og er unnt að senda þær á netfangið [email protected].