Orkumálafulltrúar ESB kynntu sér nýtingu endurnýjanlegrar orku á Íslandi
Vel heppnaðri þriggja daga heimsókn hóps orkumálafulltrúa Evrópusambandsins (ESB) og EFTA til Íslands lauk í síðustu viku, þar sem hópurinn kynnti sér sjálfbæra orkuframleiðslu og sérstöðu Íslands í orkumálum.
Í hópnum voru 30 sérfræðingar frá 19 aðildarríkjum ESB og EFTA, sem koma að mótun stefnu og lagaumhverfis ESB og EES í orkumálum. Markmið hópsins með ferðinni var að fræðast um nýtingu jarðhita og vatnsafls í orkuframleiðslu hér á landi, fjölbreytta verðmætasköpun úr jarðhita, bindingu kolefnis í berg og önnur nýsköpunarverkefni sem tengjast orkuvinnslu hér á landi. Heimsóknin var undirbúin af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í samvinnu við Orkustofnun, Samorku og Grænvang.
Hópurinn heimsótti meðal annars Elliðaárstöð, Svartsengi, Írafoss- og Ljósafossstöð sem og Hellisheiðarvirkjun. Í ferðinni fengu orkumálafulltrúarnir m.a. kynningar frá Grænvangi, Orkustofnun, Georg – rannsóknarklasa í jarðhita, HS Orku, Landsvirkjun, Orku náttúrunnar og Carbfix. Þá ávarpaði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hópinn við upphaf kynnisferðar þeirra.