Utanríkisráðherrar Evrópuráðsins funda í Tórínó
Mikilvægi þess að standa vörð um lýðræðisleg gildi, mannréttindi og réttarríkið bar hæst í ávarpi utanríkisráðherra á árlegum ráðherrafundi Evrópuráðsins sem fer fram í Tórínó á Ítalíu í dag. Utanríkisráðherra Ítalíu, Luigi Di Maio, var gestgjafi fundarins. Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022 og verður gestgjafi fundarins á næsta ári.
Í ávarpi sínu lagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra áherslu á hlutverk Evrópuráðsins við að efla grunngildi stofnunarinnar, lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Þá áréttaði hún mikilvægi þess að Evrópa standi saman í stuðningi við Úkraínu og írekaði stuðning íslenskra stjórnvalda við úkraínsku þjóðina. Jafnframt sagði ráðherra að í formennskutíð Íslands í Evrópuráðinu verði unnið að lausnum að lýðræðislegri uppbyggingu til að efla framtíðaröryggi Evrópu.
Þórdís Kolbrún segir mikilvægt að ráðherrar 46 aðildarríkja Evrópuráðsins komi saman við núverandi aðstæður til að ræða stöðu mála. „Á fundinum fengum við tækifæri til að ræða hvernig hægt er að stuðla að friði og öryggi innan Evrópu og tryggja að mannréttindi séu virt innan álfunnar,“ segir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún átti einnig tvíhliða fundi með forseta Evrópuráðsþingsins og kollegum frá Andorra, Bretlandi, Írlandi, Möltu og Serbíu. Staða mála í Úkraínu, mikilvægi mannúðaraðstoðar, virðing fyrir mannréttindum og komandi formennska Íslands í Evrópuráðinu var til umræðu á öllum fundunum.