Nýsköpunarmót opinberra aðila og fyrirtækja haldið í fyrsta sinn á Íslandi
Í október næstkomandi verður í fyrsta sinn haldið á Íslandi svokallað nýsköpunarmót opinberra aðila og fyrirtækja með það að markmiði að efla nýsköpun í innkaupum hjá hinu opinbera í samstarfi við einkageirann. Nýsköpun er hugtak sem flestir tengja við einkageirann og fyrirtækjarekstur en færri tengja hugtakið við opinbera stjórnsýslu og þjónustu. Þar getur nýsköpun þó haft veigamiklu hlutverki að gegna, rétt eins og í einkageiranum og geta opinberir aðilar nýtt sér nýsköpun á margvíslegan hátt þegar kemur að innkaupum á vöru og þjónustu, eða þróun á vörum og þjónustu sem er enn ekki til á markaði.
Fyrirtækjum gefst á nýsköpunarmótinu tækifæri á að kynna mögulegar lausnir á áskorunum opinberra aðila og fá hugsanlega tækifæri til frekari þróunar og rannnsóknarverkefna. Einnig gefst færi á að koma með hugmyndir að nýjum verkefnum sem í framhaldinu færu í opinbera innkaupaferla. Enn fremur er mögulegt að koma af stað þróunarverkefnum og rannsóknum á þjónustu í samstarfi opinbera geirans og einkageirans.
Á fjórða tug skráð til þátttöku
Nýsköpunarmótið fer fram með þeim hætti að opinberir aðilar skrá sig til þátttöku, setja fram áskoranir og óska eftir fjölbreyttum lausnum frá sprotum og fyrirtækjum. Á nýsköpunarmótinu gefst aðilum tækifæri á að skrá sig og kynna og í framhaldinu að bóka nokkurs konar hraðstefnumót eða örfundi með öðrum aðilum, ýmist opinberum eða fyrirtækjum. Þegar hafa á fjórða tug einkaaðila og opinberra aðila skráð sig með fjölbreytt verkefni til að leysa. Sem dæmi má nefna óskar Framkvæmdasýsla ríkisins eftir hugmyndum vegna aukinnar notkunar rafbíla við opinberar byggingar og Landhelgisgæslan hyggst auka sjálfvirkni við eftirlit og löggæslu á hafi.
Mótið er haldið á Grand Hótel 3. október frá 13-16 en nauðsynlegt er að skrá sig til að taka þátt. Skráning á mótið er til 26. september og fyrirtæki skrá sérhæfingu sína og opinberir aðilar skrá þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir og vantar lausnir á.