Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2004: Dómur frá 12. júlí 2004

Ár 2004, mánudaginn 12. júlí, var í Félagsdómi í málinu nr. 2/2004.

Starfsmannafélag ríkisstofnana vegna

Ragnhildar Jónsdóttur,             

Kristjáns Hlöðverssonar,

Árna Tómasar Valgeirssonar,

Ágústu Bjargar Kristjánsdóttur,

Ingólfs Helgasonar,

Ívars Valgarðssonar,

Guðmundar Guðjónssonar,

Hrafns Þórðarsonar,

Hildar Fjólu Antonsdóttur,

Atla Más Pálssonar,

Arnars Bergþórssonar,

Elíasar S. Sveinbjörnssonar,

Auðar Eiðsdóttur,

Svövu Gísladóttur,

Hönnu Ruthar Ólafsdóttur,

Karólínu Jóhannesdóttur,

Samúels Orra Samúelssonar,

Sigmars Ægis Bjarnasonar,

Ólafs Birgis Georgssonar,

Sverris Þórðarsonar,

Gríms Thors Bollasonar,

Hilmars Thors Bjarnasonar,

Ellýjar Kratsch,

Hauks Einarssonar,

Ólafs Lárussonar,

Róberts K. Péturssonar,

Vilhelms Páls Sævarssonar,

Sigurðar B. Kolbeinssonar,

Tryggva Baldurssonar,

Viktoriu Ottósdóttur,

Dagnýjar Erlu Gunnarsdóttur,

Arnórs Geirs Jónssonar,

Ólafs Ingólfssonar,

Hinriks Elvars Finnssonar,

Brynjólfs E. Reynissonar,

Andrésar Inga Jónssonar,

Guðjóns Arnars Guðmundssonar,

Óskars Hallgrímssonar,

Aðalsteins Thorarensen,

Sigrúnar Jóhannesdóttur,

Berglindar Þráinsdóttur,

Baldurs Vignis Karlssonar,

Þóreyjar Viðarsdóttur,

Kristínar Kristjánsdóttur og

Helga Sæmundar Helgasonar

(Gísli G. Hall hdl.)  

gegn

íslenska ríkinu og

Eflingu- stéttarfélagi

(Karl Ó. Karlsson hdl.)

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r

 

Mál þetta var dómtekið 14. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Guðni Á. Haraldsson og Kristján Torfason.

 

Stefnandi er Starfsmannafélag ríkisstofnana, kt. 620269-3449, Grettisgötu 89, Reykjavík, vegna Ragnhildar Jónsdóttur, kt. 060755-3619, Kristjáns Hlöðverssonar, kt. 261063-3449, Árna Tómasar Valgeirssonar, kt. 090577-4259, Ágústu Bjargar Kristjánsdóttur, kt. 090667-4409, Ingólfs Helgasonar, kt. 010357-4389, Ívars Valgarðssonar, kt. 091054-3299, Guðmundar Guðjónssonar, kt. 020749-2969, Hrafns Þórðarsonar, kt. 200653-5809, Hildar Fjólu Antonsdóttur, kt. 100475-5969, Atla Más Pálssonar, kt. 080279-3539, Arnars Bergþórssonar, kt. 130373-5549, Elíasar S. Sveinbjörnssonar, kt. 200143-2729, Auðar Eiðsdóttur, kt. 150954-4529, Svövu Gísladóttur, kt. 210236-4069, Hönnu Ruthar Ólafsdóttur, kt. 130179-5179, Karólínu Jóhannesdóttur, kt. 020580-5349, Samúels Orra Samúelssonar, kt. 021079-3839, Sigmars Ægis Bjarnasonar, kt. 140648-2569, Ólafs Birgis Georgssonar, kt. 201076-5449, Sverris Þórðarsonar, kt. 230575-3639, Gríms Thors Bollasonar, kt. 120677-4549, Hilmars Thors Bjarnasonar, kt. 090761-4559, Ellýjar Kratsch, kt. 190546-2929, Hauks Einarssonar, kt. 090553-2409, Ólafs Lárussonar, kt. 110855-5679, Róberts K. Péturssonar, kt. 180861-4759, Vilhelms Páls Sævarssonar, kt. 191177-5769, Sigurðar B. Kolbeinssonar, kt. 030166-4349, Tryggva Baldurssonar, kt. 040380-5669, Viktoriu Ottósdóttur, kt. 130265-4569, Dagnýjar Erlu Gunnarsdóttur, kt. 161071-4399, Arnórs Geirs Jónssonar, kt. 301076-4019, Ólafs Ingólfssonar, kt. 280845-3889, Hinriks Elvars Finnssonar, kt. 310176-5409, Brynjólfs E. Reynissonar, kt. 141073-5169, Andrésar Inga Jónssonar, kt. 160879-3519, Guðjóns Arnars Guðmundssonar, kt. 120570-5369,  Óskars Hallgrímssonar, kt. 210982-4939, Aðalsteins Thorarensen, kt. 240566-4009, Sigrúnar Jóhannesdóttur, kt. 070562-4999, Berglindar Þráinsdóttur, kt. 171276-3149, Baldurs Vignis Karlssonar, kt. 150479-3209, Þóreyjar Viðarsdóttur, kt. 210377-4769, Kristínar Kristjánsdóttur, kt. 121179-4079 og Helga Sæmundar Helgasonar, kt. 270575-3159.

 

Stefndi er íslenska ríkið, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, Reykjavík og Efling-stéttarfélag, kt. 701298-2259, Sætúni 1, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda    

1)    Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að Starfsmannafélag ríkisstofnana fari með samningsaðild fyrir þá við gerð kjarasamninga vegna starfa þeirra hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi.

2)    Að viðurkennt verði að kjarasamningur Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs, dags. 21. mars 2001, gildi um laun og kjör stefnenda frá og með 1. janúar 2004.

3)    Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum samkvæmt mati Félagsdóms og að við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefnenda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

 

Dómkröfur stefnda, íslenska ríkisins 

Stefndi gerir þær dómkröfur að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Einnig er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

 

Dómkröfur stefnda, Eflingar- stéttarfélags 

Stefndi gerir þær kröfur að sýknað verði af dómkröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati Félagsdóms, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hver sem úrslit málsins verða.

Með úrskurði Félagsdóms, uppkveðnum 17. maí sl., var frávísunarkröfu stefnda, Eflingar- stéttarfélags, hafnað.

 

Málavextir

Um áratugaskeið hafa almennir starfsmenn á geðdeildum ríkisspítalanna ýmist verið félagsmenn í stéttarfélagi opinberra starfsmanna, nú Starfsmannafélagi ríkisstofnana (SFR), eða átt aðild að almennu stéttarfélagi, áður Sókn, en nú Eflingu.  Störf þessa fólks hafa verið hin sömu en starfsheitin hafa verið gæslumenn innan SFR en starfsstúlka og síðar starfsmaður innan Eflingar.  Íslenska ríkið hefur gert kjarasamning annars vegar við SFR og hins vegar við Eflingu um störfin.  Í gildandi stofnanasamningi milli Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) og SFR um röðun starfa kemur röðun gæslumanns til launaflokks fram.         

Ágreiningur hefur verið uppi milli SFR og stefndu um réttaráhrif þess að tilgreindir félagsmenn hafa gengið úr Eflingu og gerst félagsmenn í SFR og falið því félagi kjarasamningsfyrirsvar sitt. Af hálfu SFR er því haldið fram að kjarasamningur Eflingar hafi verið bindandi um kaup og kjör stefnenda til 31.12.2003, þar til hann rann út.  Frá og með þeim tíma geti þeir hins vegar krafist kjara samkvæmt samningi þess stéttarfélags sem þeir nú tilheyra, enda hafi það gildan kjarasamning við vinnuveitandann um þau störf sem um ræðir.

Tilgreindir félagsmenn eru ófaglærðir starfsmenn á geðdeildum  LSH.  Spítalinn er ríkisstofnun og eru starfsmenn hans ríkisstarfsmenn, sem m.a. njóta réttinda og bera skyldur samkvæmt lögum nr. 70/1996.  Starfsmennirnir voru félagsmenn í Eflingu-stéttarfélagi (Eflingu) allt til 1. október 2003.  Með framlögðum yfirlýsingum þeirra, dags. 29. september 2003, sem tilkynntar voru stefndu, sögðu þeir sig úr félaginu og gengu í SFR frá og með 1. október 2003.  

Með bréfi LSH til starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, dags. 13. október 2003, var skrifstofunni tilkynnt um framangreinda breytingu á stéttarfélagsaðild starfsmannanna og óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til hennar.  Fram kom í bréfinu að tilgreindir félagsmenn vænti þessi að LSH muni um áramótin 2003/2004 breyta stéttarfélagsaðild þeirra í launabókhaldi og að launa- og starfskjörum þeirra verði breytt til samræmis við kjara- og stofnanasamning SFR.

Með bréfi SFR til LSH, dags. 17. desember 2003, var einnig tilkynnt um hina breyttu félagsaðild stefnenda og að tilgreindir strfsmenn hafi falið SFR kjarasamningsfyrirsvar fyrir sig, sbr. 4. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Samkvæmt því eigi þeir rétt á að fá greidd laun samkvæmt kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs frá og með 1. janúar 2004.

Í bréfi LSH til starfsmanna, dags. 19. desember 2003, en því fylgdi hjálagt umsögn starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um málið, dags. 22. október 2003, kemur fram sú afstaða að bréf starfsmanna til Eflingar og SFR með ósk um breytta félagsaðild, breyti ekki forsendum ráðningarsamninga þeirra við LSH. Á meðan svo sé verði ráðningarkjör þeirra áfram miðuð við kjarasamning Eflingar, eins og verið hafi.  Meðal þess sem kemur fram í bréfinu er að vinna sé hafin við endurskoðun / endurnýjun á starfslýsingum á geðdeildum.  Afstaða LSH er nánar rökstudd þannig:

"Eins og fram kemur í bréfinu er það afstaða ráðuneytisins að greina verði milli þeirrar ákvörðunar starfsmanna að tiltaka hvaða stéttarfélagi þeir vilja tilheyra og þess hvaða forsendur liggja til grundvallar ráðningu þeirra til starfa.  Það er afstaða ráðuneytisins og jafnramt LSH að þó svo að starfsmenn segi sig úr einu stéttarfélagi og sæki um aðild að öðru þá leiði það ekki eitt og sér til þess að þær forsendur sem þeir voru ráðnir út frá breytist.  Gengið var út frá því við ráðningu þeirra starfsmanna, sem um er að ræða, að um laun og önnur ráðningarkjör færi samkvæmt kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags.  Um þetta eru skýr ákvæði í ráðningarsamningum aðila.

Sama afstaða og rökstuðningur kemur fram í svarbréfi LSH til SFR, dags. 22. desember 2003.      

Tilgreindir félagsmenn sætta sig ekki við þessa afstöðu LSH og telja hana ólögmæta og hafa því höfðað mál þettta vegna hlutaðeigandi starfsmanna, sem nú eru félagsmenn í SFR.

 

Dómsvald Félagsdóms og aðild stefndu

Stefnandi kveður mál þetta lúta dómsvaldi Félagsdóms á grundvelli 1. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Samkvæmt því heyri það undir dómsvald Félagsdóms m.a. að dæma um ágreining er lúti að samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hverra starfsmanna samningsaðild þeirra nái.

Um aðild íslenska ríkisins til varnar vísar stefnandi til þess að LSH sé ríkisstofnun og starfsmenn, sem kröfugerðin taki til, séu ríkisstarfsmenn.  Framlagður kjarasamningur SFR og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs taki til starfa þeirra.

Eflingu sé einnig stefnt, þannig að félagið verði bundið af málsúrslitum.

 

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum:

Stefndu sé óheimilt að hafa afskipti af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna.  Í því felist að stefnendur verði ekki þvingaðir til þátttöku í öðru stéttarfélagi en þeir kjósi sjálfir. Þessi regla verði leidd af félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hafi beint lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 62/1994. Einnig er vísað til meginreglunnar um samningsfrelsi. Starfsmaður verði ekki þvingaður til að fá stéttarfélagi, sem hann hafi sagt sig úr og vilji ekki vera í, umboð til að gera kjarasamninga fyrir sig, án skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar, sbr. forsendur Félagsdóms í máli nr. 9/1999.  Þess háttar lagaheimild sé ekki fyrir hendi.

SFR sé stéttarfélag opinberra starfsmanna í skilningi laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. SFR fari með samningsaðild fyrir félagsmenn sína samkvæmt ákvæðum 4. - 6. gr. laganna. Meðal félagsmanna séu nú þeir starfsmenn, sem mál þetta sé höfðað vegna. Vakin er athygli á að samkvæmt þessum lagaákvæðum eigi stéttarfélög opinberra starfsmanna rétt til samningsaðildar fyrir félagsmenn sína. Í reglunni felist að ríki og sveitarfélögum sé skylt að gera kjarasamninga við félögin vegna félagsmanna þeirra, sem hjá þeim starfa, að uppfylltum almennum skilyrðum. Í gildi sé og hafi verið kjarasamningur milli SFR og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs sem m.a. taki til starfsmannanna sem þetta mál sé höfðað fyrir.

Efling sé stéttarfélag, sem starfi samkvæmt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Kjarasamningur félagsins við íslenska ríkið hafi runnið út 31. desember 2003.  Í 2. málsgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 felist m.a. að vinnuveitandi sé ekki bundinn af því að semja við sama stéttarfélag sem starfi samkvæmt lögunum nema út samningstíma (sjá dóm Félagsdóms í máli nr. 9/1999). Starfsmennirnir, sem mál þetta snúist um, höfðu sagt sig úr Eflingu með gildum hætti áður en kjarasamningurinn rann út.  Með því að samningurinn rann út hætti hann að vera skuldbindandi fyrir starfsmennina samkvæmt þessu ákvæði.

Stefnandi mótmælir afstöðu íslenska ríkisins og LSH til málsins, sem gerð hafi verið grein fyrir. Því er mótmælt að það hafi verið forsenda eða skilyrði ráðninga starfsmannanna, sem um ræðir, að þeir myndu vera í Eflingu um ókomna tíð og þannig takmarkað frelsi sitt til að kjósa sér stéttarfélag og fela því kjarasamningsfyrirsvar. Stefnandi telur að stefndi beri sönnunarbyrði um þetta, auk þess sem honum beri þá að sýna fram á að starfsmennirnir hafi undirgengist þess háttar afarkosti og verið kunnugt um forsenduna. Bent er á að það tíðkist í ráðningarsamningum almennt að tilgreina stéttarfélag og eftir hvaða kjarasamningi skuli farið. Í reglum nr. 351/1996, settum af fjármálaráðherra, um form ráðningarsamninga og skyldu til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör, settum með heimild í 42. gr. laga nr. 70/1996, komi m.a. fram að ráðningarsamningur skuli vera skriflegur m.a. um stéttarfélag. Í stöðluðum ráðningarsamningi ríkisstarfsmanna, sem sé að finna á heimasíðu fjármálaráðuneytisins sé afmarkaður reitur fyrir tilgreiningu á stéttarfélagi.  Stefnandi telur að tilgreiningu á þessum atriðum í ráðningarsamningum beri að túlka þröngt og starfsmanni í hag og þar með ekki þannig að í þeim felist takmörkun á rétti starfsmannsins til að kjósa nýtt stéttarfélag síðar með þeim réttaráhrifum, sem lög kveði á um.

Fari svo að stefnda takist með einhverjum hætti að sýna fram á að starfsmennirnir, einn eða fleiri, hafi lýst yfir takmörkun á frelsi sínu til að skipta um stéttarfélag og fela nýju félagi kjarasamningsfyrirsvar fyrir sig, er því loks haldið fram að líta bæri fram hjá þess háttar yfirlýsingu. Hún teldist andstæð ófrávíkjanlegum ákvæðum laga nr. 94/1986 og 80/1938, sem vísað hafi verið til.  Þá stæðist hún ekki jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, þar sem fyrir eru í SFR fjöldi félagsmanna, sem vinna sömu störf og margumræddir starfsmenn, m.a. hjá LSH, án þess að ríkið eða LSH hafi áskilið sér við ráðningu þeirra að stéttarfélagsaðild þeirra og kjarasamningsfyrirsvar yrðu óbreytanleg þaðan í frá.

Krafa um að viðurkennt verði að núgildandi kjarasamningur SFR og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs gildi um laun og kjör stefnenda frá og með 1. janúar 2004 byggist á sömu málsástæðum og lagarökum og fyrstnefnda krafan. Stefnendur hafi tilkynnt úrsögn sína úr Eflingu og inngöngu í SFR með gildum hætti áður en kjarasamningur fyrrnefnda félagsins varð laus 1. janúar 2004. Kjarasamningur SFR, sem vísað er til í kröfugerðinni, sé í gildi.  Um lagastoð fyrir kröfunni er vísað til grunnreglu 2. málsgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sem einnig eigi sér stoð í 4. málsgr. 6. gr. laga nr. 94/1986.  Einnig er vísað til dóma Félagsdóms í málum nr. 18/1998 og 9/2001.  

Málskostnaðarkrafa styðst við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeildur.

Stefndi er ósammála stefnanda um að störf starfsfólks í Eflingu annars vegar og hjá SFR hins vegar séu þau sömu. 

 

Málsástæður stefnda, íslenska ríkisins

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að af gögnum málsins verði ráðið að tilefni úrsagnar umræddra félagsmanna úr Eflingu í SFR hafi verið mismunandi launakjör. Kjör félagsmanna í Eflingu og SFR hafi, í þeim störfum sem hér um ræði, lengstum fylgst að. Áður hafi þó myndast togstreita um samningssvið félaganna vegna mismunandi launakjara, en aðilar hafi til þessa leyst hann í viðræðum. Dæmi um slíkt sé t.d. deila sem upp hafi komið í byrjun árs 1982 um kjör ófaglærðs starfsfólks á Kleppsspítala og Kópavogshæli. Í framhaldi af viðræðum fjármálaráðuneytisins með fulltrúum Starfsmannafélagsins Sóknar og SFR hafi ráðuneytið ritað félögunum samhljóða bréf, dags. 18. febrúar 1982. Í bréfunum komi m.a. fram að um launakjör ófaglærðs starfsfólks skuli ráðast í „... kjarasamningum samningsaðila sem er eini mögulegi vettvangur þess máls“. Jafnframt hafi verið gert ráð fyrir því að áfram yrði haldið viðræðum milli ráðuneytisins og verkalýðsfélaganna um skýrari mörk félagsaðildar ófaglærðs starfsfólks. Í framhaldi af þessu máli hafi ríkt ákveðinn friður milli félaganna og óformlegt samkomulag verið um samningssvið þeirra.

Að mati stefnda sé vandséð í hverju hagsmunir SFR felist nákvæmlega. Félagið hafi gert samninga um störf gæslumanna en það mál sem hér sé til umræðu snúist í raun um það hvort umræddir einstaklingar fái breytt einstaklingsbundnum ráðningarkjörum sem ákveðin hafi verið í ráðningarsamningum þeirra á lögmætan hátt.

Í dag sé það samninganefnd ríkisins sem annist kjarasamningsgerðina í umboði fjármálaráðherra, en samningssvið stéttarfélaganna hafi ávallt verið virt af aðilum. Fullyrða megi að venja hafi skapast um þau störf sem stéttarfélögin Efling og SFR og fyrirrennarar þeirra hafi samið um, sem nái lengra aftur en núgildandi lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986. Það hafi ekki verið talið í valdi stéttarfélaga að ákveða innra skipulag ríkisstofnana. Hvernig störf skuli skilgreind og hverjir skuli vinna ákveðin störf, heyri undir vinnuveitanda að ákveða en ekki stéttarfélög, sbr. dóm Félagsdóms nr. 4/1998 (XI: 315). Af þessu hljóti enn fremur að leiða að hafi tvö eða fleiri stéttarfélög gert kjarasamninga um sömu eða sambærileg störf hljóti vinnuveitandi að hafa rétt til þess að velja sér viðsemjendur. Því er haldið fram af hálfu stefnda að talsverður munur sé á störfum starfsmanna geðdeilda eftir því hvort um sé að ræða störf sem falli undir Eflingu (þar með taldir þeir einstaklingar vegna hverra stefnt sé í þessu máli) og þau störf sem falli undir SFR á geðdeildum.  Á því er byggt að störfin séu frábrugðin.  Almennt séu gerðar meiri kröfur til SFR starfsmanna.  Starfslýsingar séu gerðar um störf SFR starfsmanna og annað endurmenntunar og símenntunarferli.  Þá er bent á að starfsheiti séu mismunandi.

Stefndi leggur ríka áherslu á að það skipti hér miklu að stöðugleiki ríki þannig að þau samfélagslegu markmið sem að sé stefnt með rekstri opinberra stofnana náist. Þurfi vinnuveitandi að búa við það að stéttarfélög geti hvenær sem er krafist samningsaðildar vegna starfa sem þegar hafi verið samið um, sé ljóst að slíkt geti haft gríðarlega neikvæð áhrif á starfsemina og atriði eins og friðarskylda og stöðugleiki, sem löggjöf um samskipti stéttarfélaga og viðsemjenda þeirra sé ætlað að tryggja, verði innantóm orð. Í dönskum rétti sé viðurkennt að stéttarfélög hafi ekki samningsrétt um störf sem ríki eða sveitarfélög hafi þegar gert samning um.  Í þessu sambandi skuli undirstrikað að umræddum starfsmönnum og SFR hafi verið ljóst við ráðningu þeirra hvaða kjarasamningur yrði lagður til grundvallar ráðningunni. Því sé hafnað af hálfu stefnda að hann eða LSH þurfi að sanna slíkt sérstaklega, heldur nægi þar að vísa í ráðningarsamninga umræddra einstaklinga og sé óumdeilt hver hafi verið kjör þeirra. Forsenda fyrir ráðningu umræddra starfsmanna séu ráðningarkjör sem tilgreind séu í ráðningarsamningum, m.a. að farið skuli eftir kjarasamningi Eflingar stéttarfélags um laun og önnur starfskjör.  Starfsmenn þessir hafi ekki sagt upp ráðningarsamningi sínum við LSH. Þá sé sömuleiðis óumdeilt að SFR hafi haft vitneskju um þær hefðir og venjur sem hafi ríkt um mörk samningssviðs félagsins og Eflingar. Verði að telja að til slíkrar venju hafi verið stofnað með óformlegu samkomulagi aðila. Því fyrirkomulagi hafi ekki verið sagt upp sérstaklega af hálfu SFR en slíkt hefði verið rétt og eðlilegt með hliðsjón af forsögu málsins.

SFR vísi m.a. í málatilbúnaði sínum til dóma Félagsdóms í málum nr. 9/1999 og nr. 9/2001. Vegna þessa vilji stefndi benda á að þau sjónarmið ríkisins, sem búi að baki rekstri heilbrigðisstofnana, þar sem byggt sé á samfélagslegum markmiðum og nauðsyn fyrir stöðugleika, hafi ekki fengið sérstaka umfjöllun í þeim málum. Þá verði ekki séð að málsatvik í nefndum dómum séu sambærileg í því máli sem hér sé til umfjöllunar.

Lög nr. 94/1986 geri ráð fyrir því að stéttarfélög, sem hafi samningsaðild samkvæmt 4. og 5. gr. laganna, semji fyrir hönd þeirra starfsmanna sem undir lögin heyra, sbr. 1. gr. Lögin geri almennt ráð fyrir þeirri skipan að mörk milli stéttarfélaga ráðist annars vegar af því hvort um sé að ræða stofnun með ákveðinn fjölda starfsmanna eða félög sem taki til ákveðinnar starfsstéttar og hins vegar almennt félag sem taki til meiri hluta starfsmanna hjá ríki eða sveitarfélagi. Að auki sé gert ráð fyrir því að þau félög sem höfðu gert sérkjarasamninga samkvæmt eldri lögum hafi haldið áfram samningsaðild sinni. Þegar þetta sé virt, ásamt ákvæðum 1.-3. mgr. 6. gr. laganna, megi ráða að lög nr. 94/1986 geri ekki ráð fyrir öðru en að stéttarfélag haldi þeirri samningsaðild sem það hefur haft vegna tiltekinna starfa, jafnvel þó svo að starfsmenn segi sig úr félaginu. Leiði þetta ótvírætt af fyrirmælum 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986. Þegar þetta sé virt ásamt þeirri hefð sem ríkt hafi um samningssvið Eflingar og SFR sé ljóst að kröfur SFR séu í andstöðu við framangreind sjónarmið og beri því að hafna þeim.

Það hljóti, eins og áður segi, að vera verkefni stjórnenda LSH að skilgreina starfsemi sína og ákveða hvaða kjarasamningar skuli lagðir til grundvallar hinum ýmsu störfum. Starfsmenn eða stéttarfélag geti ekki einhliða breytt slíku.

Málshöfðun SFR byggi á 1. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, þar sem fjallað sé um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna hún nái og jafnframt 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segi að Félagsdómur dæmi um ágreining um félagsaðild þeirra sem undir lögin falla, „...hvort sem ágreiningurinn er milli samningsaðila, stéttarfélaga eða einstakra starfsmanna og stéttarfélaga.“

Kröfugerð í stefnu miði annars vegar að því að viðurkenndir verði þeir hagsmunir félagsins að fá samningsaðild fyrir umrædda starfsmenn og hins vegar að viðurkenndur verði réttur þeirra til að fá laun sín reiknuð samkvæmt kjarasamningi SFR miðað við 1. janúar 2004. Ekki verði séð að síðari viðurkenningarkrafan verði felld undir valdsvið Félagsdóms, skv. orðalagi 1. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, og verði þegar af þeirri ástæðu að hafna þeirri kröfu.

Því er ekki haldið fram af hálfu ríkisins að umræddum starfsmönnum sé skylt að vera í ákveðnu stéttarfélagi. Málið snúist einfaldlega ekki um þetta atriði heldur það, eins og áður segi, að ríkið hafi gert kjarasamninga við SFR og Eflingu um tiltekin störf.

Standi starfsmaður, sem falli undir lög nr. 94/1986, utan stéttarfélaga eða segi sig úr stéttarfélagi, hafi slíkt ekki áhrif á ráðningarkjör hans, sbr. 7. gr. laganna. Öllum aðilum hafi verið kunnugt um hver hafi verið mörk milli samningssviða félaganna. Þó svo að samningar séu nú lausir við Eflingu, breyti það ekki því að ríkið hafi áfram vilja til þess að semja við Eflingu út frá sömu forsendum og áður. Það sé í sjálfu sér rétt að vinnuveitandi sé ekki bundinn af því að semja við sama stéttarfélag nema út samningstímann eins og segi í dómi Félagsdóms nr. 9/1999. Af því verði á hinn bóginn ekki dregin sú ályktun að SFR geti krafist þess að gerður verði kjarasamningur við félagið eða að samningssvið gildandi kjarasamnings fái víðara gildissvið, en upphaflega stóð til. Hér hljóti að ráða ákvörðun vinnuveitenda og hafi hann ekki ákveðið annað komi til almennar reglur, sjá hér til hliðsjónar 2. mgr. 12. gr. laga nr. 94/1986 og dóm Félagsdóms í máli nr. 9/1992 (IX:538). Kjarasamningur SFR verði ekki laus fyrr en 1. desember nk. Fram að þeim tíma ríki friðarskylda milli samningsaðila. Í því felist m.a. að samningsaðilar virði þann samning sem gerður hafi verið og þær forsendur sem hann byggi á, þ. á m. þær venjur og hefðir sem gilt hafi um samningssvið stéttarfélaga um umrædd störf.

Það sé mat stefnda að þegar sé í gildi kjarasamningur milli Eflingar og SFR um störf gæslumanna og af þeim sökum sé ekki ástæða til þess að fjalla um kröfur félagsins. Þá telur stefndi að tilvísun SFR til máls 9/1999 geti ekki átt við í þessu máli þar sem málsatvik séu þar ekki sambærileg eins og áður segi.

Þær kröfur sem SFR hafi sett fram, beinist að því að fá viðurkennt að kjörum tiltekinna starfsmanna sem ákveðin hafi verið í ráðningarsamningum, verði breytt. Hér sé ekki um félagsleg réttindi að ræða heldur einstaklingsbundna hagsmuni. Í þessu sambandi skuli tekið fram að í framlögðum yfirlýsingum starfsmanna, sem allar séu samhljóða, segi að viðkomandi hafi sagt sig úr Eflingu frá og með 1. október og að óskað sé eftir inngöngu í SFR frá og með sama tíma. Í yfirlýsingunni komi ekki fram sérstök ósk um það frá hvaða tíma SFR skuli fara með samningsaðild vegna þeirra. Þó svo að LSH hafi verið sent afrit bréfanna leiði það ekki til þess að starfsmenn hafi ákveðið að gera meira en það. Í bréfi félagsins, dags. 17. desember 2003, komi fram að umræddir starfsmenn hafi gengið í SFR og falið félaginu kjarasamningsfyrirsvar, sbr. 4. gr. laga nr. 94/1986. Engin yfirlýsing liggi á hinn bóginn fyrir um slíkt af hálfu þeirra. Í niðurlagi tilvitnaðs bréfs sé tekið fram að starfsmennirnir eigi að fá greidd laun samkvæmt kjarasamningi SFR frá og með næstu áramótum þegar kjarasamningur Eflingar renni út. Þessari staðhæfingu sé harðlega mótmælt. Eins og áður segi hafi fjármálaráðherra ákveðið að endurnýja kjarasamning sinn við Eflingu vegna þeirra starfa sem unnin séu á vegum spítalans samkvæmt þeim samningi. Efling hafi ekki heldur lýst því yfir að það muni hafna gerð kjarasamnings eða boða til verkfalls en slíkt hefði augljóslega í för með sér að samningar væru lausir. Að því gefnu að réttur umræddra starfsmanna til þess að skipta um stéttarfélag sé til staðar, geti hann ekki orðið virkur fyrr en í fyrsta lagi með nýjum kjarasamningum við SFR eða eftir 30. nóvember nk.   Í þessu felist þó engin viðurkenning á kröfum stefnanda.

Því telur stefndi að hafna beri viðurkenningarkröfum stefnanda. Telur stefndi að stefnanda beri að virða þann kjarasamning sem félagið hefur gert við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og rennur út 30. nóvember 2004. Kjarasamningar félagsins hafi náð til gæslumanna á LSH samkvæmt þeim venjum og hefðum sem þar hafi ríkt. Að mati stefnda verður 1. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 ekki skilinn svo að hann víki til hliðar lögmætum kjarasamningum annarra stéttarfélaga. Sé ljóst að í óefni myndi stefna ef sú yrði raunin og markmið kjarasamninga að koma á friði og ró á vinnumarkaði yrðu að engu gerð. Að mati ráðuneytisins sé það í valdi LSH að skipuleggja starfsemi sína og þar á meðal að ákveða hvaða kjarasamningar skuli lagðir til grundvallar við ráðningu í einstök störf.

Verði á hinn bóginn fallist á að SFR skuli fara með samningsaðild vegna umræddra starfsmanna, verði slíkt fyrst skuldbindandi fyrir LSH þegar SFR hafi gert nýjan kjarasamning eftir 30. nóvember nk., en ekki 1. janúar 2004 eins og krafa SFR byggi á.

Um málskostnaðarkröfu stefnda í málinu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938.

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum og rökum stefnanda.

Á það er bent að a.m.k. 3 starfsmenn sem stefnt sé vegna séu hættir störfum.

Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem hann haldi fram í málinu.

Auk framangreindra lagaraka vísar stefndi til almennra reglna vinnuréttar.

 

Málsástæður stefnda, Eflingar- stéttarfélags

Af hálfu Eflingar- stéttarfélags er á það bent að þegar úrsagnir starfsmannanna 45 bárust Eflingu-stéttarfélagi þann 29. september 2003, hafi kjarasamningur félagsins við meðstefnda, ríkið, enn verið í gildi um störf á geðdeildum Landspítala háskólasjúkrahúss, en gildistími samningsins hafi verið til 31. desember 2003. Á þeim tíma sem úrsagnirnar bárust Eflingu-stéttarfélagi hafi staðið yfir samningaviðræður Starfsgreinasambands Íslands f.h. aðildarfélaga þess, þ. á m. stefnda Eflingar-stéttarfélags, við samninganefnd ríkisins um kaup og kjör starfsmanna heilbrigðisstofnana þ. á m. um kjör þeirra 45 starfsmanna sem tilgreindir séu í stefnu. Hafi fyrsti samningafundur fulltrúa Starfsgreinasambandsins við samninganefnd ríkisins verið haldinn þann 17. september 2003.

Réttur til þess að stofna stéttarfélög sé sérstaklega varinn af  74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur sé kveðið á um að menn eigi rétt á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagssambönd í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt. Í 1. mgr. 3. gr. laganna sé tekið fram að stéttarfélög ráði málefnum sínum með þeim takmörkunum sem sett séu í lögunum. Einstaka meðlimir stéttarfélaga séu bundnir við löglega gerðar samþykktir og samninga félagsins og stéttarsambands þess sem það kunni að vera í. Í  2. mgr. 3. gr. laganna sé síðan kveðið á um að aðili stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess þegar hann, samkvæmt reglum félagsins, sé farinn úr því, en samningar sem hann hafi orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, séu skuldbindandi fyrir hann meðan hann vinni þau störf sem samningurinn sé um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi fyrir uppsögn. Af greindum ákvæðum leiði að stéttarfélög ráði málefnum sínum sjálf, þar á meðal félagssamþykktum, og geti stéttarfélög á þeim grunni sett m.a. takmarkanir á úrsagnir úr félögunum, enda séu takmarkanir málefnalegar, byggðar á starfslegum hagsmunum félaganna og gangi ekki lengra en þörf krefur. Vísist hér til forsendna í dómi Félagsdóms í málinu nr. 9/2001.

Ákvæði 5. gr. laga Eflingar-stéttarfélags fjalli um úrsögn félagsmanna úr félaginu. Í 3. mgr. 5. gr. laganna sé kveðið á um að enginn geti sagt sig úr félaginu meðan viðræður um kjarasamninga, vinnudeila sem snertir kaupgjald eða vinnuskilmála viðkomandi félagsmanna standi yfir. Sé enn fremur kveðið á um að óheimilt sé að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi sem lagt hafi niður vinnu vegna vinnudeilu. Tilgangur ákvæðisins, sem hafi verið óbreytt frá 10. maí 2001, sé að koma í veg fyrir að úrsagnir veiki félagið þegar sérstakrar samstöðu er þörf, s.s. þegar kjarasamningsviðræður séu hafnar eða vinnudeila yfirvofandi. Ákvæði þetta sé málefnalegt og byggt á starfslegum hagsmunum félagsins, sem og hagsmunum félagsmanna. Sé á því byggt að stefnendum, hinum nafngreindu 45 starfsmönnum, hafi verið óheimilt að segja sig úr Eflingu-stéttarfélagi og því hafi  uppsagnirnar verið ólögmætar. Séu þeir bundnir af kjarasamningum Eflingar-stéttarfélags um störf sín, hvort heldur sé á hinum samningsbundna gildistíma kjarasamningsins eða að honum loknum, sbr. þá meginreglu vinnuréttar að eldri samningur haldi gildi sínu þar til nýr samningur hafi tekið gildi. Á meðan svo sé geti þeir starfsmenn sem tilgreindir séu sem stefnendur málsins ekki, í skjóli annars stéttarfélags, krafist þess að um kjör þeirra fari samkvæmt öðrum og óskyldum kjarasamningi og beri því að sýkna af kröfum stefnanda í málinu. Sé því sérstaklega mótmælt að kröfugerð stefnanda hafi stoð í ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Til stuðnings sýknukröfu stefnda sé enn fremur byggt á þeim málsástæðum sem færðar séu fram til stuðnings frávísunarkröfu í málinu. Sérstaklega sé áréttað að tilteknir starfsmenn séu bundnir af ráðningarsamningum sínum við ríkið þar sem ráðningarsamningunum hafi ekki verið sagt upp. Sé af hálfu Eflingar-stéttarfélags  tekið undir þau sjónarmið meðstefnda sem komi fram bréfi fjármálaráðuneytis, dags. 22. október 2003. Einhliða breyting á aðild að stéttarfélagi breyti ekki forsendum ráðningarsamninga stefnenda vegna starfa þeirra hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Í ráðningarsamningum tilgreindra félagsmanna við Landspítala Háskólasjúkrahús sé samið um að um launkjör þeirra fari samkvæmt kjarasamningum Eflingar-stéttarfélags og sé slíkt í samræmi við forgangsréttarákvæði kjarasamningsins. Ráðningarkjörum starfsmannanna verði ekki breytt, nema að undangenginni uppsögn. Kröfugerð stefnanda feli í raun í sér kröfu um viðurkenningu á ólögmætri riftun ráðningarsamninga. Slík kröfugerð fái ekki staðist. Félagsdómur sé hvorki gerðardómur, né heldur standi dómurinn fyrir gerð kjarasamninga. Um kjör starfsmannanna verði að semja. Með ráðningarsamningum sínum við ríkið, grundvölluðum á kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags, hafi stefnandi, ríkið og Efling-stéttarfélag aukin heldur tekist á hendur réttindi og skyldur sem ekki verði hróflað við á meðan ráðningarsamningar séu í gildi. Feli þetta m.a. í sér að Efling-stéttarfélag sé skuldbundið til þess að veita stefnendum ýmsa þjónustu og hafi jafnframt skuldbundið sig til þess að fara með samningsforráð fyrir starfsmenn Landspítala háskólasjúkrahúss.

Málsástæðum stefnanda um að verið sé að þvinga starfsmennina til stéttarfélagsaðildar eða að verið sé að setja þeim afarkosti sé mótmælt sem tilhæfulausum. Stefnandi hafi gengið til samninga um þau störf sem viðkomandi starfsmenn sinni með ráðningarsamningum, grundvölluðum á kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags. Samningsbundið forgangsréttarákvæði kjarasamningsins fái fyllilega staðist, enda hafi mannréttindadómstóll Evrópu viðurkennt forgangsréttarákvæði kjarasamninga, svo fremi þeim sé ekki beitt afturvirkt gagnvart starfsmönnum sem ráðið höfðu sig til starfa áður en samningur um forgangsrétt félags tók gildi. Vísist hér til dóms mannréttindadómstóls Evrópu frá 13. ágúst 1981 í málinu Young, James og Webster gegn Bretlandi, er varðaði  starfsmenn bresku járnbrautanna.

Stefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. gr. og 130. gr., sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938. Krafa um virðisaukaskatt styðst við ákvæði laga nr. 50/1988, en stefndi rekur ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi.       

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 94/1986 fara stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt lögunum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá. Stefnandi í máli þessu, Starfsmannafélag ríkisstofnana, er slíkt stéttarfélag, sem um ræðir í greindu ákvæði, er hefur rétt til að vera samningsaðili við stefnda, íslenska ríkið, og er ekki um það deilt í málinu.

Samkvæmt fyrri kröfulið í dómkröfum sínum krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnandi fari með samningsaðild fyrir hina tilgreindu starfsmenn við gerð kjarasamninga vegna starfa þeirra hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Af hálfu stefndu er krafa um sýknu af þessari kröfu í meginatriðum studd þeim málsástæðum í fyrsta lagi að ákvæði 3. mgr. 5. gr. félagslaga hins stefnda stéttarfélags, Eflingar-stéttarfélags, girði fyrir greindar úrsagnir úr félaginu, sbr. kröfugerð stéttarfélagsins, og í öðru lagi að umræddir starfsmenn séu bundnir af ráðningarsamningum sínum við stefnda, íslenska ríkið, sem ekki hafi verið sagt upp, þannig að einhliða breyting á aðild að stéttarfélagi breyti ekki forsendum ráðningarsamninga, grundvölluðum á kjarasamningi stefndu, Eflingar-stéttarfélags, og íslenska ríkisins, sbr. kröfugerð beggja stefndu. Þá ber stefndi, íslenska ríkið, við ákvæðum 6. og 7. gr. laga nr. 94/1986 og hefð um samningssvið stefnanda og stefnda, Eflingar-stéttarfélags. Beri að virða gildandi kjarasamning milli stefnanda og íslenska ríkisins. Ennfremur er byggt á því af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, að munur sé á störfum eftir því hvort þau falli undir svið stefnda, Eflingar-stéttarfélags, eða stefnanda, Starfsmannafélags ríkisstofnana.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndu sé óheimilt að hafa afskipti af stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna, en í því felist að þeim sé óheimilt að þvinga hina tilgreindu starfsmenn til þátttöku í öðru stéttarfélagi en þeir sjálfir kjósi. Þessi regla verði leidd af 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, sem veittu sáttmála þessum ásamt áorðnum breytingum samkvæmt tilgreindum samningsviðaukum, lagagildi hér á landi. Þá vísar stefnandi til meginreglunnar um samningsfrelsi. Starfsmaður verði ekki þvingaður til að fá stéttarfélagi, sem hann hafi sagt sig úr, umboð til að gera kjarasamninga fyrir sig, án skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar, sbr. Fd. XI:484. Varðandi sérstaklega þá málsástæðu stefnda, Eflingar-stéttarfélags, að ákvæði 3. mgr. 5. gr. félagslaga stéttarfélagsins hafi staðið hinum umdeildu úrsögnum úr félaginu í vegi, vísar stefnandi til þess að ákvæðið sé óljóst orðað og beri að skýra það þröngt, sbr. og sjónarmið í dómi Félagsdóms frá 4. júlí 2001 í málinu nr. 9/2001: Starfsmannafélag ríkisstofnana vegna Marínar Gústafsdóttur gegn íslenska ríkinu, Byggðasamlagi um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra og Verkalýðsfélaginu Vöku. Túlka verði ákvæðið svo að ekki sé unnt að segja sig úr félaginu meðan vinnudeila stendur yfir, en ekki nægi að kjaraviðræður eigi sér stað. Miða beri við að viðræður fari fram um kjarasamninga þegar vinnudeila standi yfir. Hér hafi staðið svo á, þegar úrsagnirnar fóru fram, að kjarasamningur hafi verið í gildi og engin vinnudeila. Samningafundur um kjaramál um miðjan september 2003 geti ekki þýtt það að slíku ástandi, sem lýst sé í 3. mgr. 5. gr. félagslaga stefnda, Eflingar-stéttarfélags, hafi verið fyrir að fara. Stefndi, Efling-stéttarfélag, telur að greint ákvæði félagslaganna sé málefnalegt og byggt á starfstengdum hagsmunum stéttarfélagsins sem og hagsmunum félagsmanna. Ákvæðið gangi ekki lengra en þörf krefji. Hafi úrsagnirnar því verið óheimilar og ólögmætar. Greindir starfsmenn séu því bundnir af kjarasamningum stéttarfélagsins hvort heldur á samningsbundnum gildistíma eða að honum loknum, sbr. reglu vinnuréttar um gildi eldri samnings þar til nýr hefur verið gerður. Meðan svo standi á geti um kjör þeirra ekki farið eftir öðrum og óskyldum kjarasamningi.

Í 1. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er meðal annars tekið fram að menn eigi rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess, og engan megi skylda til aðildar að félagi, þó með þeirri undantekningu að kveða má á um slíka skyldu með lögum ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Í 1. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er meðal annars tekið fram að rétt skuli mönnum að mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum, og í 2. mgr. greinarinnar eru tilgreindar þær takmarkanir sem þessi réttur er háður.

Í 1. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, er kveðið svo á um að menn eigi rétt á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt. Í 1. mgr. 3. gr. laga þessara er tekið fram að stéttarfélög ráði sjálf málefnum sínum með þeim takmörkunum sem settar eru í lögunum. Einstakir meðlimir félaganna séu bundnir við löglega gerðar samþykktir og samninga félagsins og stéttarsambands þess sem það kann að vera í. Í 2. mgr. 3. gr. laganna er mælt svo fyrir að meðlimur stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, séu skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn.

Samkvæmt framansögðu er réttur til að stofna stéttarfélög sérstaklega varinn af 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Af því leiðir, sbr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, að stéttarfélög ráða málefnum sínum sjálf, þar á meðal félagssamþykktum. Verður að telja að á þessum grundvelli geti stéttarfélög sett takmarkanir í félagslög sín á úrsagnir úr félögunum, enda séu slíkar takmarkanir málefnalegar, byggðar á starfslegum hagsmunum félaganna og gangi ekki lengra en þörf krefur. Ljóst er að tilgangurinn með hinu umdeilda ákvæði 3. mgr. 5. gr. félagslaga stefnda, Eflingar-stéttarfélags, er að koma í veg fyrir að úrsagnir veiki félagið þegar sérstakrar samstöðu er þörf vegna vinnudeilu og hliðstæðra aðstæðna. Almennt verður að telja slíkt markmið málefnalegt og ákvæði af þessum toga lögmæt. Er það og óumdeilt í málinu, en tekist á um það hvernig túlka beri greint ákvæði og hvort þeim aðstæðum hafi verið fyrir að fara sem falli undir ákvæðið. Hins vegar er ljóst að af 74. gr. stjórnarskrárinnar leiðir að slík ákvæði geta ekki verið víðtækari og gengið lengra en nauðsyn ber til. Ber að túlka slík ákvæði með hliðsjón af því.

Umrætt ákvæði 3. mgr. 5. gr. félagslaga stefnda, Eflingar-stéttarfélags, er svohljóðandi:

“Enginn getur sagt sig úr félaginu meðan viðræður um kjarasamninga, vinnudeila sem snertir kaupgjald eða vinnuskilmála viðkomandi félagsmanna stendur yfir. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi er lagt hefur niður vinnu vegna vinnudeilu.”

Fram hefur komið í málinu að í maímánuði 2001 hafi verið gerð sú breyting á 1. málsl. 3. mgr. 5. gr. félagslaga stefnda, Eflingar-stéttarfélags, að orðunum “viðræður um kjarasamninga” hafi verið skeytt inn. Frá þeim tíma hafi ákvæðið verið óbreytt. Þegar úrsagnir umræddra starfsmanna fóru fram hinn 29. september 2003 stóð svo á að í gildi var kjarasamningur milli  Eflingar-stéttarfélags annars vegar og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hins vegar sem undirritaður var 27. maí 2000 og gilti frá 1. maí 2000 til 31. desember 2003. Þá hafði hinn 17. september 2003 verið haldinn samningafundur ríkisins og samninganefndar Starfsgreinasambandsins fyrir hönd aðildarfélaga þess um gerð nýs kjarasamnings, meðal annars vegna starfsmanna heilbrigðisstofnana, þar á meðal félagsmanna stefnda, Eflingar-stéttarfélags, á geðdeildum Landspítala-háskólasjúkrahúss, sbr. yfirlýsingu Starfsgreinasambandsins, dags. 9. júní 2004, sem lögð hefur verið fram í málinu af hálfu stefnda, Eflingar-stéttarfélags. Ekki kemur nánar fram um hvað fjallað var á fundi þessum og ekki liggur fyrir hvort viðræðuáætlun hafði verið gerð, sbr. III. kafla laga nr. 80/1938, sbr. 5. gr. laga nr. 75/1996.  Ekki liggur því fyrir svo óyggjandi sé að viðræður um kjarasamninga í skilningi 3. mgr. 5. gr. félagslaga stefnda hafi verið hafnar með greindum samningafundi. Þegar af þessari ástæðu verður ekki fallist á að stefndi, Efling-stéttarfélag, hafi sýnt fram á með málatilbúnaði sínum að þær aðstæður, sem uppi voru þegar úrsagnirnar fóru fram, hafi verið þess eðlis að umrætt ákvæði félagslaga stéttarfélagsins hafi girt fyrir úrsagnirnar og þannig takmarkað félagafrelsi félagsmanna stefnanda, sbr. og þau viðhorf um skýringu á ákvæðinu sem að framan greinir. Samkvæmt þessu verður sýknukrafa af fyrri kröfulið í dómkröfum stefnanda ekki tekin til greina á þessum grundvelli.

Af hálfu beggja stefndu er því borið við til stuðnings sýknukröfu af  fyrri kröfulið í dómkröfum stefnanda að ráðningarsamningar þeir, sem umræddir starfsmenn hafa gert, standi gegn samningsaðild stefnanda vegna starfsmannanna, sbr. forsendur ráðningarsamninganna, þar sem tilgreint sé að um launakjör fari eftir kjarasamningi milli stefndu. Þessum ráðningarsamningum hafi ekki verið sagt upp. Það er ekki innan valdsviðs Félagsdóms að dæma um ráðningarkjör eða ráðningarsamninga, sem starfsmenn gera þegar þeir ráða sig til vinnu, eða um forsendur slíkra samninga, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986. Að þessu athuguðu og þar sem ekki verður talið að hugsanleg ágreiningsefni af þessum toga geti á neinn hátt staðið samningsaðild stefnanda í vegi vegna umræddra starfsmanna, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 4. gr. laga nr. 94/1986, verður sýknukrafa stefndu af fyrri kröfulið í dómkröfum stefnanda ekki tekin til greina á þessum grundvelli. Þá verður ekki talið að neitt hald sé í þeirri málsástæðu stefnda, íslenska ríkisins, að slík hefð hafi skapast um samningssvið stéttarfélaganna, þ.e. stefnanda og stefnda, Eflingar-stéttarfélags, að lögmælt samningsaðild þoki, sbr. og tilvísanir stefnda, íslenska ríkisins, til 6. og 7. gr. laga nr. 94/1986 í þessu sambandi.

Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er því borið við, eins og fram er komið, að munur sé á störfunum eftir samningssviði stéttarfélaganna. Þau séu frábrugðin og meiri kröfur séu gerðar til starfsmanna stefnanda, m.a. varðandi endurmenntun og símenntun. Nánari grein er ekki gerð fyrir þessum mun. Ekki verður séð að stefndi, Efling-stéttarfélag, byggi að neinu leyti á því að munur sé á störfunum eða haldi slíku fram. Fyrir liggur að hinir tilgreindu starfsmenn eru almennir og ófaglærðir starfsmenn á geðdeildum Landspítala-háskólasjúkrahúss. Með vísan til þess og þar sem ekkert haldbært hefur komið fram um neinn þann mun á störfunum, er staðið geti í vegi fyrir samningsaðild stefnanda vegna umræddra starfsmanna, verður sýknukrafa ekki tekin til greina á þessum grundvelli.

Samkvæmt framansögðu ber að taka til greina fyrri kröfulið í dómkröfum stefnanda um viðurkenningu á því að stefnandi, Starfsmannafélag ríkisstofnana, fari með samningsaðild vegna hinna tilgreindu starfsmanna við gerð kjarasamninga vegna starfa þeirra hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, að frátöldum Óskari Hallgrímssyni, sem dró til baka úrsögn sína úr Eflingu - stéttarfélagi.

Samkvæmt síðari kröfulið í dómkröfum sínum krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að kjarasamningur Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags 25. mars 2001, gildi um laun og kjör tilgreindra félagsmanna stefnanda frá og með 1. janúar 2004.

Af dómi Félagsdóms frá 27. nóvember 1998 í málinu nr. 18/1998 (Fd.XI:350) verður ráðið að meðlimur stéttarfélags, sem breytt hefur um stéttarfélagsaðild, verði eftir sem áður bundinn af kjarasamningi þess stéttarfélags, sem hann gekk úr, meðan gildistími þess samnings varir.  Í máli þessu er hins vegar uppi sú staða að krafa stefnanda er um það að framangreindur kjarasamningur gildi um laun og kjör tilgreindra félagsmanna stefnanda að loknu samningstímabili samkvæmt kjarasamningi við Eflingu-stéttarfélag, sem rann út 31. desember 2003.  Er krafa stefnanda að þessu leyti sambærileg þeirri kröfu, sem fallist var á með dómi Félagsdóms í málinu nr. 9/2001 hinn 4. júlí 2001.

Telja verður að framangreindir dómar Félagsdóms hafi fordæmisgildi varðandi niðurstöðu í máli þessu.  Þegar það er virt og með vísan til framangreindrar niðurstöðu um fyrri kröfulið í málinu þykja ekki vera efni til annars en að taka einnig til greina seinni kröfulið í dómkröfum stefnanda, eins og nánar greinir í dómsorði.  Með þessu er ekki tekin afstaða til ráðningarsambands einstakra félagsmanna stefnanda og Landspítlala-háskólasjúkrahúss, eins vikið var að í umfjöllun um fyrri kröfulið stefnanda.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda málskostnað þannig að stefndi, íslenska ríkið, greiði 100.000 krónur í málskostnað, en stefndi, Efling-stéttarfélag, greiði 150.000 krónur að teknu tilliti til úrlausnar um frávísunarkröfu sem sett var fram af hálfu þess aðila.

 

D ó m s o r ð:

Viðurkennt er að stefnandi, Starfsmannafélag ríkisstofnana, fari með samningsaðild vegna Ragnhildar Jónsdóttur, Kristjáns Hlöðverssonar, Árna Tómasar Valgeirssonar, Ágústu Bjargar Kristjánsdóttur, Ingólfs Helgasonar, Ívars Valgarðssonar, Guðmundar Guðjónssonar, Hrafns Þórðarsonar, Hildar Fjólu Antonsdóttur, Atla Más Pálssonar, Arnars Bergþórssonar, Elíasar S. Sveinbjörnssonar, Auðar Eiðsdóttur, Svövu Gísladóttur, Hönnu Ruthar Ólafsdóttur, Karólínu Jóhannesdóttur, Samúels Orra Samúelssonar, Sigmars Ægis Bjarnasonar, Ólafs Birgis Georgssonar, Sverris Þórðarsonar, Gríms Thors Bollasonar, Hilmars Thors Bjarnasonar, Ellýjar Kratsch, Hauks Einarssonar, Ólafs Lárussonar, Róberts K. Péturssonar, Vilhelms Páls Sævarssonar, Sigurðar B. Kolbeinssonar, Tryggva Baldurssonar, Viktoriu Ottósdóttur, Dagnýjar Erlu Gunnarsdóttur, Arnórs Geirs Jónssonar, Ólafs Ingólfssonar, Hinriks Elvars Finnssonar, Brynjólfs E. Reynissonar, Andrésar Inga Jónssonar, Guðjóns Arnars Guðmundssonar, Aðalsteins Thorarensen, Sigrúnar Jóhannesdóttur, Berglindar Þráinsdóttur, Baldurs Vignis Karlssonar, Þóreyjar Viðarsdóttur,  Kristínar Kristjánsdóttur og Helga Sæmundar Helgasonar við gerð kjarasamninga vegna starfa þeirra hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi.

Viðurkennt er að kjarasamningur Starfsmannafélags ríkisstofnana og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, dags 25. mars 2001, gildi um laun og kjör tilgreindra félagsmanna stefnanda frá og með 1. janúar 2004.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 100.000 krónur í málskostnað, og stefndi, Efling-stéttarfélag,  greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Guðni Á. Haraldsson

Kristján Torfason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta