Frumvarpsdrög send til umsagnar
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur sent út til umsagnar frumvarpsdrög til umsagnar þar sem gert er ráð fyrir að breyta í grundvallaratriðum hlutverki og skipulagi eftirlits- og forvarnastofnana sem ríkið rekur.
Samkvæmt frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir að ný stofnun, Eftirlitsstofnun heilbrigðisþjónustu, verði sett á fót til að taka við verkefnum frá Lyfjastofnun og verkefnum landlæknis er varða eftirlitshlutverk embættisins. Með lögunum yrði landlæknisembættið, þ.e.a.s. eftirlitsþáttur starfseminnar, Lyfjastofnun og lyfjagreiðslunefnd sameinuð í eina stofnun. Hugmyndin er að byggja með þessu upp eina öfluga eftirlits- og stjórnsýslustofnun sem falið yrði að hafa eftirlit með öllum þáttum er snúa að heilbrigðisþjónustunni. Ætla mætti að með þessu fyrirkomulagi nýttist sérhæfing betur og að með þessu yrði til skilvirkari stjórnsýslu og samhæfðara eftirlit með fjölbreyttum þáttum heilbrigðisþjónustunnar.
Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir að hlutverk Eftirlitsstofnunar heilbrigðisþjónustu yrði m.a. eftirfarandi:
- að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum
- að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna,
- að safna og vinna upplýsingar um heilbrigðisþjónustu,
- að veita starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta,
- að vinna að gæðaþróun innan heilbrigðisþjónustu,
- að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu
- að leggja faglegt og heilsuhagfræðilegt mat á þær aðferðir sem boðið er upp á í heilbrigðisþjónustunni.
- að veita ráðgjöf um heilbrigðismál,
- að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu
- að fylgjast með heilbrigði landsmanna,
- að annast þau verkefni sem sóttvarnalækni eru falin samkvæmt sóttvarnalögum,
- að efla lýðheilsu- og forvarnarstarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa,
- að annast forvarna- og heilsueflingarverkefni,
- að annast fræðslu til almennings og annarra um heilbrigði og heilsueflingu og styðja starfsemi stofnana og frjálsra félagasamtaka til eflingar lýðheilsu og forvarna,
- að efla kennslu og rannsóknir á sviði lýðheilsu og stuðla að samstarfi við háskóla og aðrar menntastofnanir,
- að beina tillögum til stjórnvalda um aðgerðir til að efla lýðheilsu og forgangsröðun verkefna.