Sameiginleg sjúkraskrá fyrir allt landið
Lagt er til í áliti stýrihóps um upplýsingatækni að undirbúningi rafrænnar sjúkraskrár fyrir landið allt verði hraðað. Stýrihópur um upplýsingatækni hefur skilað áfangaskýrslu sinni til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, og hvetur eindregið til átaks í rafrænum samskiptum í heilbrigðisþjónustu. Stýrihópurinn var skipaður síðast liðið sumar og var falið að fjalla um þá möguleika sem liggja í rafrænum samskiptum í heilbrigðisþjónustunni einkum með tilliti til heilbrigðisnetsins og uppbyggingar rafrænnar sjúkraskrár. Fyrir hópnum lá það verkefni að gera tillögur um hvernig ná mætti fram stefnumiðum heilbrigðisráðuneytisins fyrir upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu næstu 5-8 árin og hvernig uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár skyldi háttað á Íslandi á næstu 3-5 árum.
Tillögurnar sem starfshópurinn hefur nú skilað heilbrigðisráðherra byggjast á greiningu og stöðumati á umfangi og kostnaði við upplýsingatækni á heilbrigðissviði. Tillögurnar fjalla í meginatriðum um áframhaldandi uppbyggingu og rekstur rafrænnar sjúkraskrár og heilbrigðisnets.
Tillögurnar eru í fimm liðum en megin tillagan er sú að þegar á þessu ári verði gerð kröfulýsing sem gæti orðið grundvöllur útboðs hins almenna hluta sjúkraskrár er taki til landsins alls. Um 1300 milljónir króna renna nú til upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustunni í heild sinni, m.a. til nettenginga, búnaðar, hugbúnaðarleyfa, þjónustu, o. fl. Það er mat starfshópsins að mögulegt sé að nýta þetta fé enn betur með aukinni samvinnu og samnýtingu mannafla og búnaðar í verkefnum sem tengjast rafrænni sjúkraskrá.
Tillögurnar eru þessar:
1. Uppbygging rafrænnar sjúkraskrár og sameining sjúkraskráa heilbrigðisumdæma
Unnið skal að samræmingu og samtengingu rafrænnar sjúkraskrár til að auka skilvirkni, gæði og öryggi þjónustunnar. Það verði gert m.a. með því að sameina sjúkraskrár í hverju heilbrigðisumdæmi. Stefnan er að það verði ein sjúkraskrá fyrir hvern einstakling frá vöggu til grafar. Sú útfærsla krefst ekki endilega þess að gögnin séu vistuð á einum stað. Markmiðið er að meðferðaraðili geti nálgast nauðsynlegar sjúkraskrárupplýsingar óháð uppruna þeirra.
Lagt er til að sjúkraskrárkerfi verði sameinuð, fyrst í stað eftir heilbrigðisumdæmum og byrjað verði á því að sameina sjúkraskrár sjúkrahúsa á suðvesturhorninu. Heilsugæsla og sérfræðistofur komi inn á síðari stigum.
2. Rafrænt sjúkraskrárkerfi uppfylli kröfulýsingu heilbrigðisráðuneytis
Sjúkraskrárkerfi sem fullnægir kröfum tímans er grundvöllur gæða og þjónustu við sjúklinga. Það er einnig forsenda kostnaðar- og heilsuhagfræðilegra greininga í heilbrigðisþjónustunni. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á hagræðingu og bætta þjónustu, m.a. með fækkun rannsókna og færri mistökum, bæði í lyfjagjöf og annarri meðferð.
Nefndin leggur til að gerð verði kröfulýsing sem gæti orðið grundvöllur útboðs hins almenna hluta sjúkraskrár er tæki til landsins alls. Árið 2007 var alls varið um 1.300 milljónum króna í upplýsingatækni í heilbrigðiskerfinu til hinna mismunandi upplýsingakerfa. Því má líta svo á að svigrúm sé til staðar innan heilbrigðiskerfisins til að fjármagna hluta rafrænnar sjúkraskrár. Útboð sem fullnægir kröfulýsingu heilbrigðisráðuneytisins um rafræna sjúkraskrá sker úr um hvort núverandi sjúkraskrárkerfi fullnægi þörfum og kröfum íslensks heilbrigðiskerfis.
3. Ný miðstöð sjúkraskrár
Lagt er til að sett verði á stofn miðstöð sem annast samræmingu og framkvæmd stefnu ráðuneytisins um rafræna sjúkraskrá og heilbrigðisnet. Henni gæti t.d. verið komið fyrir hjá einni af undirstofnunum heilbrigðisráðuneytisins. Útilokað er að reka flókna og margþætta starfsemi af þessu tagi nema að það sé gert á samræmdan og skipulagðan hátt á einum stað af sérhæfðu starfsfólki. Miðstöðin annast samningagerð við birgja í völdum tilvikum og samræmir kröfur stofnana um þróun búnaðarins. Miðstöðin getur í vissum tilfellum gert kröfu til þess að hún, í umboði ráðuneytisins, fari með eignarhald á hugbúnaðarkerfum. Miðstöðin ber jafnframt ábyrgð á þróun heilbrigðisnets.
Stýrihópurinn leggur áherslu á að framangreindar tillögur séu í forgangi og verði settar af stað á árinu 2009. Tvær eftirfarandi tillögur yrðu framhald af þeim fyrri.
4. Rafrænt fyrirmælakerfi
Hafin verði þróun rafræns fyrirmælakerfis, CPOE (Computerized Physician Order Entry) fyrir sameinuðu sjúkraskrána.
5. Aðgengi sjúklinga að eigin upplýsingum á netinu
Lagt er til að sjúklingar hafi aðgang að eigin heilsufarsupplýsingum á netinu. Aðgangur að lyfjaupplýsingum verði settur í forgang.
Í starfshópnum eru þau Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri lækninga FSA, formaður, María Heimisdóttir, formaður nefndar um rafræna sjúkraskrá á LSH, Sigurður Guðmundsson, fyrrv. landlæknir, Valgerður Gunnarsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, og Guðrún Auður Harðardóttir, verkefnisstjóri, heilbrigðisráðuneytinu. Valgerður Gunnarsdóttir, er starfsmaður stýrihópsins.