Lífshlaupið hafið
Í hádeginu ræstu heilbrigðis- og menntamálaráðherrar Lífshlaupið þar sem almenningur er hvattur til að hreyfa sig.
Lífshlaupið, hvatningar- og átaksverkefni ÍSÍ og mennta- og heilbrigðisráðuneyta var ræst af heilbrigðisráðherra Ögmundi Jónassyni og menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttir. Opnunarhátíð Lífshlaupsins fór fram í íþróttamiðstöðinni í Mosfellsbæ að saman komnum nemendum í 1.-7. bekk Varmárskóla og Lágafellsskóla auk starfsmanna Mosfellsbæjar. Heilbrigðisráðherra ávarpaði gesti og keppti að því búnu, ásamt tveimur nemendum við menntamálaráðherra og hennar lið í skemmtilegri þraut í anda Skólahreysti undir stjórn Andrésar Guðmundssonar. Skemmst er frá því að segja að lið heilbrigðisráðherra hafði betur og Lífshlaupið er þar með hafið. Keppnin stendur frá 4. febrúar til 24. febrúar.
Landsmenn eru hvattir til þess að skrá sig inn á vef verkefnisins www.lifshlaupid.is, hreyfa sig daglega og skrá hreyfinguna.