Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Lyfjanotkuninni beint í ódýrari lyf

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, hefur gefið út reglugerð sem hefur í för með sér umtalsverðar breytingar á niðurgreiðslum vegna lyfjakostnaðar sjúklinga. Með reglugerðinni er lögð áhersla á að beina lyfjanotkun í ódýrari lyf, og að notkun lyfja hér verði ekki ólík því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Þá er sérstaklega komið til móts við barnafjölskyldur og atvinnulausa.

Með því að breyta neyslumynstri algengra lyfja á að spara 450 til 550 milljónir króna á ársgrundvelli. Lyfin eru magalyf og blóðfitulækkandi lyf. Báðir lyfjaflokkarnir eru mikið notaðir á Íslandi og hafa aukið lífsgæði sjúklinga verulega, en heilsuhagfræðilega þykir ekki verjandi að nota dýrustu lyfin, nema í undantekningatilvikum. Bara með því að nota ódýrustu lyfin næst fram hundruð milljóna króna sparnaður bæði fyrir ríkið og viðkomandi sjúklinga.

Alls þýða aðgerðir heilbrigðisráðherra að lyfjaútgjöld sjúkrtatrygginga lækka um 1.000 milljónir miðað við heilt ár.

Í reglugerðinni sem nú tekur gildi er lyfjakostnaður allra barna lækkaður með því að börn, eða foreldrarnir sem greiða fyrir lyf þeirra, greiða nú sama gjald og elli- og örorkulífeyrisþegar greiða fyrir lyfin, en almennt gjald vegna lyfja fyrir börn var áður það sama og hjá fullorðnum. Þessi breyting kostar ríkið um 80 milljónir á ári.

Í þriðja lagi hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að setja í reglugerðina ákvæði um, að einstaklingar á fullum atvinnuleysisbótum greiði hér eftir sama gjald og elli- og örorkulífeyrisþegar og mun lyfjakostnaður þeirra lækka með sama hætti og lyfjakostnaður barna. Á þessu stigi er ekki hægt að áætla kostnað vegna þessarar aðgerðar þar sem ekkert er vitað um atvinnuleysi í lok ársins.

Réttarbótin er varðar fjölskyldur með börn undir 18 ára aldri og gagnvart atvinnulausum er nýmæli að því er niðurgreiðslu lyfja varðar. Hvoru tveggja er hugsað til að koma til móts við barnafjölskyldur og þá, sem skyndilega verða af reglulegum launatekjum, vegna atvinnumissis.

Fylgifiskur atvinnuleysis getur í sumum tilvikum leitt til heilsubrests, sem, ásamt minnkandi tekjum og félagslegum örðugleikum, bitnar harkalega á þeim sem þurfa að þola að vera sagt upp vinnu sinni.

Heilbrigðisráðuneytið mun fylgjast grannt með þróun mála hvað þetta varðar, og breyta, eða endurskoða, þennan þátt reglugerðarinnar, ef í ljós kemur að breytingin hefur ekki tilætluð áhrif.

Í fjórða lagi felur reglugerðin í sér að þök og gólf, eða reiknireglur, sem ákvarða hvernig lyfjaverðið skiptist milli sjúklings og almannatrygginga breytist, en greiðsluþökin hafa ekki breyst frá 1. janúar 2001, en frá þeim tíma hefur vísitalan hækkað um 60%.

Þrátt fyrir gengishrun og gríðarlegar verðbreytingar lyfja á liðnu ári með um 32% hækkun á lyfjareikningi Tryggingastofnunar var ekki gripið til aðgerða til að laga þessa skiptingu að gjörbreyttum forsendum. Breytingin á að þökunum og gólfinu dregur úr lyfjakostnaðaraukningu sjúkratrygginga um 400 milljónir króna.

Í fimmta lagi hefur lyfjagreiðslunefnd lækkað heildsöluverð og smásöluálagningu. Þessi aðgerð skilar um 610 milljónum króna á ársgrundvelli.

Í sjötta lagi er komið til móts við þá sem nota þunglyndislyf, veiru- og mígrenilyf. Þetta er gert með því að afnema svokallað hámarksafgreiðslureglu, sem þýðir að sjúklingar geta nú fengið ávísað lyfjum til lengri tíma með tilheyrandi minni kostnaði. Viðbótarútgjöldin sem af þessu hljótast eru 110 til 140 milljónir króna.

ATH. skjölin opnast í nýjum gluga.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta