Fundur heilbrigðisráðherra og fulltrúa Eflingar
Ögmundur Jónasson, hitti í morgun, þriðjudaginn 17. febrúar, forystumenn Eflingar – stéttarfélags, til að ræða aðstæður ófaglærðra á heilbrigðisstofnunum.
Það voru þau Sigurður Bessason, formaður Eflingar, Kristín Jóhannesdóttir, Marilin B. Obiang og Harpa Ólafsdóttir sem heimsóttu ráðherra. Auk þess að ræða aðstæður ófaglærðra á heilbrigðisstofnunum afhentu fulltrúar Eflingar heilbrigðisráðherra erindi og hvöttu hann til að Landspítalinn hætti við uppsögn 35 starfsmanna í ræstingu á Landspítalanum í Fossvogi. Segir í ályktun Eflingar að uppsagnirnar stangist á við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.
Heilbrigðisráðherra hefur undanfarna daga átt viðræður við ýmsa starfs- og faghópa heilbrigðisstofnana. Þannig hitti hann á dögunum fulltrúa Læknafélags Íslands og félags heilsugæslulækna, en ráðherra hyggst á næstunni halda fundi með hjúkrunarfræðingum, sjúkaliðum og fulltrúum frá SFR, starfsmannafélagi ríkisstofnana.