St. Jósefspítali samhæfður starfsemi Landspítala
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að samhæfa starfsemi St. Jósefsspítala og Landspítala. Hann tilkynnti þetta á Alþingi í dag.
Ráðherra hefur ákveðið að fela Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítala, Árna Sverrissyni, forstjóra St. Jósefsspítala, Ólafi Þór Gunnarssyni, lækni, Hallgrími Guðmundssyni, sviðsstjóra stefnumótunarsviðs heilbrigðisráðuneytisins, og Gunnhildi Sigurðardóttur, fyrrverandi hjúkrunarforstjóra á St. Jósefsspítala og talsmanni Hagsmunasamtaka St. Jósefsspítala, og fulltrúa tilnefndum af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði, að útfæra ákvörðun sína og skila útfærslunni 12. mars 2009.
Samhæfing starfsemi St. Jósefsspítala og meginstarfsemi Landspítala skal gerð með það fyrir augum að,
- við útfærsluna sé tekið tillit til stöðu St. Jósefsspítala í hafnfirsku nærsamfélagi og hafa skal í útfærslunni hliðsjón af ósk bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um að taka í ríkara mæli þátt í rekstri heilsugæslunnar í bæjarfélaginu
- við útfærsluna skal kanna möguleika og forsendur á að skapa möguleika á aukinni göngudeildarþjónustu í húsakynnum St. Jósefsspítala
- læknum verða boðið sömu kjör og gilda um starfssystkin þeirra á LSH
- engum heilbrigðisstarfsmanni verði sagt upp vegna breytinganna
Í tengslum við þessa útfærslu hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að ganga til viðræðna við Hafnarfjarðarkaupstað um að bæjaryfirvöld komi í ríkari mæli að rekstri heilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði, eins og bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa margsinnis óskað eftir undanfarin misseri.
Gert er ráð fyrir að niðurstaða samningaviðræðnanna liggi fyrir 30. júní.
Heilbrigðisráðuneytið mun við gerð fjárlagaramma ráðuneytisins fyrir árið 2010 ganga út frá að Hafnfirðingar taki við verkefninu 1. janúar 2010.
Í samninganefnd af hálfu heilbrigðisráðuneytisins verða þau Hallgrímur Guðmundsson, sviðsstjóri stefnumótunarsviðs heilbrigðisráðuneytisins og Hrönn Ottósdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs ráðuneytisins. Af hálfu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins situr Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri, í samninganefndinni.
Þá hefur heilbrigðisráðherra í hyggju að tilnefna sérstakt fagráð, sem hafa á það hlutverk gagnvart samningsaðilum að tryggja faglega þætti. Í tillögu ráðherra er gert ráð fyrir að í fagráðinu sitji Sveinn Magnússon, yfirlæknir í heilbrigðisráðuneytinu, Emil L. Sigurðsson, yfirlæknir, Anna Stefánsdóttir, hjúkrunarframkvæmdastjóri á Landspítala, Guðrún Gunnarsdóttir, yfirlæknir, og hjúkrunarforstjórarnir Kristín Pálsdóttir og Ingibjörg Ásgeirsdóttir.