Hoppa yfir valmynd
16. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 16. október 2012

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Stella K. Víðisdóttir tiln. af Reykjavíkurborg, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossinum á Íslandi, Hrefna K. Óskarsdóttir tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Guðni Olgeirsson varam. Ragnheiðar Bóasdóttur tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir tiln. af Biskupsstofu,  Salbjörg Bjarnadóttir varam. Landlæknis, Unnar Stefánsson tiln. af Landssambandi aldraðra, Björg Bjarnadóttir tiln. af Kennarasambandi Íslands, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Valgerður Halldórsdóttir tiln. af Bandalagi háskólamanna, Margrét Sæmundsdóttir tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Þórhildur Þorleifsdóttir tiln. af velferðarráðherra, Þorbjörn Guðmundsson starfsmaður og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti og verkefnisstjóri Suðurnesjavaktarinnar.

1. Kynning á niðurstöðum skýrslu Þjóðmálastofnunar HÍ

Stefán Ólafsson prófessor kynnti niðurstöður seinni skýrslu Þjóðmálastofnunar HÍ: Mótvægisaðgerðir gegn skuldavanda, fátækt og atvinnuleysi, sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið. Í skýrslunni kemur fram að Ísland hafi farið aðra leið í gegnum kreppuna en algengt sé á vesturlöndum og því séum við að ná okkur fyrr upp, þrátt fyrir að atvinnubatinn sé hægur. Með íslensku leiðinni var lægri og millitekjuhópum hlíft og stuðst var við eftirfarandi þrjá þætti: 1) velferðarkerfinu var beitt til varnar, 2) útgjöld aukin, 3) niðurskurði beitt einkum í þjónustu og stjórnsýslu. Fram kemur í skýrslunni að greiðslubyrði vegna skulda heimilanna hafi náð hámarki árið 2009 en hafi farið minnkandi síðan þá. Aukin niðurgreiðsla vaxtakostnaðar árið 2010 kom sér vel fyrir lágtekjufólk en niðurgreiðslurnar voru meiri eftir því sem tekjurnar voru lægri. Þá kemur fram að mesta vaxtabyrðin sé af bíla- og neyslulánum, sérstaklega meðal lágtekjuhópa. Sá hópur sem lifir undir fátækramörkum hefur farið stækkandi undanfarin ár. Einnig kemur fram að þróun barnabóta hafi ekki verið í takt við aðrar aðgerðir stjórnvalda og að bæturnar séu ennþá of lágar. Þá telja Íslendingar sig eiga erfiðara með að ná endum saman í samanburði við hinar norðurlandaþjóðirnar. Í ýmsum alþjóðlegum könnunum kemur hinsvegar fram að Íslendingar eru mjög ánægðir með lífið og eru auk þess nokkuð bjartsýnir á komandi tíma.

2. Fundargerð 70. fundar velferðarvaktarinnar

Fundargerðin var samþykkt með áorðnum breytingum. Í framhaldinu fóru fram umræður um könnunina á aðstæðum reykvískra foreldra. Bent var á að áhugavert væri að skoða fleiri bakgrunnsbreytur. Þrátt fyrir að börn komi frá tekjuháum heimilum þá eru þau ekki endilega að njóta þess stuðnings sem þau þurfa.      

3. Framtíð Suðurnesjavaktarinnar

Fulltrúar Suðurnesjavaktarinnar hafa undirritað yfirlýsingu þar sem óskað er eftir því að velferðarvaktin beiti sér fyrir því að velferðarráðuneytið haldi áfram stuðningi við verkefnið í ljósi þess að aðstæður á svæðinu hafa ekki lagast hvað ýmsa málaflokka varðar. Suðurnesjavaktin hefur nú verið starfandi í tæplega tvö ár en verkefnisstjóri var ráðinn í starfið til nk. áramóta.

Fulltrúar velferðarvaktarinnar voru sammála um að staðan á svæðinu hefði lítið farið batnandi og enn væri langt í land, sérstaklega hvað atvinnumálin varðar. Eðlilegt væri að halda áfram stuðningi við verkefnið í einhverri mynd eins og t.d. með minna starfshlutfalli starfsmanns en að lokum þyrfti að koma boltanum yfir á sjálfa Suðurnesjavaktina. Hugsanlega mætti skoða að með því að minnka starfshlutfall starfsmanns væri hægt að nýta hluta fjármagns í aðgerðir á svæðinu. Þeir fulltrúar velferðarvaktarinnar sem komið hafa að málum á svæðinu telja að svæðið hafi þó tekið við sér að undanförnu og að fólk sé farið að vinna meira saman en áður. Það sé hinsvegar kannski ekki tímabært að hætta á þessum tímapunkti heldur að leggja verkefninu lið í eitt ár til viðbótar. Það var því samþykkt að vaktin sendi velferðarráðherra erindi þar sem óskað er eftir áframhaldandi stuðningi ráðuneytisins við Suðurnesjavaktina.

4. Önnur mál

1.      Áherslur velferðarvaktarinnar á atvinnumálin
Í ljósi þess að atvinnumálin eru ekki að taka við sér var óskað eftir hugmyndum um hvernig velferðarvaktin gæti þrýst á stjórnvöld varðandi þau mál. Lagt var til að í nóvember yrði einn fundur helgaður þessari umræðu og í undirbúningsnefnd fyrir þann fund buðu sig fram þau Kristján, Stella, Salbjörg og Garðar. Lagt var til að Sigurrós yrði einnig í hópnum en hún var fjarverandi á fundinum. 

2.      Rætt var um hvort velferðarvaktin gæti með einhverjum hætti biðlað til stjórnmálamanna og fjölmiðla um að vanda betur orðaval og forðast illt umtal um persónur á opinberum vettvangi. Hugsanlega gæti velferðarvaktin komið fram með slagorð þessu tengt.



 

Fundargerð ritaði Lovísa Lilliendahl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta