Hoppa yfir valmynd
4. desember 2007 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

OECD birtir í dag niðurstöður alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar sem Ísland tók þátt í árið 2006

OECD birtir í dag niðurstöður alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar sem Ísland tók þátt í árið 2006 (PISA).

OECD birtir í dag niðurstöður alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar sem Ísland tók þátt í árið 2006 (PISA). PISA er stærsta samanburðarrannsóknin á frammistöðu menntakerfa í heiminum en í rannsókninni er könnuð kunnátta 15 ára nemenda í lesskilningi, stærðfræði og náttúrufræði í 57 löndum. Þessi könnun var einnig lögð fyrir árin 2000 og 2003. Námsmatsstofnun sá um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi og tóku allir grunnskólar og velflestir nemendur 10. bekkjar þátt í henni. Í könnuninni núna var sérstök áhersla á náttúrufræði þar sem reyndi á þekkingu nemenda á ýmsum sviðum raunvísinda, færni þeirra til að túlka vísindalegar staðreyndir og nota vísindaleg rök.

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að í öllum greinum hefur staða Íslands miðað við aðrar þjóðir versnað milli áranna 2000 og 2006, mest í lesskilngi en minnst í stærðfræði. Í náttúrufræði lendir Ísland í 27. sæti af 57 löndum, rétt fyrir neðan meðaltal OECD landa. Í lesskilningi lendir Ísland í 24. sæti, einnig rétt fyrir neðan meðatal OECD, og í 17. sæti í stærðfræði, rétt fyrir ofan meðaltal OECD. Þegar undirfög náttúrufræðinnar eru borin saman kemur í ljós að íslenskir nemendur eru slakastir í líf- og vistfræði, næstbestir í eðlis- og efnafræði, en sterkastir í jarð- og stjörnufræði.

Í lesskilningi hefur frammistöðu íslenskra nemenda hrakað marktækt frá árinu 2000. Þeim nemendum sem lenda í lægsta hæfnisþrepinu hefur fjölgað og þeim sem lenda í efsta hæfnisþrepinu fækkað, bæði í lesskilningi og náttúrufræði. Þá hefur frammistaða nemenda eftir landshlutum breyst á milli rannsókna. Vestfirðir, Norðurland eystra og vestra sýna bestu frammistöðu landshluta, en Austurlandi ásamt Reykjavík og nágrenni hrakar mest frá árinu 2000.

Þessi niðurstaða veldur vonbrigðum. Ekki er ásættanlegt að árangur íslenskra nemenda sé ekki betri, sérstaklega í ljósi þess mikla uppbyggingar- og þróunarstarfs sem átt hefur sér stað í skólum landsins á undanförnum áratug og þeirrar staðreyndar að fáar aðrar þjóðir verja jafn miklu fjármagni til grunnskólastigsins. Brýnt er að leita skýringa á þessari útkomu og þurfa skólayfirvöld, sveitarstjórnir, skólastjórnendur og kennarar að fara í saumana á þessum niðurstöðum og draga af þeim lærdóm. Menntamálaráðherra treystir því að frumvörp til laga fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, ásamt frumvarpi um kennaramenntun, sem nýlega voru lögð fram á Alþingi, skapi forsendur fyrir bættum árangri nemenda en þar er m.a. gert ráð fyrir lengingu kennaramenntunar og skilvirkara mati á skólastarfi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta