Hoppa yfir valmynd
11. október 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 367/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 367/2023

Miðvikudaginn 11. október 2023

A

gegn

Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur, Ari Karlsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um að greiða henni skerta fjárhagsaðstoð fyrir maí og júnímánuð 2023.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 18. apríl 2023, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga og fékk samþykkta óskerta fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 24. apríl til 24. maí 2023, að fjárhæð 396.828 kr. Með umsókn, dags. 23. maí 2023, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 25. maí til 30. júní 2023. Kærandi fékk samþykkta skerta fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 25. maí til 25. júní 2023, að fjárhæð 23.635 kr.  Þá sótti kærandi á ný um fjárhagsaðstoð með umsókn, dags. 28. júní 2023. Kærandi fékk samþykkta skerta fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 28. júní til 28. júlí 2023, að fjárhæð 27.635 kr.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 27. júlí 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var óskað eftir greinargerð Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 18. ágúst 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki. Með erindi, dags. 21. september 2023, var óskað eftir upplýsingum frá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um hvort kærandi hefði skotið ákvörðun starfsmanna til félagsmálanefndar eins og heimilt væri samkvæmt 33. gr. reglna Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um fjárhagsaðstoð. Svar barst 25. september 2023 þess efnis að kæranda hafi verið leiðbeint og greint frá rétti hennar til að vísa niðurstöðu afgreiðslu til félagsmálanefndar sem og úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærandi hafi leitað beint til úrskurðarnefndar velferðarmála sem ætti að mati Félags- og skólaþjónustunnar að afgreiða málið.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hún hafi sótt um fjárhagsaðstoð í apríl 2023 og farið á fund með tveimur félagsráðgjöfum í Stykkishólmi þar sem ýmislegt hafi verið rætt. Eitt af því hafi verið sú vinnuregla að fjárhagsaðstoð sé ekki greidd nema frá þeirri dagsetningu sem ráðgjöfum finnist að nægilegum gögnum hafi verið skilað inn, á móti umsóknardegi í flestum öðrum bæjarfélögum. Á fundinum hafi ekki verið rætt um það sem hafi síðan haft veruleg áhrif á stöðu kæranda og barna hennar í júlímánuði. Vegna lélegra vinnubragða hafi það alveg farist fyrir að tjá kæranda um þá reglu hjá Stykkishólmi að barnabætur væru teknar sem tekjur og að hennar grunnréttindi til fjárhagsaðstoðar verði að engu í barnabótamánuðum.

Þar sem kærandi hafi ekki haft vitneskju um það hafi hún borgað upp allar skuldir, bæði við einka- og opinbera aðila, og hafi því ekki átt neitt eftir af barnabótum í maímánuði og notað barnabæturnar í júnímánuði sem framfærslu. Þegar kærandi hafi fengið bréf um að hún ætti rétt á fjárhagsaðstoð að fjárhæð 23.635 kr. í júní hafi hún sent tölvupóst á ráðgjafann sem sjái um fjárhagsaðstoðina og hafi satt að segja verið verulega hissa og reið. Kærandi hafi ekki fengið neitt svar við þeim tölvupósti og aldrei hafi henni verið tjáð af hverju hún fengi ekki aðstoð.

Kærandi hafi sótt um aðstoð fyrir júlímánuð og 29. júní hafi hún fengið bréf um að hún ætti rétt á 27.635 kr. í fjárhagsaðstoð í júlí. Í sjokki, reiði og hræðslu fyrir komandi mánuði hafi kærandi sent langan tölvupóst og fyrst þá fengið upplýsingar um hvernig reglur Stykkishólms um fjárhagsaðstoð séu og að hún fái enga frekari aðstoð. Kærandi hafi sent annan tölvupóst og bent á stöðu sína, að barnabætur í maí hafi farið í skuldir og barnabætur í júní hafi farið í að borga reikninga og lifa af út mánuðinn með fjögur börn á framfæri. Kærandi hafi bent á að tveir félagsráðgjafar bæjarins hafi aldrei tjáð henni hvernig fjárhagsaðstoðin virkaði. Í samskiptum við félagsráðgjafana hafi aldrei verið gætt að hagsmunum kæranda eða barna hennar með því að tryggja að hún hefði vitneskju um reglurnar, að hún þyrfti að geyma barnabætur til að lifa af komandi mánuði eftir barnabætur.

Kæranda hafi aldrei verið vöruð við að hún fengi ekki fulla aðstoð, aldrei verið bent á að spara eða leggja til hliðar út af þessari reglu. Um sé að ræða þrjár umsóknir um fjárhagsaðstoð þar sem í öll skiptin, sem og á fundi í apríl, hafi algjörlega misfarist að upplýsa kæranda um stöðu hennar og algjörlega misfarist af hálfu ráðgjafa að taka mið af hagsmunum kæranda og barna hennar. Kærandi hafi aldrei fengið viðvörun né tækifæri til að leggja fyrir pening fyrr en eftir á, eftir að hafa eytt barnabótum í skuldir og til að lifa út mánuðinn.

Kærandi ítreki að hún hafi ekki fengið neitt svar við tölvupósti um hneykslun á lítilli fjárhagsaðstoð í júní en þar sem hún hafi fengið barnabætur og lent í miklum veikindum, meðal annars verið lögð inn á bráðamóttöku þann mánuð, hafi hún ekki haft andlega orku til að senda frekari kvörtun á sveitarfélagið. Það hafi kærandi fyrst gert þegar hún hafi staðið uppi alveg tekjulaus í júlí, fyrir utan meðlag, og ekki getað borgað leigu, enga reikninga og hafi ekki getað farið með barn sitt til sálfræðings vegna þess.

Kærandi hafi ekki fengið útskýringu á lítilli aðstoð fyrr en annan mánuðinn sem hún hafi þegið aðstoð og eftir að hafa sent ítarlegt kvörtunarbréf. Félagsráðgjafarnir séu ekki að vinna að hagsmunum kæranda og svari ekki frekari tölvupóstum. Það telji kærandi algjörlega vanhæf vinnubrögð sem hafi leitt til þess að hún, einstæð, óvinnufær fjögurra barna móðir, hafi staðið uppi tekjulaus og barnabótalaus í heilan mánuð, júlímánuð.

Kærandi sé að kæra ákvörðun Félags- og skólaþjónustunnar um fjárhagsaðstoð að upphæð 27.635 kr. í júlí vegna lélegra vinnubragða. Kærandi hafi þurft að velja á milli leigu eða matar fyrir hana og börnin ásamt því að fá tugi þúsunda lánað hjá ýmsum ættingjum til að brúa bilið. Allt sé orðið svo dýrt hér á landi að 200.000 kr. dugi ekki langt fyrir fimm manna fjölskyldu.

Ef félagsráðgjafar hefðu sinnt starfi sínu og sagt kæranda frá því að barnabótum í maí og júní yrði dreift á tvo til þrjá mánuði og að hún þyrfti að spara til að geta lifað af hefði hún ekki þurft að velja á milli matar og leigu eða að fá tugi þúsunda lánað. Kærandi hefði ekki borgað upp skuldir með barnabótum til þess eins að sitja uppi mánuði eða tveimur mánuðum síðar tekjulaus og eiga ekki fyrir mat út mánuðinn fyrir börnin.

Kærandi hafi áður haft félagsráðgjafa í öðrum bæjum og þar hafi alltaf verið gætt að hagsmunum kæranda, reglur hafi verið útskýrðar sem og hennar réttur til að fyrirbyggja vandkvæði. Kærandi hafi aldrei upplifað önnur eins vinnubrögð.

III.  Sjónarmið Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga

Í greinargerð Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga kemur fram að kærandi hafi fengið greidda óskerta fjárhagsaðstoð í apríl 2023, eða 396.928 kr. miðað við fimm manna fjölskyldu, vegna ónógra upplýsinga og gagna við flutning hennar í sveitarfélagið. Við afgreiðslu í maí 2023 hafi legið fyrir gögn um mánaðarlegar tekjur kæranda sem og læknisvottorð, dags. 29. mars 2023. Kærandi hafi fengið 23.635 kr. í fjárhagsaðstoð fyrir þann mánuð þar sem hún hafi verið með samtals 373.293 kr. í tekjur, eða 32.090 kr. í mæðralaun, 166.667 kr. í barnabætur og 174.536 kr. í meðlög. Í júní hafi sömu viðmið og um ráðstöfunartekjur legið fyrir við afgreiðslu umsóknar og kærandi fengið 27.635 kr. í fjárhagsaðstoð.

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð fyrir maí og júní 2023.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við þ og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. mgr. 1. gr. reglna Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um fjárhagsaðstoð kemur fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. er markmið með veitingu fjárhagsaðstoðar alla jafna að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð til sjálfshjálpar. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að gefa skuli sérstakan gaum að fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum barna fjölskyldna og meta sérstaklega þarfir barna vegna þátttöku þeirra í þroskavænlegu félagsstarfi, í samræmi við 30. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um tímabil samþykkis hverju sinni. Þar segir að fjárhagsaðstoð skuli öðru jöfnu greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um fjárhagsaðstoð skuli að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Samkvæmt 6. gr. reglnanna er aldrei skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en tvo mánuði frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991.

Í III. kafla framangreindra reglna er kveðið á um rétt til fjárhagsaðstoðar, mat á fjárþörf og útreikning fjárhagsaðstoðar. Þar segir í 1. mgr. 9. gr. að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf til framfærslu lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur. Með framfærslukostnaði sé átt við þann lágmarkskostnað sem sé ætlað að einstaklingar eða fjölskyldur geti lifað af. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. miðast fjárhagsaðstoð til einstaklinga 18 ára og eldri við grunnfjárhæð 164.668 kr. á mánuði 1. janúar 2022 og framreiknast í samræmi við vísitölu neysluverðs ár hvert. Grunnfjárhæð fyrir árið 2023 er samkvæmt útreikningum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga 180.422 kr. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. miðast framfærslukostnaður við fjölskyldustærð og hækkar eftir fjölda fjölskyldumeðlima þannig að einstaklingur fær grunnfjárhæð × 1,0, tveggja manna fjölskylda grunnfjárhæð × 1,6, þriggja manna fjölskylda grunnfjárhæð × 1,8 og svo framvegis þannig að aukning vegna hvers fjölskyldumeðlims nemi 0,2.

Í 11. gr. reglnanna kemur fram að allar tekjur umsækjanda og maka ef við á, undanfarna þrjá mánuði, séu taldar með við mat á fjárþörf. Með ráðstöfunarfé einstaklings eða fjölskyldu sé meðal annars átt við allar tekjur umsækjanda og maka ef við eigi, undanfarna þrjá mánuði, að frádregnum opinberum gjöldum og stéttarfélagsgjöldum. Einnig er átt við allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins nema umönnunarbætur, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, meðlög, barnabætur og mæðra-/feðralaun, endurgreiðslur vegna ofgreiddra skatta, leigutekjur og svo framvegis.

Samkvæmt framangreindum reglum og útreikningum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga gat kærandi að hámarki átt rétt á 396.928 kr. í fjárhagsaðstoð en hún er með fjögur börn á framfæri. Fyrir liggur að kærandi fékk greidd mæðralaun að fjárhæð 32.090 kr., barnabætur að fjárhæð 166.667 kr. og meðlög að fjárhæð 174.536 kr. í maí og júní 2023, samtals að fjárhæð 373.293 kr. Þær greiðslur komu til frádráttar við ákvörðun fjárhagsaðstoðar fyrir þá mánuði, í samræmi við 11. gr. framangreindra reglna, sem leiddi til þess að kærandi átti rétt á 23.635 kr. sér til framfærslu.

Að framan er rakið að sveitarfélögum er falið að útfæra framkvæmd fjárhagsaðstoðar til einstaklinga, enda eru lög nr. 40/1991 rammalög og því verkefni hvers sveitarfélags að gera nánari grein fyrir inntaki slíks réttar. Það svigrúm er sem fyrr segir í samræmi við 78. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um sjálfstjórn sveitarfélaga. Sá réttur sætir hins vegar þeim almennu takmörkunum að ákvarðanir sveitarstjórna verða að vera í samræmi við ákvæði laga, þar með talið markmið félagsþjónustulaganna, svo og skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins. Jafnframt mega ákvarðanir sveitarstjórnar ekki skerða þann lágmarksrétt sem kveðið er á um í 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ástæðu til að taka til skoðunar þá reglu Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga að meðlagsgreiðslur komi til frádráttar við ákvörðun fjárhagsaðstoðar. Í IX. kafla barnalaga nr. 76/2003 er kveðið á um framfærslu barns. Þar segir í 53. gr. að foreldrum sem barn býr hjá sé skylt að framfæra barn sitt, báðum saman og hvoru um sig eftir atvikum. Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna ber hinu foreldrinu skylda til að taka þátt í framfærslu barnsins með greiðslu kostnaðar við framfærsluna eða með greiðslu meðlags, sbr. 54. gr. barnalaga. Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. tilheyrir meðlag barni og skal það notað í þágu þess. Sá sem krafist getur meðlags samkvæmt 56. gr. innheimtir þó meðlag og tekur við greiðslum þess í eigin nafni.

Af framangreindum ákvæðum barnalaga er ljóst að löggjafinn hefur kveðið á um það annars vegar að meðlag tilheyri barni og hins vegar að verja beri því í þágu þess. Þá hefur foreldri framfærsluskyldu gagnvart barni sínu en eðli málsins samkvæmt er sú framfærsluskylda ekki gagnkvæm. Einnig er ljóst að barn hefur rétt til framfærslu beggja foreldra.

Að þessu athuguðu verður við ákvörðun sveitarfélags um fjárhagsaðstoð eða setningu almennra reglna að taka mið af sérstöku eðli meðlags og hvernig ráðstafa eigi því sem ákvæði barnalaga mæla fyrir um. Jafnframt ber að hafa í huga þá skyldu sveitarfélaga samkvæmt áðurnefndri 12. gr. laga nr. 40/1991 að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og sínum og að stuðningur við íbúa sem hafa barn á framfæri sé í samræmi við það sem er barninu fyrir bestu. Að mati úrskurðarnefndar samrýmist sú tilhögun að telja meðlagsgreiðslur til tekna umsækjanda um fjárhagsaðstoð við mat á fjárþörf hans ekki þeirri lögmæltu tilhögun barnalaga um það að meðlag tilheyri barni og verja eigi því í þágu þess.

Kærandi á því ekki að nota þær meðlagsgreiðslur sem hún fær vegna barna sinna sér til framfærslu. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndar í því máli sem hér er til úrlausnar að ekki sé heimilt að líta á meðlagsgreiðslurnar sem tekjur kæranda við mat á fjárþörf hennar. Þær greiðslur eiga því ekki að koma til frádráttar veittri fjárhagsaðstoð til framfærslu kæranda sjálfs.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að regla 11. gr. reglna Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um fjárhagsaðstoð, samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, um að meðlagsgreiðslur vegna barna teljist tekjur umsækjanda, sem dragist frá mat á fjárþörf samkvæmt 9. gr. sömu reglna, sé í andstöðu við áðurrakin ákvæði barnalaga um tilgang og ráðstöfun meðlags. Með hliðsjón af því samræmist hin kærða afgreiðsla Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, að teknu tilliti til atvika málsins, ekki lögum nr. 40/1991 og kemur hún í veg fyrir að kærandi fái notið þeirra lágmarksréttinda sem felast í 76. gr. stjórnarskrárinnar

Að því athuguðu er óhjákvæmilegt að fella afgreiðslu Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar.   

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga um að greiða A, skerta fjárhagsaðstoð fyrir maí og júní 2023, eru felldar úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta