Undirrituðu samstarf um faggildingu
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ulf Hammarström, forstjóri sænsku faggildingarstofunnar SWEDAC, undirrituðu í dag endurnýjað og uppfært samkomulag um samstarf á vettvangi faggildingar. Samkomulagið styður við sameiginlega sýn Norðurlandanna á vegum norrænum ráðherranefndarinnar um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Faggilding gegnir í því sambandi lykilatriði við að efla samkeppnishæfni og efla traust og fagþekkingu innan norrænu hagkerfanna.
,,Faggilding eykur samkeppnishæfni atvinnulífsins og því er afar ánægjulegt að þessi samningur sé loksins kominn í höfn. Margir hafa komið að undirbúningum og þakka ég þeim sérstaklega fyrir,“ segir Lilja Dögg.
Faggilding er formleg viðurkenning stjórnvalds á því að tiltekinn aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat á framleiðslu vöru eða þjónustu. Með faggildingu er þannig tryggt að aðilar sem framleiða vörur eða þjónustu í samræmi við tilteknar opinberar kröfur eða tiltekna staðla geti fengið framleiðslu sína vottaða og þannig tryggingu fyrir því að framleiðslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar.
Stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið að því að efla faggildingarstarfsemi hér á landi m.a. með því að tryggja að faggildingarsvið Hugverkastofunnar (ISAC) uppfylli viðeigandi kröfur í Evrópureglum með framkvæmd jafningjamats.
Jafningjamat tryggir að faggildingar framkvæmdar hér á landi af faggildingarsviði Hugverkastofunnar verði viðurkenndar á EES-svæðinu og gerir samstarfssamningurinn íslensku faggildingarstofunni ISAC kleift að nálgast faglegan og tæknilegan stuðning við framkvæmd faggildingar hjá einni af stærstu faggildingarstofum í Evrópu. Aukið samstarf Norðurlandanna á þessu sviði sem og öðrum mun efla tengsl og styrkja faglegan grundvöll fyrir starfsemi stjórnvalda.