Samtökin ´78 fá styrk til að styðja enn betur við börn og ungmenni
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra hefur veitt Samtökunum ´78 tveggja milljóna króna styrk í þeim tilgangi að gera samtökin enn betur í stakk búin til að veita skjólstæðingum sínum stuðning og ráðgjöf með sérstakri áherslu á börn og ungmenni. Styrkurinn er liður í aðgerðapakka stjórnvalda til þess að bregðast við afleiðingum Covid-19 faraldursins.
Samtökin ´78 halda úti fjölbreyttri starfsemi og þar skipar ráðgjöf stóran sess. Ráðgjöf Samtakanna ´78 er fyrst og fremst hugsuð fyrir hinsegin fólk, aðstandendur hinsegin fólks og einnig til þeirra sem ekki eru viss um hinseginleika. Ásókn í einstaklingsráðgjöf hefur aukist undanfarna mánuði og hafa samtökin þurft að ganga í sjóði sem merktir hafa verið öðrum verkefnum.
Covid-19 faraldurinn hefur raskað lífi fólks um allan heim og nauðsynlegar sóttvarnaraðgerðir hafa, þrátt fyrir mikilvægi sitt, raskað rútínu og stuðningskerfi margra viðkvæmra hópa. Álag og streita sem getur skapast í tengslum við samkomubann, efnahagslegar áskoranir og takmarkaðra aðgengi að stuðningskerfum getur skapað aukna hættu fyrir viðkvæma hópa samfélagsins. Félagasamtök af ýmsu tagi gegna mikilvægu hlutverki í þjónustu sinni við ýmsa hópa og stendur vilji stjórnvalda til þess að styðja við þjónustu þeirra.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Við höfum séð aukna ásókn í þjónustu félagasamtaka í kjölfar Covid-19 faraldursins en þau veita viðkvæmum hópum gjarnan mikilvægan stuðning og rágjöf. Samtökin ´78 hafa í áratugi veitt hinsegin fólki og aðstandendum þess ómetanlegan stuðning og aðstoð og ég tel mjög mikilvægt að við styðjum við það góða starf sem þar er unnið. Nú eru Hinsegin dagar nýliðnir, þó þeir hafi verið með öðru sniði en venjulega í ljósi ástandsins, og það er skemmtilegt að afhenda þennan styrk í kjölfar þeirrar hátíðar.“
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78: „Áhrif Covid-19 faraldursins á samfélag hinsegin fólks eru enn að koma í ljós. ILGA-Europe, regnhlífarsamtök hinsegin fólks í Evrópu og Mið-Asíu, gaf út skýrslu sem fjallar um áhrif faraldursins á hinsegin samfélagið. Þar eru sjö atriði sérstaklega tekin fyrir, en þau eru t.d. kvíði ungmenna almennt, bagaleg staða þeirra sem fá ekki stuðning heima fyrir, hatursorðræða meira áberandi hjá þjóðarleiðtogum, öráreiti vegna þunglyndis og kvíða, heimilisofbeldi og svo einnig steinar í götu hinsegin félagasamtaka til að koma málstað sínum til skila. Þessi atriði getum við hjá Samtökunum ´78 tekið undir. Við finnum fyrir mikilli aðsókn í ráðgjöf og fjarráðgjöf, mæting í stuðningshópa hefur margfaldast sem og almennt álag á starfsfólk Samtakanna ’78.“