Samkeppni um hönnun nýs hjúkrunarheimilis í Hornafirði
Hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili í Hornafirði fyrir 30 íbúa verður auglýst um helgina. Heimilið mun leysa af hólmi hjúkrunarheimilið Skjólgarð þar sem búa 24 einstaklingar, flestir í tvíbýli. Áætlað er að niðurstöður hönnunarsamkeppni liggi fyrir í lok maí og að heimilið verði fullbyggt og tilbúið til notkunar vorið 2021.
Nýja heimilið verður byggt með tengingu við húsnæði gamla Skjólgarðs, sem byggt var árið 1996. Öll hönnun húsnæðisins verður í samræmi við nútímakröfur og viðmið um skipulag hjúkrunarheimila. Einbýli verða fyrir alla íbúana og áhersla lögð á að allar aðstæður séu sem heimilislegastar.
Framkvæmdasýsla ríkisins mun auglýsa hönnunarsamkeppnina um helgina. Samkeppnislýsing hönnunarinnar verður birt á næstu dögum þar sem meðal annars er fjallað um helstu markmiðin sem eru að:
- Fá fram hugmyndir að vistlegu heimili fyrir einstaklinga sem þurfa á langvarandi umönnunar- og hjúkrunarþjónustu að halda.
- Skapa góð rými til útvistar fyrir heimilismenn og góða aðkomu að lóð.
- Vistarverur almennt og herbergi einstaklinga séu haganlega útfærð og tekið tillit til einstaks umhverfis og útsýnis.
- Tryggð sé góð vinnuaðstaða starfsmanna.
- Horft sé til framtíðar í velferðartækni- og öðrum tæknilegum lausnum er auðveldað geta daglegt líf heimilisfólks og vinnuaðstöðu starfsmanna.
- Ytra og innra fyrirkomulag sé til fyrirmyndar hvað varðar aðgengi og öryggismál.
- Byggingin verði hagkvæm með hliðsjón af framkvæmda- og rekstrarkostnaði byggingarinnar.
- Húsnæðið tryggi hagkvæmni í daglegum rekstri eins og í starfsmannahaldi. Þar er m.a. átt við að starfsfólk geti haft góða yfirsýn innan eininga og á milli eininga og jafnframt að helstu vegalengdir verði sem stystar.
- Nýbygging endurspegli vandaða byggingarlist er fellur vel að umhverfi sínu.
- Umhverfissjónarmið og vistvæn hönnun verði höfð að leiðarljósi við útfærslu byggingar og lóðar. Á síðari stigum hönnunar verður horft til vistferilskostnaðar (e. life cycle cost) m.a. við val á byggingarefnum.