Hoppa yfir valmynd
30. desember 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlög ársins 2022 – Afkoma ríkisins tekur miklum framförum

Afkoma ríkissjóðs tekur miklum framförum og halli ríkissjóðs dregst saman samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum. Í fjárlögum ársins 2022  er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu útgjalda vegna heilbrigðismála,  viðbótarhækkun á bætur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, tvöföldun á frítekjumarki atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum, endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar aukast og barnabætur og skerðingarmörk eru hækkuð svo dæmi séu tekin.

Nokkur áhersluverkefni fjárlaga 2022

  • Tekjuskattur einstaklinga lækkar með síðasta áfanga kerfisbreytinga tekjuskatts
  • 1 ma. kr. í sérstakan stuðning við fyrirtæki í veitingarekstri vegna afleiðinga heimsfaraldursins
  • 2,6 ma.kr. til að auka enn getu Landspítalans til að bregðast við heimsfaraldrinum.
  • 1 ma.kr. aukin framlög til loftslagsmála.
  • 1,3 ma.kr. sérstök viðbótarhækkun á bætur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega um 1% til viðbótar við almennar prósentuhækkanir þannig að bæturnar hækka alls um 5,6% frá fjárlögum ársins 2021 ásamt lækkuðu skerðingarhlutfalli grunnlífeyris örorkulífeyris og aldurstengdrar örorkuuppbótar.
  • 540 m.kr. hækkun vegna tvöföldunar á frítekjumarki atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum, úr 100 þús.kr. í 200 þús.kr.
  • 11,7 ma.kr. í stuðning vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja.
  • 1 ma.kr. viðbót til að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila
  • 5,2 ma.kr. í byggingu hjúkrunarheimila.
  • 1,5 ma.kr. fjárfesting í Stafrænu Íslandi.
  • Yfir 200 m.kr. í aðgerðir og forvarnir gegn kynferðisbrotum

 

 

 

Stöðvun skuldahækkunar og bætt afkoma

Helsta stefnumið stjórnvalda sem liggur til grundvallar tillögu að fjármálastefnu fyrir árin 2022–2026 er að stöðva hækkun skulda hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu (VLF) fyrir lok tímabilsins. Samhliða því stuðli opinber fjármál að efnahagslegum stöðugleika til skemmri tíma. Til að ná þessum markmiðum verði afkoma hins opinbera, þ.e. ríkisjóðs og sveitarfélaga, bætt ár frá ári þar til að hallinn hafi lækkað í um 1% af VLF árið 2026 og að skuldahlutfallið hafi náð hámarki í 50%. Nýsamþykkt fjárlög fyrir árið 2022 eru fyrsta skrefið á þessari vegferð.

Megin niðurstaða fjárlaganna fyrir árið 2022 er að afkoma ríkissjóðs tekur miklum framförum. Hallinn verður liðlega 186 ma.kr. og dregst saman um ríflega 100 ma.kr. frá áætlaðri útkomu ársins 2021, eða sem svarar til 35% bata í afkomunni. Þar leggjast á eitt að tekjuhliðin er nú þegar á góðum batavegi á grunni vaxandi umsvifa, talsverður hluti mótvægisráðstafana stjórnvalda vegna veirufaldursins tekur að fjara út, sjálfvirkir sveiflujafnarar ríkisfjármálanna fara að skila jákvæðum áhrifum af auknum hagvexti, jafnframt því að útgjaldavexti er haldið hóflegum en fjárfestingarstig er þó nokkuð hátt. 

Þessi framför í afkomu ríkisfjármálanna endurspeglar að efnahagsráðstafanir stjórnvalda í þágu heimila og fyrirtækja undanfarin tvö ár hafa skilað góðum árangri. Skýr merki eru um að atvinnulífið sé að ná tryggri fótfestu, s.s. með stórlækkuðu atvinnuleysi, þótt óvissa af völdum veirufaraldursins sé vissulega enn fyrir hendi.

Með auknu aðhaldsstigi sem felst í afkomubatanum leggst ríkisfjármálastefnan á sveif með peningamálastefnu Seðlabankans við að varna þenslu og verðbólgu og draga úr þörf fyrir hærra vaxtastig.

Heilbrigðismálin í forgrunni 

Líkt og undanfarin ár verða framlög til heilbrigðismála í forgrunni þegar kemur að forgangsröðun fjármuna. Í fjárlögum fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að framlög til heilbrigðismála aukist mest allra málefna, eða um 19 ma.kr. að raunvirði. 

Sé litið lengra aftur hafa útgjöld til heilbrigðismála aukist um 79% á árunum 2010 til 2022 á föstu verðlagi. Um er að ræða 5% árlegan raunvöxt að jafnaði. 

Þegar eingöngu er litið til Landspítalans nemur útgjaldaaukningin um 4,4% að jafnaði á ári milli sömu ára og nema þau ríflega 90 ma.kr. árið 2022.

Heildarskatttekjur 952 ma.kr. 2022

Kröftug viðspyrna og bætt staða í hagkerfinu veldur því að útlit er fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 63 ma.kr. hærri árið 2022 en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun sl. vor. Heildartekjur ríkissjóðs verða þá 952 ma.kr.

Bætt staða skýrist einkum af verulegri aukningu tekna af tekjuskatti einstaklinga og lögaðila. Skattarnir skila hvor um sig 16 ma.kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Veltuskattar skila einnig meiru og er nú reiknað með að tekjur af virðisaukaskatti verði tæplega 3 ma.kr. meiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. 

Áframhaldandi lækkun tekjuskatts einstaklinga

Á nýliðnu kjörtímabili var ráðist í umfangsmiklar umbætur á skattkerfinu. Þar ber fyrst að nefna verulega lækkun tekjuskatts einstaklinga sem skilar heimilunum 23 ma.kr. hærri ráðstöfunartekjum. Síðasti hluti þessara umbóta á tekjuskattskerfi einstaklinga tekur gildi nú um áramótin.Þessar breytingar hafa einkum beinst að því að draga úr skattbyrði þeirra tekjulægri. 

Áfram verk að vinna

Skuldaþróun ríkissjóðs hefur reynst vera mun hagfelldari en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Nú er útlit fyrir að þær verði hátt í 300 ma.kr. lægri í lok tímabils fjármálastefnu til næstu fimm ára. Eftir sem áður verður áfram verk að vinna við að ná skuldahlutfallinu niður á það stig sem veitir stjórnvöldum nauðsynlegt svigrúm til að milda áhrif af óvæntum efnahagsáföllum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta