Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 72/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                    

Miðvikudaginn 28. janúar 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 72/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Mosfellsbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 16. desember 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Mosfellsbæjar, dags. 11. desember 2014, á umsókn hennar um sérstakar húsaleigubætur.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. október 2014, sótti kærandi um sérstakar húsaleigubætur hjá Mosfellsbæ. Umsókn kæranda var synjað með bréfi fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, dags. 7. nóvember 2014, á þeirri forsendu að leiguhúsnæði kæranda væri ekki samþykkt. Kærandi áfrýjaði synjuninni til fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar með bréfi, dags. 18. nóvember 2014. Fjölskyldunefndin tók málið fyrir á fundi sínum þann 10. desember 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskyldunefnd staðfestir bókun trúnaðarmálafundar um synjun á sérstökum húsaleigubótum þar sem íbúðin sem umsækjandi býr í uppfyllir ekki ákvæði 1. gr. reglna Mosfellsbæjar um sérstakar húsaleigubætur frá 8. janúar 2008 með síðari breytingum um að vera samþykkt íbúðarhúsnæði.

Niðurstaða fjölskyldunefndar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 11. desember 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 16. desember 2014. Með bréfi, dags. 17. desember 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Mosfellsbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir öllum gögnum málsins. Greinargerð Mosfellsbæjar barst með bréfi, dags. 22. desember 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. janúar 2015, var bréf Mosfellsbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún leigi kjallaraíbúð og fái greiddar húsaleigubætur vegna hennar. Hún hafi sótt um sérstakar húsaleigubætur vegna aðstöðu sinnar en hún sé veik og þurfi hjálp þrátt fyrir að búa í ósamþykktri íbúð. Hún sé búin að vera lengi á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð hjá Mosfellsbæ og Öryrkjabandalaginu en það sé löng bið eftir slíku húsnæði. Hún hafi haldið að Mosfellsbær gæti komið til móts við hana á meðan hún væri að bíða eftir félagslegu húsnæði. Kærandi tekur fram að hún búi ein, sé á örorkubótum og þurfi að borga mikinn lækna- og lyfjakostnað ásamt öllu öðru en það sé ekki að ganga upp.

 

III. Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í greinargerð Mosfellsbæjar vegna kærunnar kemur fram að í gildi séu reglur um sérstakar húsaleigubætur hjá sveitarfélaginu. Í 1. gr. reglnanna sé kveðið á um að sérstakar húsaleigubætur séu fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu vegna samþykktra íbúða á almennum markaði til viðbótar við almennar húsaleigubætur. Kærandi búi í kjallaraíbúð sem sé ekki samþykkt séreign heldur hluti af raðhúsi. Eignin uppfylli því ekki 1. gr. reglnanna og á þeim grundvelli hafi umsókn kæranda verið synjað.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um sérstakar húsaleigubætur hjá Mosfellsbæ sem samþykktar voru í bæjarstjórn þann 16. janúar 2008, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Mosfellsbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur.

Í 1. gr. framangreindra reglna Mosfellsbæjar er fjallað um markmið og hlutverk sérstakra húsaleigubóta en þar segir:

Sérstakar húsaleigubætur eru ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem eiga í erfiðleikum með að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra erfiðleika. Aðstæður umsækjenda eru metnar út frá ákveðnum viðmiðum, sem tilgreind eru í 2. gr.

Sérstakar húsaleigubætur er fjárstuðningur til greiðslu húsaleigu vegna samþykktra íbúða á almennum markaði til viðbótar við almennar húsaleigubætur.

Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að íbúðin væri ekki samþykkt, sbr. 1. gr. reglnanna.

Samkvæmt upplýsingum úr Fasteignaskrá Íslands er eina íbúðarhúsnæðið sem skráð er að B raðhús sem er X fermetrar að stærð. Samkvæmt húsaleigusamningi, dags. 1. október 2014, leigir kærandi kjallaraíbúð sem er hluti af raðhúsinu. Leiguhúsnæði kæranda er því ekki samþykkt. Í framangreindum reglum Mosfellsbæjar er ekki kveðið á um undanþágu frá skilyrði 1. gr. um að íbúð verði að vera samþykkt. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 1. gr. reglnanna sé fortakslaust. Leiguhúsnæði það sem hér um ræðir uppfyllir því ekki skilyrði 1. gr. reglna Mosfellsbæjar um sérstakar húsaleigubætur og á kærandi ekki rétt á greiðslu sérstakra húsaleigubóta. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Mosfellsbæjar, dags. 11. desember 2014, um synjun á umsókn A um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta