Nr. 285/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 22. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 285/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21040063
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 27. apríl 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Tyrklands (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. apríl 2021, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi hinn 15. júlí 2019 með gildistíma til 29. apríl 2020 á grundvelli sambúðar með íslenskum ríkisborgara, […]. Var leyfið endurnýjað einu sinni, með gildistíma til 26. apríl 2021. Samkvæmt gögnum málsins sleit kærandi sambúðinni og hóf sambúð með öðrum íslenskum ríkisborgara, […], í kjölfarið. Var sambúðin skráð í Þjóðskrá hinn 19. mars 2021. Þann 22. mars 2021 lagði kærandi fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. apríl 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 27. apríl 2021 en meðfylgjandi kæru voru athugasemdir kæranda ásamt fylgigögnum. Frekari athugasemdir og fylgigögn bárust frá kæranda hinn 4. maí 2021.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til ákvæðis 70. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins hefðu kærandi og maki ekki verið í sambúð lengur en eitt ár og þá ætti undanþáguheimild 2. mgr. 70. gr. ekki við í málinu. Synjaði stofnunin því umsókn kæranda um dvalarleyfi.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að hún hafi verið búsett á Íslandi frá því í júlí 2019 og búin að setjast hér að. Vísar kærandi til þess að hún og fyrrverandi maki hafi slitið sambúð sinni og hafi hún flutt úr íbúð hans í apríl 2020. Í kjölfarið hafi hún byrjað í sambandi með öðrum íslenskum ríkisborgara en þau hafi þekkst frá árinu 2018. Hafi sambúð þeirra hafist í kringum apríl 2020 heima hjá bróður kæranda og hafi þau keypt sér saman fasteign að […] í september 2020. Hafi lögheimili þeirra beggja verið skráð að […] síðan 1. október 2020 og hinn 18. mars 2021 hafi þau skráð sambúð sína í Þjóðskrá. Byggir kærandi á því að þótt sambúð hennar og maka sé ekki búin að vara formlega í eitt ár sé raunin önnur.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandanda samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 69. gr. laganna teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn eigi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð. Skal sambúðin hafa varað lengur en eitt ár. Hvor aðili um sig verður að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar. Þá þarf hjúskapur eða sambúð viðkomandi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur. Loks er heimilt að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.
Eins og að framan greinir var kærandi með útgefið dvalarleyfi á grundvelli sambúðar við […] á tímabilinu 15. júlí 2019 til 26. apríl 2021. Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að endurnýja dvalarleyfi útlendings ef skilyrðum leyfisins er áfram fullnægt. Ljóst er að þegar kærandi lagði fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfisins hafði sambúð þeirri sem lá til grundvallar leyfinu verið slitið. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki forsendur til að fallast á endurnýjun dvalarleyfis kæranda, enda var skilyrðum þess ekki fullnægt þar sem dvalarleyfi á grundvelli sambúðar samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga er bundið við tiltekna sambúð.
Af hinni kærðu ákvörðun verður á hinn bóginn ráðið að Útlendingastofnun hafi jafnframt litið svo á að í umsókn kæranda fælist umsókn um nýtt dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga og lagt mat á það hvort heimilt á grundvelli 2. mgr. að veita slíkt dvalarleyfi þrátt fyrir að ekki væri fullnægt skilyrði 1. mgr. um að sambúð hafi varað lengur en eitt ár.
Samkvæmt gögnum málsins hafa kærandi og sambúðarmaki aðeins verið með skráð lögheimili á sama stað síðan 1. október 2020. Þrátt fyrir að gögn málsins bendi til þess að samband þeirra hafi hafist fyrir þann tíma þá verður ekki séð af gögnunum að sambúð þeirra hafi hafist fyrr. Er því ljóst að sambúð kæranda og sambúðarmaka hennar uppfyllir ekki tímaskilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.
Í 2. mgr. 70. gr. kemur fram að heimilt sé að beita ákvæðum 1. mgr. þótt sambúð hafi varað skemur en eitt ár ef sérstakar ástæður mæla með því. Í athugasemdum við 2. mgr. 70. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga kemur fram að ákvæðið geti átt við í þeim tilvikum þegar aðilar eiga barn saman eða eiga von á barni saman og ætla sér að búa saman hér á landi. Þá sé heimilt að víkja frá skilyrðum um tímalengd skráðrar sambúðar og skráningar erlendis ef heildstætt mat á aðstæðum aðila leiðir í ljós að ósanngjarnt eða ómögulegt sé að krefjast þess að sambúð hafi verið skráð í tilskilin tíma, t.d. vegna löggjafar eða aðstæðna í heimaríki eða sérstakra aðstæðna ábyrgðaraðila og maka hans og hægt er að sýna fram á sambúð með öðrum hætti.
Samkvæmt gögnum málsins eiga kærandi og sambúðarmaki hennar ekki börn né von á barni og telur kærunefndin ekki að þær aðstæður sem skapast hafa í heiminum vegna Covid-19 heimsfaraldurs séu einar og sér þess eðlis að þær teljist „sérstakar ástæður“ í skilningi 2. mgr. 70. gr. Eru atvik málsins að öðru leyti ekki þess eðlis að tilefni sé til að beita undanþáguákvæði 2. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Með vísan til þess og alls framangreinds verður hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Tómas Hrafn Sveinsson
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares