2300 skjalabækur á nýjum vef – aukinn aðgangur að fróðlegum heimildum
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnaði vefinn við hátíðlega athöfn þann 1. desember 2018 en þar var einnig viðstaddur Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur sem afhenti safninu stafræn afrit 20.000 skjala er tengjast samskiptum Íslands og Danmerkur á fyrri hluta 20. aldar og varðveitt eru í Danska ríkisskjalasafninu. Einnig var opnuð vefsýning um fullveldið og konungsríkið Ísland 1918-1944. Hún byggir á gögnum úr íslenskum og dönskum skjalasöfnum og hentar meðal annars vel sem námsefni í skólum. Sýningin er bæði á íslensku og dönsku.
Að þessu tilefni veitti Eiríkur G. Guðmundsson þjóðskjalavörður ráðherrunum leiðsögn um sýningu á skjölum úr skjalaafhendingu Dana frá 1928, en þá afhentu Danir um 120 hillumetra af skjölum sem varða sögu landsins. Fyrr á árinu gaf Þjóðskjalasafn út smáritið Danska sendingin 1928 þar sem fjallað er um aðdraganda og eftirmála hennar. Meðal skjala sem þá skiluðu sér aftur til Íslands voru manntalið 1703, elsta manntal heimsins þar sem getið er nafna, stöðu, heimilis og aldurs allra Íslendinga og er nú á heimsskrá UNESCO yfir minni heimsins, og lénsreikningur Íslands 1647-1648.
Sjá nánar á www.heimilidir.is og www.skjalasafn.is