Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Sjávarútvegsskóli GRÓ útskrifar 22 sérfræðinga

Útskriftarhópurinn við athöfnina í gær. Ljósmynd: GRÓ - mynd

Tuttugu og tveir sérfræðingar frá fjórtán löndum útskrifuðust frá Sjávarútvegsskóla GRÓ í gær. Hópurinn hefur dvalið á Íslandi við nám síðustu sex mánuði og er 24. árgangurinn sem lýkur námi við skólann.

Alls hafa nú 464 sérfræðingar frá 66 löndum lokið námi frá Sjávarútvegsskólanum. Þá hafa 19 lokið meistaranámi og 16 doktorsnámi við íslenska háskóla með stuðningi frá honum. Einnig hefur Sjávarútvegskólinn haldið fjöldamörg styttri námskeið og vinnustofur í samstarfslöndum, stutt útskrifaða nemendur til þátttöku í alþjóðlegum ráðstefnum og tekið á móti erlendum sendinefndum sem komið hafa til landsins að kynna sér íslenskan sjávarútveg.

Í útskriftarhópnum að þessu sinni voru sex sérfræðingar frá tveimur Vestur-Afríku, löndum sem Ísland átt í nánu samstarfi við síðustu ár á sviði þróunarsamvinnu, Síerra Leóne og Líberíu. Sjávarútvegsskólinn hefur einnig verið að auka samstarf við lönd í Rómönsku Ameríku og smáeyþróunarríki (SIDS) í Karíbahafinu, en frá þessum svæðum komu átta sérfræðingar. Að venju komu líka allmargir sérfræðingar frá Austur-Afríku og Suður-Asíu. Flestir útskrifuðust af Fiskveiðistjórnunarlínu (9), þá af Stofnstærðarlínu (6), Fiskeldislínu (4) og Gæðastjórnunarlínu (3).

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri HAFRÓ, hýsistofnunar Sjávarútvegsskólans, bauð gesti velkomna og stýrði samkomunni.

Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, ávarpaði gesti fyrir hönd GRÓ - þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu – og færði útskriftarhópnum hamingjuóskir utanríkisráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur. Nína vakti athygli á að þjálfunarverkefnin fjögur sem rekin eru undir hatti GRÓ miðstöðvarinnar hafa nú starfað samanlagt í 100 ár og hafa útskrifað nákvæmlega 1.600 sérfræðinga hvaðanæva að úr heiminum. Hún sagðist vera afar stolt af þessum stækkandi hópi útskrifaðra GRÓ sérfræðinga. Hún hefði hitt marga þeirra á ferð sinni til Kenía og Úganda nýverið. Áform væru uppi hjá GRÓ um að auðvelda þessum hópi að eiga samskipti þvert á þjálfunarverkefnin fjögur.

Þá flutti Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir, skrifstofustjóri sjávarútvegs í matvælaráðuneytinu ræðu og færði útskriftarhópnum hamingjuóskir ráðherra, Svandísar Svavarsdóttur. Áslaug gerði að umtalsefni mikilvægi rannsókna og nýsköpunar. Þrátt fyrir að margt væri vel gert í íslenskum sjávarútvegi þá væru fjöldamargar áskoranir sem takast þyrfti á við, ekki hvað síst í loftslagsmálum. Hún vonaðist til að sérfræðingarnir sem nú væru að útskrifast hjá Sjávarútvegsskólanum tækju virkan þátt í umræðu um þessi mál eftir að þeir sneru heim.

Julie Ingham, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla GRÓ, þakkaði framlag þeirra fjölmörgu sem koma að þjálfunarnámi skólans, kennurum, umsjónarmönnum, fyrirtækjunum og öðrum.

Að því loknu kynnti hún sérfræðingana sem nú voru að ljúka námi sínu hér á landi og stýrði afhendingu útskriftarskírteina.

Athöfnin endaði með stuttri tölu frá Chadwick Bironga Henry, frá Kenía, fyrir hönd nemenda. Hann þakkaði Sjávarútvegsskólanum og öllum samstarfsaðilum hans fyrir það tækifæri að fá að taka þátt í þjálfunarnáminu hér á landi. Auk þess að hafa aflað sér nýrrar þekkingar og hæfni á sínu sérsviði sagði hann að sterk vináttutengsl hefðu myndast meðal nemenda, leiðbeinenda og GRÓ starfsfólks, tengsl sem myndu nýtast í leik og starfi um ókomna tíð.

Rannsóknir á reykofnum

Í meðfylgjandi viðtölum við þrjá nemendur frá Sierra Leóne, Geraldeen Labor-Sesay, Josephine May Kabba og Benrina Demoh Kanu, sem starfa allar hjá Sjávarútvegsráðuneytinu í Síerra Leóne, kemur fram að þær hafa verið að rannsaka ávinninginn af Matis ofnum umfram aðrar tegundir ofna til að reykja fisk. Niðurstöður rannsókna þeirra benda eindregið til þess að Matis ofninn hafi talsverða yfirburði umfram aðra ofna varðandi gæði, hagkvæmni og vinnuskilyrði kvenna. Niðurstöður þeirra ættu því að nýtst vel í því stóra verkefni að endurnýja gamla úrelta reykofna sem enn eru í notkun í Síerra Leóne og um alla Vestur-Afríku.

Sjávarútvegsskólinn hefur starfað frá árinu 1998 og er eitt fjögurra þjálfunarverkefna sem rekið er undir GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu og sem hafa frá upphafi verið ein af helstu stoðum í íslenskri þróunarsamvinnu. Hin verkefnin eru Jafnréttisskólinn, Landgræðsluskólinn og Jarðhitaskólinn.

GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Miðstöðin starfar á þeim sviðum þar sem Ísland hefur sérþekkingu sem getur nýst þróunarlöndum við að stuðla að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta