Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 298/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 298/2023

Þriðjudaginn 29. ágúst 2023

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum hans um styrki til að greiða fyrir gistikostnað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er heimilislaus og þiggur fjárhagsaðstoð sér til framfærslu frá Reykjavíkurborg. Á árinu 2023 hefur kærandi dvalið á hótelum og sótt nokkrum sinnum um styrki frá Reykjavíkurborg til að greiða fyrir gistikostnað. Með bréfi Austurmiðstöðvar, dags. 24. febrúar 2023, var kæranda synjað um styrk vegna dvalar á tímabilinu 9. mars til 1. apríl 2023. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá synjun með ákvörðun, dags. 1. mars 2023. Með bréfi Austurmiðstöðvar, dags. 19. apríl 2023, var kæranda synjað um styrk vegna dvalar á tímabilinu 9. apríl til 1. maí 2023. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá synjun með ákvörðun, dags. 26. apríl 2023. Með bréfum Austurmiðstöðvar, dags. 4. maí 2023, var kæranda synjað um styrki vegna dvalar á tímabilinu 18. mars til 1. apríl 2023 og 18. apríl til 1. maí 2023. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá synjun með ákvörðun, dags. 10. maí 2023. Með bréfi Austurmiðstöðvar, dags. 23. maí 2023, var kæranda synjað um styrk vegna dvalar á tímabilinu 18. maí til 31. maí 2023.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 26. maí 2023. Með bréfi, dags. 14. júní 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 6. júlí 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júlí 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann fái 170.000 kr. í fjárhagsaðstoð sem samkvæmt ráðgjöfum Reykjavíkurborgar hann verði að nota að fullu áður en hann geti sótt um styrk vegna gistikostnaðar. Kærandi hafi verið með samning við Hótel Laxnes en þar séu rúm og aðstæður sem henti honum og valdi minni svefnleysi en í öðrum aðstæðum. Reykjavíkurborg eigi að aðstoða kæranda með húsnæði til leigu ef hann komist ekki sjálfur í leiguhúsnæði. Það hafi hann reynt í yfir tvö ár, án árangurs og hafi verið á götunni eða í bíl megnið af þeim tíma þar til í desember 2022. Síðan þá hafi kærandi þurft að vera á hóteli. Allt hafi verið í sóma þar til Reykjavíkurborg hafi byrjað að synja honum vegna þess að veður sé orðið betra. Kærandi hafi ekki verið látinn vita og skuldi nú hótelinu um hálfa milljón. Kærandi óski eftir að kæra allar synjanir Reykjavíkurborgar og að hótelskuldin verði greidd eins og skot.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að af kæru, dags. 26. maí 2023, megi ætla að kærandi óski eftir að skjóta niðurstöðum áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 1. mars 2023, 26. apríl 2023, 10. maí 2023, 31. maí 2023 og 14. júní 2023 til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Kærandi sé X ára karlmaður sem þiggi fjárhagsaðstoð sér til framfærslu frá Reykjavíkurborg. Hann eigi langa sögu um félagslega erfiðleika og einnig sögu um fíkniefnaneyslu. Kærandi sé heimilislaus og hafi að mestu búið í bílnum sínum frá lok árs 2021 fyrir utan nokkrar nætur á gistiheimili. Frá janúar 2023 hafi kærandi ýmist dvalið á Hótel Brim eða Hótel Laxnes. Í janúar 2023 hafi kærandi notað eigin fjárhagsaðstoð til framfærslu til að greiða fyrir tímabilið 1. janúar 2023 til 9. janúar 2023 ýmist á Hótel Brim eða Hótel Laxnes. Á miðstöð Reykjavíkurborgar hafi verið samþykkt að veita kæranda styrk að upphæð 90.000 kr., samkvæmt a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til að greiða gistiheimiliskostnað fyrir tímabilið 9. janúar 2023 til 18. janúar 2023. Þann 9. janúar 2023 hafi kærandi sótt um styrk fyrir dvöl á Hótel Laxnes fyrir tímabilið 19. janúar 2023 til 31. janúar 2023 að upphæð 140.000 kr. samkvæmt a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem hafi verið synjað á Austurmiðstöð með bréfi, dags. 12. janúar 2023. Kærandi hafi skotið framangreindri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi samþykkt á fundi sínum þann 25. janúar 2023 að veita kæranda styrk að upphæð 140.000 kr. samkvæmt a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til að greiða fyrir gistiheimiliskostnað tímabilið 18. til 31. janúar 2023.

Kærandi hafi haft samband við Austurmiðstöð þann 13. febrúar 2023 og óskað eftir styrk til að greiða fyrir áframhaldandi dvöl á Hótel Laxnes. Félagsráðgjafi kæranda hafi hvatt hann til að athuga hvort hann gæti fengið ódýrari gistingu og í framhaldi af því myndi Austurmiðstöð taka afstöðu í málinu. Kæranda hafi verið bent á að nóttin á SM hostel væri töluvert ódýrari heldur en nóttin á Hótel Laxnes. Kærandi hafi borið fyrir sig verkjum í baki vegna brjóskloss og gæti þar af leiðandi ekki sofið hvar sem er, svo sem í bílnum sínum eða gistiskýlum Reykjavíkurborgar. Kærandi hafi einnig borið fyrir sig slæma reynslu af gistiskýlum Reykjavíkurborgar. Kærandi hafi því verið hvattur til að skila inn læknisvottorði til að staðfesta framangreinda verki í baki. Læknisvottorð hafi borist Austurmiðstöð þann 15. febrúar 2023. Í framhaldi hafi Austurmiðstöð tekið ákvörðun um að veita kæranda styrk að upphæð 100.000 kr. fyrir tímabilið 14. febrúar 2023 til 24. febrúar 2023 á Hótel Laxnes. Þann 14. febrúar 2023 hafi kærandi sótt um styrk að upphæð 50.000 kr. til greiðslu á Hótel Laxnes fyrir tímabilið 24. febrúar 2023 til 1. mars 2023, samkvæmt a. lið 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Framangreindri umsókn hafi verið synjað á Austurmiðstöð. Kærandi hafi skotið þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 22. febrúar 2023 og samþykkt að veita kæranda styrk að upphæð 50.000 kr. fyrir umrætt tímabil. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi lagt áherslu á að kærandi myndi leita allra leiða til að útvega sér annað húsnæði. Þá beri að taka fram að kærandi hafi sótt um íbúð hjá Ölmu leigufélagi og sé á biðlista þar eftir íbúð. Kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn þann 7. desember 2021. Umsókn kæranda sé á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði. Kærandi hafi sjálfur greitt fyrir dvöl á Hótel Laxnes fyrir tímabilið 1. mars 2023 til 8. mars 2023 og sótt þann 24. febrúar 2023 um styrk fyrir dvöl á Hótel Laxnes fyrir tímabilið 9. mars 2023 til 1. apríl 2023 að upphæð 230.000 kr. samkvæmt a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem hafi verið synjað á Austurmiðstöð með bréfi, dags. 24. febrúar 2023. Kærandi hafi skotið þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 1. mars 2023 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um styrk að upphæð kr. 230.000.- til greiðslu á gistiheimili fyrir tímabilið 9. mars 2023 til 1. apríl 2023, skv. a. lið 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.“

Þann 11. apríl 2023 hafi kærandi sótt um styrk fyrir dvöl á Hótel Laxnes fyrir tímabilið 9. apríl 2023 til 1. maí 2023 að upphæð 220.000 kr. samkvæmt a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem hafi verið synjað á Austurmiðstöð með bréfi, dags. 19. apríl 2023. Kærandi hafi skotið þeirri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 26. apríl 2023 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um styrk að upphæð kr. 220.000.- til greiðslu á gistiheimili fyrir tímabilið 9. apríl 2023 til 1. maí 2023, skv. a. lið 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.“

Þann 28. apríl 2023 hafi kærandi sótt um styrk fyrir dvöl á Hótel Laxnes fyrir tímabilið 18. mars 2023 til 1. apríl 2023 að upphæð 140.000 kr. og tímabilið 18. apríl 202 til 1. maí 2023 að upphæð 130.000 kr., samkvæmt a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Framangreindum umsóknum hafi verið synjað á Austurmiðstöð með bréfum, dags. 4. maí 2023. Kærandi hafi skotið framangreindum ákvörðunum til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið málin fyrir á fundi sínum þann 10. maí 2023 og afgreitt þau með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um styrk að upphæð kr. 140.000.- til greiðslu á gistiheimili fyrir tímabilið 18. mars 2023 til 1. apríl 2023, og styrk til greiðslu á gistiheimili að upphæð kr. 130.000.- fyrir tímabilið 18. apríl 2023 til 1. maí 2023 skv. a. lið 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.“

Þann 22. maí 2023 hafi kærandi sótt um styrk fyrir dvöl á Hótel Laxnes fyrir tímabilið 18. maí 2023 til 31. maí 2023 að upphæð 140.000 kr., samkvæmt a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem hafi verið synjað á Austurmiðstöð með bréfi, dags. 23. maí 2023. Kærandi hafi skotið framangreindri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 31. maí 2023 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um styrk að upphæð kr. 140.000.- til greiðslu á gistiheimili fyrir tímabilið 18. maí 2023 til 31. maí 2023, skv. a. lið 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.“

Þann 2. júní 2023 hafi kærandi sótt um lán að upphæð 400.000 kr. vegna skuldar við gistiheimilið Hótel Laxnes samkvæmt 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem hafi verið synjað á Austurmiðstöð með bréfi, dags. 8. júní 2023. Kærandi hafi skotið framangreindri ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 14. júní 2023 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um lán að upphæð kr. 400.000.- til greiðslu á gistiheimiliskostnaði, skv. 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.“

Kærandi hafi þá óskað eftir rökstuðningi á staðfestingu áfrýjunarnefndar velferðarráðs frá 14. júní 2023 og honum hafi verið sent bréf þess efnis þann 28. júní 2023.

Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi tekið gildi 1. apríl 2021 og hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 24. febrúar 2021, á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021 og á fundi borgarstjórnar þann 16. mars 2021. Umræddar reglur séu settar á grundvelli laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Varðandi niðurstöður áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 1. mars 2023, 26. apríl 2023, 10. maí 2023 og 31. maí 2023 þá sé ákvæði a. liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg svohljóðandi:

„Heimilt er að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið er að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miðar að því að viðhalda árangri sem náðst hefur með úrræðum og/eða stuðningsvinnu. Skilyrði er að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum og að einstaklingsáætlun hafi verið gerð.“

Samkvæmt framangreindu sé heimilt að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið sé að veita markvissan stuðning en í þeim tilfellum beri að líta til þeirrar vinnu sem hafi verið í málum umsækjanda undanfarin ár og tilgangur aðstoðarinnar sé að viðhalda þeim árangri sem hafi náðst með úrræðum og/eða stuðningsvinnu. Þá sé það skilyrði að viðkomandi hafi átt í miklum félagslegum erfiðleikum og að einstaklingsáætlun hafi verið gerð. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi talið, þrátt fyrir aðstæður kæranda, að ekki væri unnt að fella gistiheimiliskostnað á Hótel Laxnes undir a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Ekki hafi verið litið svo á að aðstæður kæranda væru ósambærilegar við aðra aðila í svipaðri stöðu, þ.e. þá sem ekki hafi í nein hús að venda. Það að kærandi eigi við bakvandamál að stríða líkt og fram komi í læknisvottorði þann 15. febrúar 2023 hafi ekki verið talin næg ástæða til að greiða fyrir áframhaldandi dvöl á Hótel Laxnes. Kæranda hafi ítrekað verið bent á að leita sér ódýrari gistingu svo sem á SM hosteli, þar sem nóttin sé töluvert ódýrari en á Hótel Laxnes, en án árangurs. Þá standi heimilislausum til boða að gista í gistiskýlum Reykjavíkurborgar en kæranda hafi ekki hugnast sá kostur. Það hafi því verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að skilyrði a. liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð væru ekki uppfyllt þar sem ekki væri unnt að líta svo á að um væri að ræða aðstoð sem miði að því að viðhalda árangri sem hafi náðst með stuðningsvinnu, sbr. a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.

Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs að staðfesta synjanir Austurmiðstöðvar um styrki vegna gistiheimiliskostnaðar samkvæmt a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg þann 1. mars 2023, 26. apríl 2023, 10. maí 2023 og 31. maí 2023.

Varðandi ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 14. júní 2023 þá sé ákvæði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg svohljóðandi:

„Heimilt er að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:

a) umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur,

b) staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana,

c) fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar eða Umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á,

d) fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni breyta skuldastöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið,

e) fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við

Þegar um lán er að ræða skal greiðsluáætlun fylgja með umsókn.

Eigi er heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir, s.s. greiðslukortafyrirtæki. Þá er hvorki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skattaskulda og sekta, né heldur til greiðslu skulda við einkaaðila.

Gildistími umsóknar er þrír mánuðir frá samþykkisdegi.“

Samkvæmt framangreindu ákvæði þurfi öll skilyrði 24. gr. að vera uppfyllt svo heimilt sé að veita lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslega og félagslegra erfiðleika. Kæranda hafi verið synjað um styrk vegna sérstakra erfiðleika þar sem öll skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt.

Skilyrði a-liðar 24. gr. sé uppfyllt þar sem kærandi hafi þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu undanfarna sex mánuði eða lengur. Skilyrði b-liðar 24. gr. reglnanna sé uppfyllt þar sem fyrir liggi staðfesting á því að kærandi njóti ekki lánafyrirgreiðslu lánastofnana. Þá séu skilyrði c-liðar 24. gr. uppfyllt að hluta þar sem yfirlit yfir fjárhagsstöðu kæranda sé að einhverju leiti að finna í greinargerð félagsráðgjafa fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar en ekki liggi fyrir yfirlit umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu kæranda og tillögur að úrbótum þegar við eigi. Þar að auki séu skilyrði d-liðar ekki uppfyllt þar sem ekki liggi fyrir að styrkur muni styrkja félagslega stöðu kæranda til lengri tíma. Að lokum séu skilyrði e-liðar ekki uppfyllt þar sem ekki liggi fyrir einstaklingsáætlun og/eða fjármálaráðgjöf um fjárhagsaðstoð.

Þá sé tekið fram í 2. málslið 3. mgr. 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg að eigi sé heimilt að vera styrk eða lán til greiðslu skulda við einkaaðila. Á grundvelli alls framangreinds hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg væru ekki uppfyllt og því hafi synjun Austurmiðstöðvar um styrk upphæð 400.000 kr. til greiðslu á gistiheimiliskostnaði samkvæmt 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð verið staðfest.

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvarðanir áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 1. mars 2023, 26. apríl 2023, 10. maí 2023, 31. maí 2023 og 14. júní 2023 hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum kæranda um styrki til að greiða fyrir gistikostnað. Úrskurðarnefnd velferðarmála bendir á að ekki liggur fyrir kæra vegna synjunar Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um lán til að greiða skuld vegna gistikostnaðar, enda var sú umsókn gerð eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni. Vilji kærandi einnig fá þá ákvörðun endurskoðaða getur hann lagt inn nýja kæru til nefndarinnar innan þriggja mánaða frá því rökstuðningur var kynntur kæranda.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um styrki til greiðslu gistikostnaðar á grundvelli 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg en þar er kveðið á um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna. Samkvæmt a. lið 27. gr. er heimilt að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið er að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miðar að því að viðhalda árangri sem náðst hefur með úrræðum og/eða stuðningsvinnu. Skilyrði er að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum og að einstaklingsáætlun hafi verið gerð.

Umsóknum kæranda var synjað á grundvelli þess að aðstæður hans féllu ekki að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 27. gr. framangreindra reglna. Við meðferð kærumáls þessa hefur meðal annars komið fram af hálfu Reykjavíkurborgar að ekki væri unnt að fella gistikostnað undir a. lið 27. gr. þrátt fyrir aðstæður kæranda. Aðstæður kæranda væru ekki ósambærilegar við aðra aðila í svipaðri stöðu, þ.e. þá sem ekki hefðu í nein hús að venda. Kæranda hafi ítrekað verið bent á að leita að ódýrari gistingu en einnig standi heimilislausum til boða að gista í gistiskýlum Reykjavíkurborgar. Því væri ekki unnt að líta svo á að um væri að ræða aðstoð sem miði að því að viðhalda árangri sem hafi náðst með stuðningsvinnu, sbr. a. lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat Reykjavíkurborgar. Ekki verður séð að í styrkjunum felist aðstoð sem miði að því að viðhalda árangri sem náðst hafi með úrræðum og/eða stuðningsvinnu. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Með vísan til þess eru ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum kæranda um styrki til greiðslu gistikostnaðar staðfestar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum A, um styrki til greiðslu gistikostnaðar, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta