Hoppa yfir valmynd
16. september 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Jóhann Óli hlýtur Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, veitir Jóhanni Óla Hilmarssyni  Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, veitti í dag, á Degi íslenskrar náttúru, Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti en þetta er í fimmtánda sinn sem náttúruverndarviðurkenningin er afhent. Viðurkenninguna hlaut Jóhann Óli Hilmarsson.

Jóhann Óli Hilmarsson er meðal helstu fuglavísindamanna og fuglaljósmyndara landsins. Hann var um árabil formaður Fuglaverndar og ljósmyndir hans hafa birst víða um heim. Hann er höfundur bókanna Lundinn og Íslenskur fuglavísir, sem hafa komið út í yfir 40.000 eintökum víða um heim. Auk þess hefur birst eftir hann fjöldi greina í blöðum og tímaritum.

Þá hefur Jóhann Óli hefur barist ötullega fyrir friðun og endurheimt votlendis og átti stóran þátt í því að Friðland í Flóa varð að veruleika. Sá vettvangur hefur m.a. auðveldað almenningi að kynnast fuglum í sínum náttúrulegum heimkynnum.

Jóhann Óli  hefur frá unga aldri haft mikinn áhuga á fuglalífi og er sjálfmenntaður en öflugur fuglafræðingur. Þá hefur hann verið laginn við að mynda fugla og hafa myndir hans farið víða um heim.

Hann sat í stjórn Fuglaverndar um áratuga skeið, var formaður félagsins í vel yfir 20 ár og  hefur átt stóran þátt í að gera Fuglavernd að því öfluga náttúruverndarfélagi sem það er í dag.

Síðastliðinn 10-15 ár hefur Jóhann Óli starfað við fuglaleiðsögn fyrir íslenska og erlenda fuglaáhugamenn. Er hann gagnkunnur landinu og hefur auk þess farið með hópa í fuglaskoðunarferðir til Evrópu og Austurlanda, sem og ferðast vítt og breitt um heiminn á eigin vegum til að skoða fugla.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra: „Það er mér ánægjuefni að afhenda Jóhanni Óla Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Jóhann Óli er vel þekktur meðal almennings sem einn okkar helsti fræðari og sérfræðingur um allt sem viðkemur fuglum og fuglalífi. Í ljósi þess að á Íslandi eru fjölmörg alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði, þar sem fuglar m.a. koma til vetrardvalar og til að verpa, er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að eiga fólk sem af hugsjón og ástríðu fylgist með fuglunum og fræðir okkur hin um þá.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta