Landspítali og Verandi tilnefnd til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs
Norræn dómnefnd hefur valið 11 verkefni til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs úr hópi þeirra tillagna sem borist hafa frá almenningi á Norðurlöndum. Þemað í ár eru verkefni sem færa okkur nær úrgangslausu samfélagi.
Tveir íslenskir aðilar eru meðal tilnefndra. Annars vegar hlýtur Landspítalinn tilnefningu fyrir að draga úr sóun í starfsemi sinni. Hins vegar hlýtur fyrirtækið Verandi tilnefningu fyrir vandaðar húðvörur sem framleiddar eru með því að endurnýta auðlindir náttúrunnar.
Eftirfarandi hlutu tilnefningu í ár:
Finnland
- Rec Alkaline Ltd - Breytir alkalískum rafhlöðum í hreinan snefilefnaáburð
- RePack - Endurnýtanlegar umbúðir fyrir rafræna verslun
Ísland
- Landspítali - háskólasjúkrahús - Minni sóun, áhersla á færri einnota hluti, endurvinnslu og matarsóun
- Verandi - Framleiðir vandaðar húðvörur með því að endurnýta auðlindir náttúrunnar
Noregur
- Restarters Oslo - Hvetur fólk til að tileinka sér skapandi og félagslega viðgerðamenningu
- Hold Norge Rent - sjálfboðasamtök sem vinna gegn mengun
- Eyde-klyngen - Leiðandi afl í hringrásarhagkerfi iðnaðarins: Verðmæti úr úrgangi
Svíþjóð
- ALLWIN - dregur úr matarsóun, 2 milljónir máltíða á ári fyrir bágstadda
- Matcentralen, Stockholms Stadsmission - vinnuaðlögun og endurdreifing afgangsmatar
- ICA og Rescued Fruits - Drykkir búnir til úr hólpnum ávöxtum frá ICA
- Swedish Algae Factory - Eykur skilvirkni sólarrafhlaðna með efni unnu úr þörungum
Verðlaunin eru veitt árlega norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur tekist á framúrskarandi hátt að flétta náttúru- og umhverfissjónarmið í starfsemi sína, eða hefur á annan hátt lagt fram mikilvægan skerf í þágu náttúru og umhverfis.
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2017 verða afhent í 23. sinn í Helsinki þann 1. nóvember 2017 á þingi Norðurlandaráðs. Verðlaunaféð er 350.000 danskar krónur (rúmlega 5,3 mill ISK).
Nánar um verðlaunin.