Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 393/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. ágúst 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 393/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050047

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. maí 2019, kærði […], kt. […], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2019, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld niður og honum veitt ótímabundið dvalarleyfi hér á landi. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld niður og að kæranda verði veitt tímabundið dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi sem maki útlendings þann 27. febrúar 2015 með gildistíma til 9. febrúar 2016. Þann 12. maí 2015 fékk kærandi útgefið dvalar- og atvinnuleyfi fyrir maka útlendings með gildistíma til 9. febrúar 2016, en það leyfi var endurnýjað þrisvar sinnum, síðast með gildistíma til 19. febrúar 2019. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi þann 28. janúar sl. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá var lögskilnaður milli kæranda og maka hans skráður þann 8. maí 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2019, var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 21. maí sl. Kærandi kærði ákvörðunina þann 22. maí sl. til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd þann 3. júní sl.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til 58. gr. laga um útlendinga sem fjallar um ótímabundið dvalarleyfi. Tók stofnunin m.a. fram að eitt af skilyrðum fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis væri að umsækjandi uppfyllti áfram skilyrði dvalarleyfis þegar hann sækti um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hefðu kærandi og maki hans slitið samvistum þann 7. maí 2018 og lögskilnaður verið skráður þann 8. maí 2018. Því næst rakti stofnunin ákvæði 1. og 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sem fjalla um dvalarleyfi vegna hjúskapar eða sambúðar. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar væru ekki uppfyllt og þar af leiðandi uppfyllti kærandi ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi gengið í hjúskap í mars 2014 með maka sínum. Þann 8. maí 2018 hafi lögskilnaður fengist á milli þeirra á grundvelli 2. mgr. 41. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hafi maki kæranda viðurkennt líkamsárás á kæranda við fyrirtöku skilnaðarmálsins, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Þessu til staðfestingar vísar kærandi jafnframt til dagbókar lögreglustjórans á Suðurnesjum þar sem fram komi að maki kæranda hafi beitt sig ofbeldi og stolið af launum hans. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi byggt hina kærðu ákvörðun á því að hann hafi brotið gegn 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Kærandi tekur fram að hann hafi skilið við maka sinn vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis, líkt og komi fram í endurriti hjónaskilnaðarbóka og dagbók lögreglu.

Í 70. gr. laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að víkja frá því ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður hafi verið fyrir hendi. Kærandi telji að slíkar ástæður hafi verið til staðar sem gerðu það að verkum að honum hafi ekki verið vært lengur í hjónabandinu. Þá byggir kærandi jafnframt á 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda verði ekki annað séð en að umrædd ákvæði eigi við um hann. Þá tekur kærandi m.a. fram að hann geti framfleytt sér á eigin spýtur, en hann sé með fasta atvinnu og hafi aldrei þegið fjárhagsstyrk frá hinu opinbera. Kærandi hafi einnig sótt námskeið í íslensku og lagt sig fram við að aðlagast íslensku samfélagi. Ríkar sanngirnisástæður mæli með því að hann fái dvalarleyfi áfram.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a- til e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Í a-lið 1. mgr. ákvæðisins kemur fram það skilyrði að útlendingur uppfylli áfram skilyrði dvalarleyfis þegar hann sækir um ótímabundið dvalarleyfi.

Líkt og fyrr greinir fékk kærandi útgefið dvalarleyfi hér á landi sem maki útlendings þann 27. febrúar 2015 og var leyfið endurnýjað þrisvar sinnum, síðast með gildistíma til 19. febrúar 2019. Þá er ljóst af gögnum málsins að lögskilnaður milli kæranda og maka hans var skráður af Þjóðskrá Íslands þann 8. maí 2018 og þann 28. janúar 2019 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er hann sótti um ótímabundið dvalarleyfi, enda hafði lögskilnaður milli kæranda og maka hans þá þegar gengið í gegn og skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis skv. 70. gr. laganna því ekki uppfyllt. Þá telur nefndin að þær undantekningar frá 1. mgr. 58. gr. sem kveðið er á um í sama ákvæði geti ekki átt við í máli kæranda. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Vegna umfjöllunar í greinargerð leiðbeinir kærunefnd kæranda um að beina umsókn um dvalarleyfi skv. 9. mgr. 70. gr. laga um útlendinga til Útlendingastofnunar.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki gilt dvalarleyfi hér á landi. Til þess að kærandi eigi rétt á áframhaldandi dvöl á landinu þarf hann að sækja um dvalarleyfi innan 15 daga frá móttöku þessa úrskurðar. Leggi kærandi ekki fram umsókn um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun innan þess frests ber honum að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a. lið 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                 Anna Valbjörg Ólafsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta