Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland sendir hæsta fjárframlagið til UN Women óháð höfðatölu sjöunda árið í röð

Ný stjórn landsnefndar UN Women. - mynd

Á aðalfundi landsnefndar UN Women í vikunni kom fram að söfnunartekjur samtakanna á Íslandi sem sendar voru til stuðnings verkefna UN Women á heimsvísu voru tæplega 156 milljónir króna árið 2022. Þetta er sjöunda árið í röð sem UN Women á Íslandi sendir hæsta fjárframlag allra þrettán landsnefndanna í kjarnasjóð UN Women, óháð höfðatölu.

Aðalfundur UN Women á Íslandi fór fram í nýju húsnæði samtakanna við Sigtún 42, á miðvikudaginn. Arna Grímsdóttir, lögfræðingur, lét þá af störfum sem stjórnarformaður UN Women á Íslandi eftir sex ára setu og Anna Steinsen var kosin stjórnarformaður í hennar stað. Þá hætti Kristín Ögmundsdóttir einnig stjórnarsetu eftir sex ára setu, en hún hefur gegnt stöðu gjaldkera. María Rún Bjarnadóttir og Sævar Helgi Bragason voru kosin ný í stjórn UN Women á Íslandi til næstu tveggja ára.

„Ég hef verið formaður í sex ár og þessi tími er mér ógleymanlegur. Ég þakka stjórn og ungmennaráði fyrir samstarfið og fyrir að gefa tíma sinn og krafta til UN Women á Íslandi. Ég þakka einnig starfsfólki UN Women á Íslandi fyrir sitt kraftmikla og öfluga starf. Dæmi um hugmyndaauðgi starfsfólks er FO-herferð ársins 2022 sem var söguleg fyrir þær sakir að í fyrsta sinn var safnað í hinsegin sjóð UN Women,“ sagði Arna Grímsdóttir að aðalfundi UN Women loknum.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á málefnum kvenna og hef barist fyrir því að allar konur séu valdefldar, óháð stöðu, uppruna og búsetu. UN Women á Íslandi hefur verið að gera frábæra hluti og við viljum gera enn betur í framtíðinni. Ég er mjög spennt fyrir því að taka áfram þátt í þessari vinnu með starfsfólki og stjórn UN Women á Íslandi,“ sagði Anna Steinsen, nýr stjórnarformaður UN Women á Íslandi.

Að loknum aðalfundi er stjórn UN Women á Íslandi nú skipuð: Önnu Steinsen, formanni, Ólafi Elínarsyni, varaformanni, Árna Matthíassyni, gjaldkera, auk þeirra sitja í stjórn Áslaug Eva Björnsdóttir, Ólafur Stephensen, Fida Abu Libdeh, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, María Rún Bjarnadóttir, Sævar Helgi Bragason og Fönn Hallsdóttir, sem fulltrúi ungmennaráðs UN Women á Íslandi.

Mánaðarlegir styrktaraðilar UN Women á Íslandi, Ljósberar, voru rúmlega 9.600 í lok ársins 2022 og hafa aldrei verið fleiri.

Nánar á vef UN Women

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta