Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2005 Innviðaráðuneytið

Öryggi vegfarenda aukið

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur ákveðið að auka vetrarþjónustu og hálkuvarnir á þjóðvegum landsins.

Umferð á þjóðvegum landsins hefur aukist verulega á undanförunum árum. Sé litið fimm ár aftur í tímann, nemur aukningin 20%. Árið 1999 óku landsmenn 1,67 milljarða kílómetra um þjóðvegi landsins en árið 2004 nam heildarakstur um 2 milljörðum kílómetra.

Á sama tíma og umferðaraukning hefur átt sér stað hefur samsetning umferðarinnar breyst verulega. Vöruflutningar á landi hafa aukist verulega eftir að standflutningar lögðust af, bætt vegakerfi hefur stytt ferðatíma sem endurspeglast í auknum ferðalögum almennings, umferðin dreifist á lengri tíma sólarhringsins, umferðarhraði er meiri og kröfur um aukið umferðaröryggi eru stöðugt vaxandi.

Með uppbyggingu vegakerfisins hefur snjósöfnun á vegum orðið minna vandamál en áður var, á móti kemur að hálka á vegum er vaxandi vandamál og þá ekki síst vegna þess að allar helstu leiðir eru nú lagðar bundnu slitlagi sem eykur enn frekar á hálkuvandann.

Með því að mæta áorðinni umferðaraukningu með hækkun á þjónustuflokkun og með því að færa tvo neðstu þjónustuflokkana upp um einn flokk ætti að nást allgóður áfangi í bættri þjónustu á mestum hluta stofnvegakerfisins, bæði hvað varðar þjónustutíma og hálkuvarnir. Þessar breytingar þýða um 10% hækkun á kostnaði við vetrarþjónustu, eða um 100 milljóna króna kostnaðarauka. Án efa mun kostnaðaraukningin skila sér í minni viðhaldskostnaði og umfram allt í bættu öryggi vegfarenda.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta