Menningarkynning Norðurlandanna í Kanada
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fundaði með Cathy Cox menningar- og íþróttamálaráðherra Manitobafylkis í Kanada. Fundurinn var hluti af ferð ráðherra á Íslendingadaginn í Gimli og á fundinum ræddu ráðherrarnir um ákvörðun Norrænu menningarmálaráðherranna frá því í maí síðastliðnum um að halda sameiginlega menningarkynningu Norðurlandanna í Ottawa árið 2021. Markmiðið með kynningunni er meðal annars að efla samskipti norrænna listamanna, kynna norræna menningu og skapa aukin tækifæri fyrir þátttakendur.
Íslensk menning er fyrirferðarmikil í Manitoba en samkvæmt Hagstofu Kanada hafa um 90.000 Kanadamenn í fylkinu skráð uppruna sinn sem íslenskan. Ýmis félagasamtök sem tengjast sögu Vestur-Íslendinga eru starfrækt á svæðinu og Íslendingahátíðir haldnar þar sem sögu og uppruna Vestur-Íslendinga er haldið á lofti, íslenskar bókmenntir kynntar og boðið er upp á íslensk matvæli svo dæmi séu tekin.
,,Það eru mikil tækifæri fólgin í því að rækta tengsl okkar við samfélög Vestur-Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Hér þekkir fólk mjög vel til Íslands, er stolt af íslenskum uppruna sínum og sækist í íslenska menningu. Á Þjóðlagahátiðinni í Winnipeg fyrr í sumar komu til að mynda fjórar íslenskar hljómsveitir fram en hátíðina sækja tugþúsundir gesta og á kvikmyndahátíðinni í Gimli í júlílok voru fjórar íslenskar kvikmyndir sýndar. Við erum staðráðin í að efla þessi tengsl á sviði menningar enn frekar og ég tel að sameiginleg menningarkynning Norðurlandanna í Ottawa árið 2021 geti meðal annars nýst til þess,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Í heimsókn sinni á Íslendingadaginn í Gimli tilkynnti ráðherra einnig um aukinn stuðning við við Íslenskudeild Manitobaháskóla með ráðningu kennara til þriggja ára til að sinna kennslu í íslenskum bókmenntum ásamt öðrum verkefnum.