Ný rannsókn um hlut kynjanna í sjónvarpi
Á málþingi sem menntamálaráðuneytið og Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræði við Háskóla Íslands héldu í dag voru kynntar niðurstöður úr nýrri rannsókn sem ráðuneytið stóð fyrir um hlut kynjanna í sjónvarpi.
Á málþingi sem menntamálaráðuneytið og Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræði við Háskóla Íslands héldu í dag voru kynntar niðurstöður úr nýrri rannsókn sem ráðuneytið stóð fyrir um hlut kynjanna í sjónvarpi. Rannsóknin var gerð fyrr á þessu ári í samvinnu við nema í félags- og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands og er í henni fjallað um konur og karla í fréttum, auglýsingum og sjónvarpsþáttum. Rannsóknin er gerð með sama hætti og hliðstæðar kannanir á hlut kynjanna í sjónvarpi sem gerðar voru árin 1999 og 2000 á vegum nefnar um konur og fjölmiðla og birtar voru í skýrslu nefndarinnar árið 2001.
Í ávarpi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, kom fram að niðurstöður rannsóknanna benda til þess að lítið sem ekkert hafi breyst á þessum árum. Hlutfall karla í fréttum, fréttatengdum þáttum og sjónvarpsþáttum er mun hærra en hlutfall kvenna í öllum þessum flokkum.
Helstu niðurstöður í samanburði við fyrri rannsóknir:
Fréttir
Niðurstöður þessar byggja á innihaldsgreiningu á sex fréttaþáttum eða fréttatengdum þáttum á tveimur sjónvarpsstöðvum á RÚV og Stöð 2. Rannsóknin fór fram í apríl á þessu ári.
Innri og ytri þátttakendur;
1999 - konur 26,8% karlar 73,2%
2000 - konur 23% karlar 77%
2005 - konur 24% karlar 76 %
Ytri þátttakendur; þ.e.viðmælendur og þeir sem fjallað er um:
1999 - konur 24.2% karlar 75,8%
2000 - konur 23,1% karlar 76,9%
2005 - konur 21,7% karlar 78,3%
Þegar ytri og innri þátttakendur eru skoðaðir sitt í hvoru lagi kemur í ljós enn meiri munur á hlutfalli kynjanna. Konur eru 21,7% þeirra sem annað hvort var rætt við í formlegu viðtali, talað var um eða greint frá, en karlar 78,3%.
Með tilliti til aldursdreifingar kemur í ljós að konur eru hlutfallslega fleiri í aldurshópnum 20 - 34 ára en karlar eru hlutfallslega fleiri í öllum eldri flokkum.
Þegar skoðað er hlutfall þeirra sem rætt var við eða talað um í fréttum og fréttaþáttum reyndust 19% viðmælenda Stöðvar 2 konur og 25% viðmælenda hjá Ríkissjónvarpinu voru konur. Þegar kom að því að skrá niður einstaklinga í íþróttafréttum voru þeir sem voru sérstaklega nafngreindir aðeins skráðir, á það við um bæði kynin. Af þeim einstaklingum sem fjallað var um eða talað við vegna íþrótta voru 12% konur og 88% karlar.
Þegar innri þátttakendur, þ.e. fréttamenn og þáttastjórnendur, voru skoðaðir sérstaklega kemur í ljós að karlar eru 69,1% en konur 30,9%.
46% kvenna sem starfa við fréttatengd efni á sjónvarpsstöðvunum eru á aldrinum 20 - 34 ára en 19% karla. Flestir karlar eru á aldrinum 35 - 49 ára eða tæplega 70% og þegar skoðaður er aldurinn 50 ára og eldri eru 11,3% karla í þeim flokki en 1,1% kvenna.
Auglýsingar
Kannaður var hlutur kynjanna í auglýsingum á RÚV, Stöð 2 og Skjá einum á tímabilinu 7. apríl - 6. maí sl. Þar kemur fram að konur voru tæp 30% þeirra sem birtust í auglýsingum en karlar rúm 70%. Karlar voru í meiri hluta í öllum hlutverkum nema sem fyrirsætur en þar voru karlar um 15% en konur rúm 85%. Þulir í auglýsingum voru í 84% tilfella karlkyns en 16% þula voru konur.
Tæp 77% kvenna sem birtast í auglýsingum voru yngri en 34 ára en hjá körlum var hlutfallið jafnt fyrir og eftir 35 ára aldur. Konur sem birtast í auglýsingum voru því að meðaltali talsvert yngri en karlar. Í aldurshópnum 50 - 64 voru karlar tæp 90% þeirra sem birtast í auglýsingum.
Þegar bornar eru saman tölur um hlutfall karla og kvenna í auglýsingum kemur þetta í ljós:
1999 - konur 35% karlar 65% (RÚV og Stöð 2)
2000 - konur 28% karlar 72% (RÚV og Stöð 2)
2005 - konur 30% karlar 70% (Rúv, Stöð 2 og Skjár einn)
Sjónvarpsþættir
Úrtakið var samsett vika á tímabilinu 7. apríl – 6. maí sl., sjónvarpsþættir og kvikmyndir sýndir frá kl. 19:00 – 23:00 hjá RÚV, Skjá einum og Stöð 2. Dreifing kynjanna á milli sjónvarpsstöðvanna er mjög áþekk en þó má greina að Stöð 2 sýnir hlutfallslega flesta karla og fæstar konur samanborið við hinar stöðvarnar. RÚV sýnir hlutfallslega fæsta karla en Skjár einn flestar konur.
1999 – konur 32,2% karlar 67,8% (RÚV og Stöð 2)
2005 – konur 34,9% karlar 65,10% (RÚV, Stöð 2 og Skjár einn)
Allar skýrslurnar þrjár er hægt að nálgast á vef menntamálaráðuneytis.