Fréttapistill vikunnar 12. - 18. mars.
Söluhæstu lyfin – Ísland á toppinn
Tryggingastofnun ríkisins hefur tekið saman lista yfir tíu söluhæstu lyfin á liðnu ári m.v. endurgreiðslur stofnunarinnar. Sömuleiðis hefur TR borið saman smásöluverð lyfjanna á Íslandi og í Danmörku. Smásöluverðið á Íslandi er miðað við hámarkssmásöluverð sem fengið er úr lyfjaverðskrá Lyfjagreiðslunefndar. Rétt er að taka fram að mismunur getur verið á hámarksverði og raunverulegu smásöluverði. Það sem sérstaka athygli vekur á lista TR er hin mikla útbreiðsla sem lyfið Concerta hefur náð hér á landi en það er gefið börnum sem m.a. eiga við athyglisbrest að stríða. Bandaríkjamenn notuðu þetta lyf mest Vesturlandabúa en nú hefur notkunin hér náð nýjum hæðum. Ísland trónir á toppnum þegar notkun lyfsins er borin saman við þjóðirnar fyrir austan okkur og vestan.
Söluhæstu lyfin...
Lyfjastofnun mun birta vikulega s.k. biðlista lyfja
Lyfjastofnun hefur ákveðið að birta vikulega yfirlit yfir lyf sem markaðssett eru á Íslandi og ekki eru fáanleg hjá heildsölu. Í listanum koma m.a. fram upplýsingar um lyf sem ekki eru fáanleg hjá heildsala, hversu lengi þau hafa verið ófáanleg, hvenær búist er við þeim og ástæður fyrir skortinum. Listinn er aðgengilegur á heimasíðu Lyfjastofnunar undir efnisflokknum ,,eftirlit”.
Biðlisti lyfja...
LSH: Sveigjanleg áfengismeðferð og áform um eflda þjónustu við átröskunarsjúklinga
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, heimsótti á dögunum geðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss þegar kynnt var þjónusta sem þar verður veitt þeim sem þurfa á áfengismeðferð að halda. Á vegum deildarinnar eru einnig uppi áform um að efla mjög þjónustu við þá sem þjást af átröskunarsjúkdómum. Áfengismeðferðin sem áður var veitt á dagdeildinni á Teigi, en hefur nú verið flutt inn á geðdeild LSH í nýtt húsnæði, verður svokölluð sveigjanleg meðferð og miðast við þarfir hvers og eins, en sálfræðingar munu í auknum mæli veita þjónustuna. Á stuttum tíma hefur komum á almenna dag- og göngudeild geðsviðs við Hringbraut fjölgað mjög. Þær voru 8.700 árið 2001 en 16.500 í fyrra. Skortur á viðtals- og vinnuherbergjum var því farin að hefta starfsemina og nýja viðbótarhúsnæðið bætir úr brýnni þörf. Hluti húsnæðisins hefur verið innréttaður sérstaklega sem dagdeild fyrir átröskunarsjúklinga. Í dagdeildinni hefur verið komið upp netkaffi þar sem einstaklingar í meðferð geta notað sér tölvutæknina, til náms, þjálfunar og dægrastyttingar. Um leið er horft til framtíðar því víða eru í þróun tölvuprógrömm til að styrkja og efla aðra meðferð við algengum geðröskunum, m.a.við átröskunum. Yfirlæknir vímuefnadeildar er Bjarni Össurarson, deildarstjóri Katrín Guðjónsdóttir. Yfirlæknir almennrar dag- og göngudeildar er Halldóra Ólafsdóttir, deildarstjóri Guðrún Úlfhildur Grímsdóttir. Yfirlæknarnir Halldóra Ólafsdóttir og Bjarni Össurarson, fluttu ávörp þegar hið nýja húsnæði var formlega tekið í notkun auk Eydísar Sveinbjarnardóttur, sviðsstjóra.
Ávarp ráðherra... Ávarp Bjarna Össurarsonar... Ávarp Halldóru Ólafsdóttur... Ávarp Eydísar Sveinbjarnardóttur...
Samstarf stjórnvalda og Landsambands eldri borgara
“Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa nú ákveðið í samráði við Landssamband eldri borgara á fundi í síðustu viku að starfshópur haldi áfram því samstarfi sem tókst svo vel fyrir skemmstu og það er hugsanlegt — ég undirstrika hugsanlegt — að þar verði t.d. tekinn til umfjöllunar jaðarskattavandinn, sem svo er nefndur, ásamt öðrum málum sem háttvirtur málshefjandi hefur rætt um. Árangurinn verður svo að koma í ljós þegar starfinu hefur miðað fram.” Þetta sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, í umræðum utan dagskrár á Alþingi um málefni aldraða. Kom fram í máli ráðherra að verulegur árangur hefði náðst í réttindamálum aldraðra með samstarfi stjórnvalda við Landssambandið sem efnt var til á árinu 2002. Í umræðunum kom fram hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hagur ellilífeyrisþega sem verst standa hefði vænkast mjög undanfarin ár. Um þann þriðjung ellilífeyrisþega sagði ráðherra: “Kaupmáttur tekna þessa hóps jókst um rúmlega 35% á árunum 1995–2003 á meðan kaupmáttur almennra launa jókst um rúmlega 31%. Á þessu sést að hagur aldraðra almennt og þess þriðjungs sem lægstar hefur tekjur hefur vænkast.” Undir lok umræðunnar sagði ráðherra: “Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á að samkomulagið sem gert var við samtök aldraðra fyrir rúmum tveimur árum og við höfum verið að hrinda í framkvæmd skilaði miklum árangri. Það er von til að við getum með sama sniði komið okkur saman, samtökin og stjórnvöld, um markmið og leiðir næstu tvö árin til að bæta hag þeirra sem höllum fæti standa í þessum þjóðfélagshópi.”
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
18. mars 2004